Leiðtogafundur á Þingvöllum árið 2000

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 18:08:59 (2451)


[18:08]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér fundust athyglisverð síðustu orð hv. síðasta ræðumanns. Hann sagði það alveg skýrt að það væri ekki hægt að skilja í sundur breytingar á kosningalögum og kosningareglum og

mannréttindaákvæðin. Það hlýtur að þýða að þetta eigi að fylgjast að hér í þinginu og eigi að afgreiðast samhliða. Auðvitað verður með því fylgst hvort svo verður en mér finnst nær sú skoðun sem hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson setti fram að tíminn sé orðinn svo þröngur, það er nýbyrjað að ræða þessi mál þannig að harla litlar líkur séu á því að það nái fram að ganga á þessu þingi.
    Hv. þm. taldi að ég væri að einfalda veruleikann. Ég er ekkert að einfalda veruleikann. Veruleikinn blasir við okkur og hver er veruleikinn? Að á Alþingi hefur ekki orðið niðurstaða þrátt fyrir það að nefnd eftir nefnd hefur fjallað um stjórnarskrármálið og mannréttindaákvæðin í fjóra eða fimm áratugi. Það er sá veruleiki sem við blasir. Ég er langt í frá að skjóta mér undan að taka þátt í því starfi sem nú stendur yfir og er fram undan varðandi bæði mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og hugsanlegar breytingar á kosningalögum og reglum. Mér hefur ekki verið boðið sæti í nefndum sem fjalla um þessi mikilvægu mál. Ég gekk á eftir því við starfandi forsrh. meðan hæstv. forsrh. var erlendis og hann taldi eðlilegt að ég biði eftir forsrh. til þess að bera fram ósk mína um að ég fengi sæti í þeim nefndum sem fjalla um þetta. Ég hef ekki enn þá náð í forsrh. þó að ég hafi reynt það bæði í gær og í dag. Af þessu sér hv. þm. að meðan þetta mál er til umfjöllunar og í þessum farvegi hjá þinginu, þá mun ég taka virkan þátt í því eins og kostur er og eins og ég hef færi á. En eins og er hef ég ekki fengið heimild til að sitja í nefndum sem fjalla um kosningalögin.
    Hv. þm. nefndi að okkar stjórnskipan eins og hann orðaði það gerir ráð fyrir að Alþingi sinni þessum málum. Það er alveg rétt, okkar stjórnskipan gerir ráð fyrir því en Alþingi hefur bara ekki sinnt þessu máli nægjanlega. Við erum fyrst núna að fjalla um af einhverri alvöru breytingu á mannréttindaákvæðunum sem ég ítreka að sumir eru óánægðir með og telja ekki nægilega skýr. Hér var gerð breyting á kosningalögum og reglum fyrir nokkrum árum sem flestir viðurkenna að hafi mistekist. Og af hverju hafa þær reglur mistekist? Af því að það vita það margir að ýmsir voru hér að reikna sig út og inn og samþykktu tillögurnar miðað við hvar þeir stæðu í þeim útgáfum sem voru settar fram á breytingum á kosningareglunum. Það sannar það sem ég hef verið að halda fram og sett fram sem rök fyrir mínu máli og vitna í, eins og ég sagði, nokkra prófessora og fræðimenn sem hafa tekið undir þetta, að hér eru þingmenn að fjalla um hagsmuni sem snerta þá sjálfa og því er eðlilegra að stjórnlagaþing fjalli um þetta. Ég vísa þess vegna á bug þeim rökum sem hv. þm. hefur sett hér fram. Í fyrsta lagi að ég sé að einfalda veruleikann og hafi ekki sett þessi mál fram af heilum hug vegna þess að hvort tveggja er rangt og tel ég mig hafa fært rök fyrir því. Í annan stað er ég hvorki að hlaupast frá þeirri samþykkt sem var gerð á Þingvöllum né frábiðja mér að fjalla um málið ef það er á annað borð til umfjöllunar á Alþingi. Þvert á móti hef ég sagt að ég hef einmitt verið að ganga á eftir því að fá sæti í þeim nefndum sem eru núna þessa dagana að fjalla um þetta mál.