Leiðtogafundur á Þingvöllum árið 2000

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 17:19:14 (2446)


[17:19]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskránni á þskj. 240 en samhliða því frv. er flutt frv. til laga um stjórnlagaþing. Þar sem um skyld mál er að ræða hef ég óskað eftir því við forseta að mæla fyrir báðum þessum frv. við þessa umræðu og hefur virðulegur forseti fallist á það.
    Í frv. til stjórnarskipunarlaga er lagt til að nýtt ákvæði bætist við stjórnarskrána sem gilda skal um stundarsakir en ákvæðið hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:

    Efna skal til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðeldisins Íslands. Um skipan þingsins og störf fer samkvæmt sérstökum lögum. Þingið skal koma saman eigi síðar en 1. júní 1995.
    Þegar þingið hefur afgreitt frv. til nýrra stjórnarskipunarlaga skal bera það undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum málsins. Nái tillagan samþykki skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild stjórnarskipunarlög.``
    Eins og hv. þingmenn vita, þá skilaði stjórnarskrárnefnd á árinu 1983 þingflokkunum skýrslu um störf sín en hún hafði þá starfað frá 1978. Nefndin skilaði af sér tillögum að nýrri stjórnarskrá þar sem tekið var á öllum þáttum stjórnarskrárinnar nema kjördæmaskipuninni. Frá ýmsum þáttum var þó ekki gengið í skýrslu nefndarinnar sem nefndin taldi sig þurfa að fjalla ítarlegar um eins og eignarréttarákvæði og mannréttindi sem ágreiningur var um innan nefndarinnar. Á þessu ári eða í aprílmánuði skilaði nefndin tillögum til þingflokkanna um endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar en enn hefur nefndin ekki lokið umfjöllun um ýmis önnur atriði eins og eignarréttarákvæði.
    Í raun má segja, virðulegi forseti, að endurskoðun stjórnarskrárinnar hafi staðið yfir í rúma fimm áratugi en nefndin sem sett var á laggirnar árið 1978 er sú fimmta í röðinni sem unnið hefur að endurskoðun stjórnarskrárinnar frá því að ákveðið var að slíta sambandinu við Danmörku og stofna lýðveldi 1944. Ljóst er því að áratugum saman hefur heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar vafist fyrir þingmönnum og er það í raun orðið til vansa fyrir Alþingi að þingið skuli ekki geta tekið á grundvallarþáttum í stjórnskipan landsins eins og stjórnarskránni og jafna atkvæðavægi landsmanna. Ég hygg að flestir viðurkenni að sú breyting sem gerð var á kosningareglum hafi í raun mistekist enda tóku reglurnar meira mið af afstöðu einstakra þingmanna þar sem sjónarmið um hvort þeir væru inni eða úti samkvæmt reglunum vó þyngra en að jafna atkvæðavægi landsmanna.
    Með því frv. sem hér er mælt fyrir er lagt til að efnt verði til stjórnlagaþings sem hafi það verkefni að vinna að heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Það er margt sem mælir með því að sérstakt stjórnlagaþing fjalli um heildarendurskoðun á stjórnarskránni, þar með talið kosningalög og reglur. Ekki einasta er að marga áratugi hefur tekið Alþingi að fjalla um þetta mál án nokkurrar skynsamlegrar niðurstöðu, heldur hlýtur á margan hátt að teljast eðlilegra að stjórnlagaþing skipað öðrum en alþingismönnum fjalli um málið. Með því væri komið í veg fyrir að alþingismenn fjölluðu um mál sem vörðuðu þá sjálfa, t.d. ákvæði stjórnarskrárinnar um kosningaskipan og reyndar einnig ráðherraábyrgð sem frv. þetta gerir ráð fyrir að stjórnlagaþing fjalli einnig um. Um þetta eru reyndar fleiri sammála en nokkur umræða varð um endurskoðun stjórnarskrárinnar 1983 í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar sem fjallaði um stjórnarskrármálið.
