Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 11:44:01 (2471)


[11:44]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um svo viðamikið efni og skuldastöðu heimilanna er eðlilegt að menn þurfi að gefa sér nokkurn tíma til þeirrar umræðu og í ljósi þess að húsnæðisskuldir eru uppistaðan í þeim skuldum er líka eðlilegt að umræðan snúist að mestu leyti um þann þátt skuldanna. Ég tel hins vegar rétt að undirstrika að skuldastaða heimilanna er ekki einvörðungu vegna húsnæðismála og rétt er að minna á að það er fleira sem þar kemur að málum. Þar vil ég nefna námslán sem eru sívaxandi hluti í skuldum heimilanna almennt. Sjá má í skýrslu Þjóðhagsstofnunar sem kom út á sl. vori um skuldastöðu heimilanna að námslán eru orðin liðlega 31 milljarður kr. um síðustu áramót sem nema um 12--13% af öllum skuldum heimilanna og meira en helmingurinn af þeim skuldum sem ekki eru vegna húsnæðismála eru vegna Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Það sem skiptir máli í þessu er ekki bara að ræða um húsnæðismál, en það vil ég þó gera að meginefni erindis míns, heldur koma að öðrum þáttum sem ég vil að gleymist ekki í þessari umræðu.
    Það er í fyrsta lagi að leggja áherslu á að til framtíðar litið hafi stjórnvöld og stjórnmálamenn í huga að það er nauðsynlegt að viðhafa stöðugleika í ákvörðunum, að ákvarðanir sem teknar eru um þá löggjöf og skilyrði sem lántakendur eiga að búa við fái að standa um einhvern tíma en ekki sé sífellt verið að breyta þeim ákvörðunum með síðari lagasetningu eins og er iðulega gert t.d. í skattamálum, vaxtamálum og fleiri atriðum.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að menn hafi það hugfast að það þarf að vera samræmi milli greiðslubyrði og greiðslugetu. Þegar það hefur raskast þannig að fólk sem áður gat staðið undir sínum skuldbindingum getur það ekki lengur, þá þarf að vera til lögbundinn farvegur fyrir fólk til þess að ná jafnvægi á nýjan leik. Þetta vantar algerlega í íslenska löggjöf.
    Í þriðja lagi þarf að minu viti að takmarka verðtryggingu skuldbindinga gagnvart ýmsum skattaáhrifum, en það þekkja menn í dag að menn eru að auka skuldir heimilanna með ýmsum tekjuöflunarsamþykktum ríkisstjórnar og Alþingis á hverjum tíma. Nýlegasta dæmið er bensínhækkun sem fjmrh. greip til fyrir fáeinum dögum, hún mun hækka skuldir heimilanna. Ég sé ekki að það sé réttlætanlegt að verðtryggingin sé svo altæk að venjuleg skattheimtuaðgerð valdi því að skuldir hækki. Það ættu að vera nóg áhrif af þeirri aðgerð að menn borgi hærri skatt þar sem hann á við eða á þá vöru sem hann er lagður en menn séu ekki þar að auki skattlagðir sérstaklega ef þeir skulda, hvort sem það er í Húsnæðisstofnun eða í bönkum.
    Í fjórða lagi og kannski það sem skiptir mestu máli er að stjórnvöld, stjórnmálamenn og launþegahreyfing, þarf að endurmeta launastefnuna sem gildir í landinu. Mér fannst mjög athyglisvert að hæstv. félmrh., talsmaður ríkisstjórnarinnar í málinu, vék ekki einu orði að því að launastefna skipti máli. Það er vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur rekið markvissa láglaunastefnu sem lýsir sér í því að fjölmargir hafa svo lág laun að jafnvel þó að þeir vinni fullan 8 stunda vinnudag, þá hafa þeir ekki nærri því nógar tekjur fyrir það til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu og standa undir greiðslum af húsnæðinu. Ég get nefnt sem dæmi að á þessu ári metur Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar að um 3.500 einstaklingar muni þurfa fjárhagsaðstoð og verulegur hluti þar af er fólk sem er í vinnu og jafnvel í fullri vinnu. En ef menn taka með fjölskyldur þeirra einstaklinga, þá er þar um að ræða allt að 10 þúsund manns í höfuðborginni einni sem hefur úr svo litlu að spila, m.a. vegna láglaunastefnunnar, að menn hafa ekki ofan í sig og á. Allar aðgerðir að mínu viti til þess að snúa vörn í sókn í þessum efnum verða að taka á þeirri launastefnu sem rekin hefur verið í landinu á undanförnum árum.
    Ég minni á það að í skýrslu Þjóðhagsstofnunar kemur það fram að það er láglaunafólkið sem skuldar mest, fólkið sem hefur lægstu tekjurnar skuldar mest. Þess vegna þarf það að fá kauphækkun, hærri tekjur til þess að geta borið sína bagga.
