Fyrirkomulag utandagskrárumræðu

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 10:45:02 (2465)


[10:45]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Á fundi þingflokksformanna sl. þriðjudag kom þetta mál til umræðu. Ég vakti þá sérstaklega athygli á því að hér kynni að verða umræða um fundarstjórn forseta út af nákvæmlega þessu vandamáli sem er verið að ræða. Það er enginn vafi á því að samkvæmt þingsköpum eru formenn þingflokka réttir aðilar til þess að semja um slík mál fyrir hönd sinna þingflokka og það er enginn vafi á því að í tilvikum sem þessum breytist meginreglan á þann veg að í staðinn fyrir það að einstakir þingmenn

kveðja sér hljóðs þá eru það flokkarnir sem bjóða fram sína talsmenn í umræðunni líkt og gerist í útvarpsumræðum eða sjónvarpsumræðum. Það verður sú eðlisbreyting við það að samkomulag er gert um málið. Þess vegna var um það rætt á þessum fundi að málið yrði sérstaklega kynnt enn einu sinni innan þingflokkanna og gengið úr skugga um að menn ættu þess kost að biðja um orðið innan sinna flokka og vera talsmenn þeirra þegar þar að kæmi. Ég sakna þess eins úr þessari umræðu að ekki komi hér upp einhver fulltrúi fyrir þingflokk Sjálfstfl. Formaður þingflokksins var ekki mættur á þessum fundi en það var annar í hans stað og ég sakna þess eins að við fáum að vita hvernig mál hafa gengið fyrir sig hjá þingflokki Sjálfstfl. vegna þess að viðkomandi þingmaður sem vakti máls á vandræðum sínum á þetta mál fyrst og fremst við þingflokk Sjálfstfl. og ef hann vill ekki una því, þá verður hann að segja sig úr þeim þingflokki og tala hér sem utanflokkamaður.