    Þá birtist greinaflokkur sem nefndist ,,Um stjórnskipun og stjórnarskrá,`` en greinarhöfundar voru Halldór Guðjónsson, Jónas Gíslason, Páll Skúlason, Vilhjálmur Árnason, Sigurður Líndal og Þórður Kristinsson. Þettar greinar birtust sem þskj. með frv. þingmanna Bandalags jafnaðarmanna 1983 um þjóðfund um nýja stjórnarskrá. Þó það frv. væri að efni til að fela öðrum en alþingismönnum að fjalla um stjórnarskrána þá varð það á ýmsan hátt frábrugðið þessu frv. sem hér er til umræðu. M.a. átti hlutverk sérstaks þjóðfundar sem fjalla átti um nýja stjórnarskrá ekki að vera eins víðtækt og meðferð málsins frábrugðin því sem hér er lagt til.
    Í þeim greinum sem birtust í DV og ég áður vitnaði til, kemur m.a. fram eftirfarandi með leyfi forseta, en ég tel að það sem þar birtist styðji einmitt þau rök sem hér eru sett fram fyrir flutningi þessa frv. en þar sagði m.a. í grein sem birtist 28. mars 1983:
    ,,Umræða um stjórnarskrá er ekki einangrað efni, hún snertir alla þætti þjóðlífsins, en ekki einungis svonefnd ,,bráðabirgðalög`` eða það sem menn kalla ,,kjördæmamál`` svo dæmi séu tekin. Hún er ekki einkamál þingmanna og á aldrei að vera tilefni hagsmunatogstreitu milli stjórnar og flokka. Ráðamenn flokkanna eiga ekki þjóðina og hafa engan siðferðilegan rétt til að versla með sameiginleg mál hennar sem væru þau séreign þeirra.``
    Enn fremur segir: ,,En það sem vekur athygli er að þeir ágallar sem birtast í stjórnmálastarfinu og í stjórnsýslunni og eiga sér rætur í stjórnarskránni 1944 eru að miklu leyti látnir óáreittir í uppkastinu frá 1983.`` Og með leyfi forseta segir enn fremur í þessari grein:
    ,,Ríkið birtist í senn sem ágengt og vanmáttugt ferlíki og það hefur gert villu sem enginn er kallaður til ábyrgðar á. Af þeim sökum gerir þjóðin sér óljósa grein fyrir eiginlegu eðli og hlutverki ríkisins.``
    Í grein sem birtist 25. apríl 1983, sem kallaðist ,,Réttarríkið`` kemur fram eftirfarandi með leyfi forseta, en það er kafli sem fjallar um löggjafann og stjórnarskrána. Þar segir:
    ,,Það er enn annað sem veldur því að hinn almenni löggjafi er ekki líklegur til að setja góða stjórnarskrá og að hver sú stjórnarskrá sem hann setur verður tortryggileg. Löggjafinn á að starfa undir ákvæðum stjórnarskrárinnar og leita samræmis við hana í öllum gerðum sínum. Af þessum sökum á hann sjálfur mestra hagsmuna að gæta í mótun stjórnarskrárinnar. Hann verður því, ef hann setur stjórnarskrána sjálfur, dómari í eigin sök. Því blasir við honum sú freisting að haga stjórnarskránni sjálfum sér í hag og setja sig, meðlimi sína, hagsmuni sína og hagsmuni þeirra ofar lögum og hugmyndum og hugsjónum sem að baki þeim búa. Slík aðstaða gengur greinilega gegn hugmyndum manna um réttarríki.``
    Enn fremur segir í þessari sömu grein: ,, . . .  hvatinn til þess að breyta stjórnarskránni nú [er] einkum sá að koma fyrir innan hennar eða með henni nákvæmlega tilteknum og tímabundnum hagsmunum; þ.e. hagsmunum landshluta og stjórnmálaflokka. Hér eru hagsmunir líðandi stundar látnir móta það hvernig taka

megi hagsmuni saman í óvissri framtíð.
