Leiðtogafundur á Þingvöllum árið 2000

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 17:49:32 (2448)


[17:49]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hér er hreyft stórum málum. Ég get að nokkru leyti tekið undir það sjónarmið sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv., að sumt af þessu sem hér er tekið fyrir er þegar á dagskrá Alþingis og m.a. mannréttindakaflinn sem var samþykkt að ganga í á hátíðarfundi á Þingvöllum. Ég var þá ekki óskaplega bjartsýnn á að Alþingi hefði manndóm í sér til þess að fylgja því verki eftir á þessu þingi. Við vorum hins vegar að fara yfir það mál eins og það stendur í þingflokki framsóknarmanna í gær. Ég get sagt það sem mína skoðun að ég hef nokkuð breytt um afstöðu til þessa máls og er eftir þá yfirferð nokkuð bjartsýnn á að okkur takist í vetur að koma fram nokkuð heildstæðum mannréttindakafla þannig að mér sýnist að sá þáttur sé í nokkuð góðu horfi núna.
    Hv. 3. þm. Reykv. nefndi nýbreytni varðandi kosningalög og kjördæmaskipan sem einnig sé í gangi vinna á þessu þingi. Ég er ekki eins bjartsýnn á að þar tali menn sig fram til lausnar og óttast að þar séu menn búnir að þrengja málið svo að sé að við séum komin þar á ákveðið einstigi sem verður mjög erfitt að feta sig út úr og gæti í versta falli leitt okkur í enn verri ógöngur en þau kosningalög og kjördæmaskipan sem við búum við í dag. Því miður sé ég ekki miklar líkur á því að það mál verði klárað fyrir þinglausnir í vetur. Er það í raun mjög miður því að ég hygg að almenn samstaða sé um það að þarna þurfi að verða á breytingar. Ég nefni að á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. var stjórnarályktun samþykkt í þá veru að Framsfl. væri tilbúinn til þess að ganga til breytinga á kosningalögum og kjördæmaskipan með það að markmiði að einfalda kosningakerfið, jafna atkvæði og auka persónukjör. Þetta eru atriði sem eru að mínu mati fyllilega samrýmanleg. Auk þess ályktuðum við annars staðar varðandi sveitarstjórnarmál að það bæri að stefna að frekari valddreifingu, að færa frá ríkisvaldinu og til byggðanna eða til sveitarfélaganna. Það hef ég alla tíð frá því að umræðan kom upp á þessu kjörtímabili sagt að væri lykillinn að því að menn næðu einhverri ásættanlegri lausn varðandi kjördæmamálið að þetta gerðist samhliða. Ég ætla ekki að rifja þau mál upp hér. Ég hef gert það áður úr þessum ræðustól. En ég óttast hins vegar hitt að búið sé að þrengja málið núna þannig að menn séu enn á ný komnir á einstigi. Menn hafa ekki viljað horfast í augu við málið að mínu mati í því ljósi sem það er í dag, í því ljósi að búið er að jafna að fullu milli stjórnmálaafla hlutfallslega í kosningum til Alþingis. Ég er ekkert endilega viss um að það sé það eina rétta hvað það snertir en að því hefur engu að síður verið unnið í áföngum á þessari öld og komið á fullri jöfnun við

síðustu breytingu. Mér sýnist menn í raun búnir að beygja sig fyrir því að frá því verði ekki vikið. Þar með eru komnar út af borðinu ýmsar hugmyndir eins og til að mynda einmenningskjördæmi og í raun líka það sem menn hafa viljað kalla þýsku leiðina þar sem annars vegar eru fámenniskjördæmi og hins vegar landið allt eitt kjördæmi eða einn landslisti. Eins og ég sé það mál núna er það komið í mjög þröngan farveg sem maður sér ekki fyrir endann á. Það er mín skoðun að þó að okkur takist og vonandi tekst okkur giftusamlega að koma með nýjan mannréttindakafla í stjórnarskrána núna á þessu þingi þá hilli því miður ekki undir það að menn séu komnir í þær stellingar að það sjái fyrir endann á nýjum kosningalögum og nýrri kjördæmaskipan.