Fyrirkomulag utandagskrárumræðu

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 10:46:30 (2466)


[10:46]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Inga Birni Albertssyni að hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, fann iðulega að störfum mínum sem þingflokksformanns á sínum tíma. En hann tók hins vegar alltaf fullan þátt í störfum þingflokksins og sagði sig aldrei úr honum og endaði alltaf með því að lúta þeim niðurstöðum sem urðu. Úr því að hans nafn hefur verið nefnt hér þá get ég sagt ykkur þær góðu fréttir að Ólafur Þ. Þórðarson er á ágætum batavegi. Hann átti afmæli í gær, ég heimsótti hann og hann er óðum að komast í sitt fyrra form.
    En hv. þm. Ingi Björn Albertsson getur ekki bæði sleppt og haldið. Hann getur ekki verið bæði með uppistand og heimtað einhver sérkjör sem þingmaður Sjálfstfl. Ef hann er utan flokka þá á hann sama rétt og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ef hann er ekki lengur í þingflokki sjálfstæðismanna þá er sjálfsagt að veita honum 12 mínútur eins og hv. 12. þm. Reykv.