    Löggjafinn, mennirnir sem hann skipa og flokkarnir sem að honum standa hafa í tillögum sínum um breytingar fyrst og fremst hugsað um eigin hag. Það sem greinilega skiptir mestu máli í umræðum stjórnmálamanna um kjördæmamálið er að þeir og flokkarnir vilja tryggja núverandi aðstöðu sína. Með þessu er hversdagsleg stjórnmálabarátta, sem á að lúta stjórnarskránni, sett ofar henni.``
    16. maí undir birtist þessum greinaflokki líka eftirfarandi: ,,Nú þegar umræður fara fram hér á landi um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og breytingar á henni gætir langmest umræðna um einstök atriði hennar, minna hefur gætt umræðu um heildarinnihald stjórnarskrárinnar. Þessi umræða þarf svo sem ekki að koma mikið á óvart. Þegar breytingar hafa verið gerðar á íslensku stjórnarskránni í fortíðinni hefur umræðan einmitt á sama hátt snúist mest um einstök atriði, einkum um kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipan. Oftast hefur kveðið mest að alþingismönnum og öðrum fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem eiga þar beinna hagsmuna að gæta umfram aðra menn.``
    Enn fremur segir í þessari sömu grein frá 16. maí: ,,Það hlýtur að valda vonbrigðum að núverandi tillögur um breytingar á íslensku stjórnarskránni eru miðaðar við það í grundvallaratriðum að gera enn breytingar á þeirri stjórnarskrá sem okkur var færð af Danakonungi fyrir rúmri öld. Enn virðast menn ekki hafa gefið sér tóm til þess að setjast á rökstóla og hugsa málið frá grunni út frá gerbreyttum forsendum í íslensku þjóðlífi. Vart er við því að búast að stofninn frá 1874 dugi enn við þjóðfélagsaðstæður nútímans og því miður virðist stefna í sama far og jafnan áður er breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni, að mestur tími og áhugi hefur farið í eitt atriði hennar: kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipan. Og það eru einmitt fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem hafa alfarið haft þessa endurskoðun með höndum.``
    Í grein 8. júní 1983 kemur í þessu sama greinaflokki eftirfarandi fram: ,,Mönnum virðist ríkið og hið opinbera almennt vera íþyngjandi í öllu starfi og athöfnum. Það eykur enn á þennan óþokka að opinber þjónusta er stirfin og óskilvirk. Siða- og lagareglur --- einkum í viðskiptum --- eru allt aðrar en þær reglur sem ríkið skipar einstaklingum að lúta. Flestir virðast líta á hið opinbera sem andstæðing sinn, ódælan og illan viðureignar eða sem ríkt flón sem sjálfsagt er að blekkja og reyna að hafa gott af. Ágangurinn hefur leitt til þess að flestir hafa sett sig úr siðum við ríkisfélagið og margir nánast sagt sig úr lögum eins og sjá má af skattsvikum og smygli. Og vegna þess að kröfur og kvaðir hins opinbera eru ítarlegar og umfangsmiklar hafa siðareglur og óbókfestanlegar skyldur borgaranna við ríkið og samfélagið orðið að engu.``
    Í lok þessa greinaflokks 13. júlí 1983 kemur eftirfarandi fram: ,,Í stjórnarskráruppkastinu 1983 er það til umbóta að hlutverk forseta Íslands er betur skýrt og skilgreint en verið hefur og svo hlutverk dómstóla en þessar úrbætur verða þó tæplega taldar knýjandi. Á hinn bóginn er ekki sjáanleg nein viðleitni til að skipta glögglegar verkum milli handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds en nú er gert né heldur að reynt sé að fella athafnir stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins undir stjórnlög.
    Ástæður virðast augljósar: Hér eiga þeir í hlut sem vilja ekki hlíta föstum leikreglum. Fyrirgreiðslu- og úthlutunarstjórinn sem mest fer nú fyrir á sviði stjórnmálanna vill hvorki sleppa tökum á sviði löggjafar né framkvæmdarvaldi og baráttutæki sitt, stjórnmálaflokkinn, vill hann nota að vild og geðþótta.``
    Í lokin segir, virðulegi forseti: ,,Stjórnarskráruppkastið 1983 sýnir svo glögglega sem frekast má vera að starfandi stjórnmálamenn leysa ekki þann stjórnskipunarvanda sem heitast brennur á þjóðinni. Ástæðan er augljós: Þeir eru sjálfir mesta vandamálið sakir þess hve rígbundnir þeir eru í ríkjandi stjórnarháttum.``
    Hér lýkur tilvitnunum í þennan greinaflokk sem er eins og heyra má af mínu máli nokkuð harðorður og þó að ég taki ekki undir allt sem þarna kemur fram, þá eru rökin sem þarna eru sett fram um margt ekki ósvipuð því sem sett er fram í frv.
