Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 16:45:56 (2438)


[16:45]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég viðurkenni að að það fer mér ósköp illa að vera að andmæla máli sem hv. 6.

þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, er 1. flm. að. Venjulega erum við sammála um þessa hluti og ég er heldur ekki ósammála tillögu hennar og mun að sjálfsögðu styðja hana. En ég vil þó aðeins segja vegna orða hv. þm. um embætti umboðsmanns barna að ég get ekki neitað því að mér finnst það raunhæfari tillaga en t.d. eins og hér segir: að samræma aðgerðir gegn notkun áfengis og vímuefna. Þetta er óskaplega almennt orðalag og erfitt að sjá hvað við eigum að samræma og það var kannski það sem ég gerði að inntaki ræðu minnar að það þyrfti að samræma margt í okkar samfélagi áður en við gætum búist við að eiga heilbrigð, hraust og sterk börn úr góðum fjölskyldum. Ég held að flestir íslenskir foreldrar vilji vera góðir við börnin sín og veita þeim gott uppeldi, en ég held að þjóðfélagið geri þeim það ærið erfitt. Það segir sig sjálft að á heimilum sem eru tröllriðin fjárhagsáhyggjum og þurfum við ekki að líta lengra en til vanskila við Húsnæðisstofnun ríkisins, þegar svo er komið að fjárshagsáhyggjurnar verða öllu yfirsterkari, þá víkur gleðin og það þarf gleði og ást til að ala upp börn svo að þau verði gott fólk. Það á ekki að vera andrúmsloft þar sem allt snýst um að skrapa saman eins mikla peninga og mögulegt er með allt of mikilli vinnu til þess að eiga fyrir lífsnauðsynjum eins og þaki yfir höfuðið og einhverju að borða.
    Að öðru leyti vil ég auðvitað þakka hv. 6. þm. Vestf. fyrir flutning þessarar tillögu, en ég skora, frú forseti, á hv. þingheim að taka nú höndum saman og leggja fjármuni í að búa íslensku fjölskyldunni sómasamlegt líf.