Leiðtogafundur á Þingvöllum árið 2000

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 17:41:31 (2447)


[17:41]
     Björn Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Hér eru til umræðu mikilvæg mál, annars vegar frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins og hins vegar frv. til laga um stjórnlagaþing. Í frv. til stjórnarskipunarlaga er gert ráð fyrir viðbótarákvæði um stundarsakir, eins og það er orðað, við stjórnarskrána. Það viðbótarákvæði felur einmitt í sér að efna skuli til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og að þetta þing eigi að koma saman eigi síðar en 1. júní 1995 og ljúka störfum fyrir 15. september 1995. Síðan er í frv. til laga um stjórnlagaþing lagt á ráðin um það hvernig eigi að kjósa menn á þingið og einnig er mælt fyrir um það um hvað þingið á að fjalla. Það á að fjalla um ákvæði stjórnarskrárinnar um mannréttindi, kosningar og kjördæmaskipan, þingrof, setningu bráðabirgðalaga og ráðherraábyrgð. Einnig á þingið að fjalla um skil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og loks á það að taka afstöðu til þjóðaratkvæðagreiðslna.
    Flm. hefur flutt framsögu sína og ég verð að segja að ég er fullur efasemda um að þessi mál séu flutt af heilum hug, að það vaki fyrir hv. flm. að þessi mál nái fram að ganga á þeim skamma tíma sem er til stefnu á hinu háa Alþingi sem auk þess hefur ákveðið að fjalla sérstaklega um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar auk þess sem sett hefur verið niður nefnd á vegum stjórnmálaflokkanna til þess að fjalla um kosningar og kjördæmaskipan. Mér finnst að tillögurnar beri þess nokkur merki að verið sé að drepa þessu mikilvæga máli á dreif og það geti varla verið að hugur fylgi máli, að við því sé að búast að þetta nái fram með þeim hætti sem hér er lagt á ráðin um. Auk þess verð ég að segja það sem skoðun mína að það er mikil spurning hvort hægt er að bæta nýju ákvæði við stjórnarskrána um stundarsakir án þess að þá fari fram þrennar kosningar ef þetta verður samþykkt og kosningar fari fram og nýtt Alþingi, sem er kosið, taki afstöðu til málsins og komi saman áður en þetta komi til framkvæmda. Síðan er ætlunin að kjósa til þessa stjórnlagaþings og ætlunin er að það ljúki störfum fyrir 15. september og þá verði kosið að nýju að því er mér skilst. Á næsta ári eru því ráðgerðar þrennar kosningar samkvæmt þessu: Það er í fyrsta lagi til Alþingis, sem komi saman og staðfesti þetta fyrirkomulag, síðan eftir að því er lokið verði efnt til kosninga til stjórnlagaþingsins, stjórnlagaþingið komist að niðurstöðu fyrir 15. september og síðan verði kosið í þriðja sinn á komandi ári um þetta mál.
    Hv. flm. hefur auk þess gerst talsmaður ýmissa annarra umbóta í þjóðfélaginu sem eru mjög brýnar og nauðsynlegar að ræða og taka á. Ég held að það að verja öllu næsta ári undir þetta mál sem hér er til umræðu verði ekki til þess að flýta fyrir því að stjórnmálamenn setjist niður til þess að taka á málum sem eru brýnni og sem eru auk þess á dagskrá þess þings sem nú situr varðandi mannréttindamálin og

einnig kosningar og kjördæmaskipan. Til ákvæða um þingrof verður að sjálfsögðu hægt að taka afstöðu á þessu þingi núna þegar rætt er um stjórnarskrármálið. Setning bráðabirgðalaga er deilumál eins og við vitum. Hvað varðar spurninguna um ráðherraábyrgð liggur hér fyrir sérstök till. til þál. um það að kjörin verði nefnd til þess að taka á því máli þannig að þingið fjallar í raun og veru um öll þessi mál.
    Skil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Hvað felst í þessu? Þarf stjórnlagaþing að koma saman til þess að fjalla um þetta mál sérstaklega og taka á því og hvernig er við því að búast að á því þingi verði fjallað um það með þeim hætti að einhver niðurstaða fáist? Umræður um þjóðaratkvæðagreiðslur hafa verið á þingi á þessu kjörtímabili, menn hafa tekið afstöðu til þess á þinginu á kjörtímabilinu, afgreitt tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem snerta það mál. Ég segi fyrir mitt leyti, hæstv. forseti, að ég get varla tekið þessar tillögur og ályktað sem svo að hugur fylgi máli, að það vaki virkilega fyrir hv. flm. að þær nái fram að ganga.
    Í sjálfu sér er hugmyndin um stjórnlagaþing ekki ný. Hún hefur oft verið rædd, sérstaklega í hópi lögfræðinga og þar hafa menn komið fram með það sjónarmið að eins og er nú vikið að í greinargerðinni að endurskoðun stjórnarskrárinnar hafi tekið mjög langan tíma og ekki sé endilega við því að búast að þingmenn komist að skynsamlegustu niðurstöðunni um kjördæmamálið og kosningalögin þar sem það snertir mjög hagsmuni þeirra sjálfra og þess vegna sé nauðsynlegt að kalla saman annan hóp manna til þess að taka ákvarðanir um það efni. Gott og vel. Við getum rætt það og velt því fyrir okkur en við höfum þó sett okkur það hér á síðustu mánuðum þingsins að fara ofan í það mál og skoða það. Það er því fullur vilji til þess hjá öllum flokkum að líta á það með umbætur í huga. Reynslan hefur einnig sýnt okkur að það hefur þó tekist frekar að breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem fjalla um kosningar og kjördæmaskipan en önnur ákvæði. Þegar við erum komin með breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar eins langt og raun ber vitni í umræðum innan þingsins þá finnst mér að það sé rétt hjá hv. þm. Geir H. Haarde sem hefur bent á það að með þessu sé hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að hlaupast undan þeirri samþykkt sem gerð var á Alþingi við hátíðlega athöfn á Þingvöllum 17. júní sl. þar sem við sameinuðumst um það í atkvæðagreiðslu að taka þessi mál til sérstakrar skoðunar. Hins vegar er hér lagt til að við gefumst upp við það starf og vísum því máli til sérstakrar stofnunar, stjórnlagaþings, sem á að koma á fót með þessum hraða sem hér hefur verið lýst.
    Ég ítreka þá skoðun mína að þetta er ekki trúverðugur málflutningur og ég trúi því í raun og veru ekki að hv. þm. sem vill láta mikið að sér kveða í íslensku stjórnmálalífi um þessar mundir sjái sér hag í því að flytja slíkar tillögur sem eru augljóslega óframkvæmanlegar og þar að auki algerlega óþarfar miðað við þau störf sem hafa verið á þinginu og eru fram undan á þinginu þar til gengið verður til kosninga.