    Samkvæmt frv. sem ég mæli fyrir er hlutverk stjórnlagaþings að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni og sérstaklega er þar til að taka kosningareglur og mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, en tillögur stjórnarskrárnefndar um mannréttindaákvæði hennar frá 5. apríl sl. hafa sætt gagnrýni og mörgum þykir þær ekki nógu skýrar. Ég tók eftir því í blaðagreinum nýverið að formaður þingflokks Sjálfstfl. gagnrýnir stjórnlagaþing með þeim rökum að með því sé verið að koma í veg fyrir mikilvægar stjórnarskrárumbætur sem í lofti liggur að ná megi samkomulagi um á yfirstandandi þingi. Einnig nefnir þingmaðurinn að ég sé með frv. um stjórnlagaþing að hlaupa frá samþykktinni sem gerð var á Þingvöllum í sumar þar sem kveðið var á um að stefnt skyldi að því að ljúka endurskoðun VII. kafla stjórnarskrárinnar og ég sé að leggjast gegn því að eðlilegar lagfæringar á vægi atkvæða milli kjördæmanna nái fram að ganga sem fyrst.
    Auðvitað er þetta fjarstæða. Í fyrsta lagi hef ég rökstutt að heppilegra sé að aðrir en þingmenn fjalli um breytingar á stjórnarskránni og kosningareglum. Í öðru lagi að þó að Alþingi stæði við samþykktina á Þingvöllum í sumar og uppfyllti þar með loforð sitt um það, þá er ekkert óeðlilegt að stjórnlagaþing fjalli um stjórnarskrána í heild sinni, þar með talin mannréttindaákvæði hennar og ekki óeðlilegt að ætla að mannréttindaákvæði hennar yrðu enn betur úr garði gerð, en margir hafa orðið til að gagnrýna þær tillögur sem fram hafa komið um þetta efni.
    Í þriðja lagi hef ég litlar vonir um að nokkuð vitrænt komi út úr því á þessu þingi að jafna atkvæðavægi landsmanna og tel stjórnlagaþing betur fært um að taka á því máli en alþingismenn.

    Í fjórða lagi á stjórnlagaþing að fjalla um ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar sem ekki verður séð að Alþingi ætli að taka á, eins og aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu og ákvæðin um bráðabirgðalög og þingrof og um ráðherraábyrgð.
    Í greinargerð með þessu frv. kemur fram að rétt sé að fela stjórnlagaþingi að skoða sérstaklega æskilegar breytingar á stjórnkerfinu, svo sem skýrari skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds, en þar er átt við atriði eins og hvort ráðherra eigi jafnframt að vera þingmaður og hvort afnema skuli aukafjárveitingar. Jafnframt því skal stjórnlagaþing fjalla um hvort rétt sé að breyta og setja skýrari ákvæði um þingrofsréttinn, hvort tekin verði upp sú skipan sem í gildi er í Noregi þar sem þingrofsheimild er ekki fyrir hendi og hvort rétt sé að huga að ákvæðum stjórnarskrárinnar um setningu bráðabirgðalaga í ljósi þess að nú situr Alþingi allt árið.
    Stjórnlagaþing á einnig að fjalla um ákvæði stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð og að taka til umfjöllunar þær skráðu og óskráðu reglur sem í reynd ríkja um embættisfærslur í opinberri stjórnsýslu, einkum varðandi embættisveitingar í æðstu störf og ráðstöfun opinberra fjármuna og það hvort rétt sé að draga úr opinberum afskiptum í sjóða- og bankakerfinu. Um þetta atriði vil ég fara nokkrum orðum.
    Segja má að lýðræðislegt þjóðfélag byggi í grundvallaratriðum á tvenns konar reglum: Annars vegar leikreglum sem sett eru í löggjöf af kjörnum fulltrúum á Alþingi og skráðum reglum sem handhafar framkvæmdarvaldsins setja. Hins vegar óskráðum reglum sem treysta á siðferðisvitund og ábyrgð þeirra sem trúað er og treyst fyrir að reka hina opinberu stjórnsýslu, hvort sem um er að ræða opinbera embættismenn eða kjörna fulltrúa þjóðarinnar. Allar óskráðar siðareglur hljóta að byggja á þeirri frumskyldu opinberra embættismanna og kjörinna fulltrúa að vinna í þágu almannahagsmuna í samræmi við það vald sem þeim er trúað fyrir. Sé það vald misnotað í eigin þágu eða annarra sérhagsmuna brýtur það í bága við hagsmuni og siðferðisvitund þjóðarinnar.
    Um langt skeið hefur borið á nokkrum trúnaðarbresti milli þjóðarinnar og handhafa stjórnsýsluvalds. Þessi trúnaðarbrestur hefur smám saman með árunum komið skýrar í ljós, ekki síst í tengslum við embættisveitingar og ráðstöfun opinberra fjármuna, svo og stjórnmálaleg afskipti í sjóða- og bankakerfinu. Ýmsar embættisfærslur af þessum toga hefur þjóðin litið á sem löglegar en siðlausar. Varðandi ráðstöfun opinberra fjármuna var m.a. haft eftir Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda nýverið í Morgunblaðinu að stundum valdi það vanda að skortur sé á skráðum reglum um meðferð opinberra fjármuna og að illa skilgreindar starfsvenjur séu oft hafðar til hliðsjónar og verk unnið eftir hefð sem skapast hefur í áranna rás.
    Af þessu, virðulegi forseti, má sjá að ríkisendurskoðandi tekur raunar undir það sem hér er lagt til, að það sé skoðað hvort skortur sé á skráðum reglum um meðferð á opinberum fjármunum.
    Ég geri mér grein fyrir að ýmsum vanda geti verið bundið að setja reglur eða lög um þær skráðu og óskráðu reglur sem í reynd hafa ríkt um ýmsar embættisfærslur í opinberri stjórnsýslu. Engu að síður tel ég eðlilegt að það sé sérstaklega skoðað af stjórnlagaþingi því það er nokkuð alvarlegt mál þegar tortryggni ríkir um störf í stjórnsýslunni og kappkosta verður að eyða þeirri tortryggni með öllum tiltækum ráðum.
    Stjórnlagaþing mun að sjálfsögðu auk þeirra atriða sem hér hafa verið skilgreind taka stjórnarskrána til endurskoðunar í heild sinni.
    Eins og fram kemur í tillögugreininni er gert ráð fyrir að þegar stjórnlagaþing hefur afgreitt frv. til nýrra stjórnarskipunarlaga skuli bera það undir atkvæði allra kostningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum málsins. Nái tillagan samþykki skal hún staðfest af forseta lýðveldisins og er hún þá gild stjórnarskipunarlög.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni tel ég eðlilegt að stjórnlagaþing setji ákvæði í hina nýju stjórnarskrá um að eftir að hún hefur verið staðfest af forseta lýðveldisins skuli Alþingi rofið og efnt til kosninga þegar næsta haust samkvæmt þeirri kosningaskipan sem hin nýja stjórnarskrá kveður á um. Vera má að sumum þyki nokkuð stuttur tími gefinn fyrir stjórnlagaþing til að taka á svo viðamiklu og þýðingarmiklu verkefni. Um það er það að segja að fyrir liggur mikið af gögnum frá þeim nefndum sem unnið hafa á undanförnum árum og áratugum við að endurskoða stjórnarskrána sem ætti að auðvelda stjórnlagaþingi sitt verkefni.
    Í annan stað hygg ég að þegar hagsmunatengsl þingmanna og kosningalög eru rofin með því að þeir taki ekki þátt í ákvörðun á stjórnlagaþingi þá muni það verulega flýta verkefninu og gera stjórnlagaþingið skilvirkara og markvissara í þessu efni en sagan segir okkur að sé reynslan þegar þingmenn fjalla um þetta mál.
    Virðulegi forseti. Á þskj. 241 er flutt sérstakt frv. um stjórnlagaþing sem er fylgifrv. með frv. til stjórnarskipunarlaga. Í 1. gr. er kveðið á um að efnt skuli til stjórnlagaþings eigi síðar en 1. júní 1995 sem skal hafa lokið störfum fyrir 15. sept. 1995. Í frv. er kveðið nánar á um reglur um skipan og starfshætti þingsins.
    Í 2. gr. er mælt fyrir um hlutverk stjórnlagaþings. Í greininni eru talin upp atriði sem stjórnlagaþing skal skoða sérstaklega og ég hef áður gert grein fyrir.
    Í 3. gr. er lagt til að stjórnlagaþing verði skipað 41 þjóðkjörnum fulltrúa. Lagt er til að þeir verði kosnir persónukosningu. Með persónukosningu er átt við að þeir sem gefa kost á sér til setu á þinginu geri slíkt sem einstaklingar en séu ekki bornir fram sem fulltrúar tiltekinna samtaka. Mælt er um að frambjóðendur hafi tilskilinn fjölda meðmælenda á bak við sig enda mikilvægt að til þingsins veljist einstaklingar er njóti góðs trausts samborgara sinna. En slík krafa er einnig í samræmi við 27. gr. laga um kosningar til Alþingis en þar er kveðið á um tiltekinn fjölda meðmælenda með hverjum framboðslista. Þá er gert ráð fyrir í 3. gr. að fulltrúar á stjórnlagaþingi verði kjörnir í núverandi kjördæmum landsins en við skiptingu fulltrúa á kjördæmin hefur verulega verið tekið mið af fjölda íbúa í kjördæmi og þannig reynt að jafna vægi atkvæða mun meira en nú er. Þó er gert ráð fyrir að hvert kjördæmi kjósi eigi færri en þrjá fulltrúa á þingið. Kjörgengir verða þeir sem eru kjörgengir til Alþingis aðrir en alþingismenn.
    Um kosningar að öðru leyti fari eftir lögum um kosningar til Alþingis og má þar nefna ákvæði um kosningarrétt, fresti og frekari framkvæmd kosninga.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að stjórnlagaþing starfi í einni málstofu og þingsköp Alþingis gildi sem fundarsköp eftir því sem við á. Þá er kveðið á um að forseti þingsins skuli leggja fram tillögu um nefndaskipan og aðra vinnutilhögun og að slík tillaga komi fram í byrjun þingsins þannig að hægt sé að skipa nefndir er fjalli um einstaka þætti stjórnarskrármálsins, en vinna þeirra yrði lögð til grundvallar því frv. til stjórnarskipunarlaga sem þingið mun síðar fjalla um.
    Í 5. gr. er lagt til að frumkvæði að framlagningu frv. til stjórnarskipunarlaga verði hjá forseta þingsins og að frv. verði rætt þrisvar sinnum og verði það samþykkt skal bera það undir þjóðaratkvæði. Verði frv. einnig samþykkt skal það borið undir forseta lýðveldisins til staðfestingar en ákvæði um það er í stjórnarskrárfrv. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við getur átt.
    Í 6. gr. er kveðið á um að stjórnlagaþing skuli haldið í húsakynnum Alþingis og þó þannig að ef þannig vildi til að Alþingi yrði kallað til starfa á þeim tíma sem stjórnlagaþingið starfaði mundu störf Alþingis ganga fyrir og störf stjórnlagaþings flutt í önnur húsakynni.
    Að lokum er kveðið á um í 7. gr. að ekki þyki óeðlilegt að laun fulltrúa stjórnlagaþings miðist við þingfararkaup alþingismanna þar sem gert er ráð fyrir að seta á stjórnlagaþingi sé fullt starf.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið framsögu um þessi tvö frumvörp sem ég hef hér mælt fyrir. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði frumvörpunum vísað til 2. umr. Ég vísa einnig í 42. gr. þingskapalaga þar sem segir að lagafrv. er felur í sér tillögur um breytingar á stjórnarskránni eða viðauka við hana skuli vísa til sérnefnda skv. 32. gr. og með vísan til þeirrar greinar legg ég til að þessum frumvörpum verði vísað til sérnefndar.