    Ég vil nefna líka nokkrar orsakir þess hvernig komið er, en ég get ekki verið sammála hæstv. félmrh. sem telur það einna helst þurfa að gera nú um mundir að hefja einhverja kennslu í meðferð fjármuna. Þó að það geti verið gott og menn eigi að gera það að mínu viti, þá finnst mér fráleitt að það eigi að vera uppistaðan í varnarræðu fulltrúa ríkisstjórnarinnar að menn eigi að taka upp kennslu í slíku.
    Það sem m.a. hefur gert það að verkum að margir eru komnir á hnén með sínar skuldir, standa ekki lengur undir þeim böggum sem þeir bera þótt þeir hafi áður gert það, eru m.a. margvíslegar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Þar má nefna hækkun skatta, þar má nefna lækkun persónuafsláttar, þar má nefna lækkun bóta sem beinlínis voru ætlaðar til þess að gera mönnum kleift að standa undir þeim skuldum sem menn höfðu tekið, þar með talið lækkun vaxtabóta og lækkun barnabóta. En það má nefna hækkun kostnaðar sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa haft alveg sérstakt dálæti á og sérstaklega alþýðuflokksmenn. Þeim finnst þjóðin greinilega vera hálfvönkuð og þurfi að efla kostnaðarvitund hennar, t.d. með hækkun lyfja og annars kostnaðar, en þessi flokkur ásamt samstarfsflokki sínum hefur lagt sérstaka áherslu á að auka kostnað fjölskyldna af þessum þáttum. Auðvitað eru þetta peningar sem annars voru ætlaðir til annarra hluta, m.a. til að standa undir skuldbindingum.
    Það má líka nefna breytingar á lánakerfi í húsnæðismálum, breytingar sem Alþfl. beitti sér fyrir öðrum fremur, breytingar sem leiddu það af sér að lánshlutfall var lækkað úr 70% í 65%, breytingar sem leiddu það af sér að lánstíminn var styttur úr 40 árum í 25 ár og breytingar sem leiddu það af sér að vextir voru hækkaðir úr 3,5% upp í 6% lágmark en allt að 9,5% þegar hæst var. Þetta var markaðsvæðing húsnæðiskerfisins sem Alþfl. hefur beitt sér fyrir og hefur enn trú á að sé hið eina rétta í þjóðfélaginu, að markaðsvæða þetta lánakerfi sem að mínu viti á hins vegar ekki að lúta lögmálum markaðarins heldur að vera einn þátturinn í þeirri félagslegu aðgerð sem stjórnvöld beita sér fyrir og viðurkenna sem grundvallarþátt í lífsafkomu hverrar fjölskyldu.
    Fleira má nefna sem hefur raskað þeim forsendum sem giltu þegar fólk gekkst undir sínar skuldbindingar og er m.a. skýringin á því að menn margir hverjir ráða ekki við afborganir af sínum lánum. Það má nefna hringlið í félagslega húsnæðiskerfinu, m.a. um hækkun á fyrningarprósentu og hækkun á vöxtum. En það má líka nefna almennar aðgerðir stjórnvalda eins og vaxtafrelsið á sínum tíma og miðstýring launa og verðlags sem menn eru enn að súpa seyðið af.
    Önnur atriði sem eru orsakavaldur í þessu að mínu mati er atvinnustigið sem hefur breyst mjög til hins verra. Það eru miklu fleiri atvinnulausir en voru áður og þeir sem hafa atvinnu hafa margir hverjir miklu minni atvinnu og þarf af leiðandi miklu minni tekjur en áður. Þar af leiðandi hefur raskast geta þeirra til að standa undir skuldum.
    Þriðji þátturinn sem ég vil nefna er það sem beinlínis má kalla brostin loforð stjórnvalda. Minni ég á fyrirheit fyrrv. félmrh. um að ekki yrði um afföll að ræða í húsbréfakerfinu sem málshefjandi rifjaði upp. Ég rifja líka upp loforð gagnvart því fólki sem var í svokallaðri biðröð í 86-kerfinu fyrir síðustu alþingiskosningar og töldu sig hafa fengið loforð hjá þáv. félmrh. um að fá aðgang að því kerfi. Síðan brást það eftir þær kosningar þegar sá sami félmrh. settist að nýju í stólinn en nú í kompaníi með Sjálfstfl.
    Þetta eru auðvitað atriði sem höfðu áhrif á fjárhag og fjárhagsgetu þessara einstaklinga.
    Virðulegi forseti. Ég vil nefna nokkrar tillögur sem mér finnst að eigi erindi inn í þessa umræðu og menn eigi að hafa í huga og séu þess virði að menn velti vöngum yfir þeim og hugleiði þær.
    Það er fyrst að snúa við af þeirri leið sem verið hefur frá því að verðtrygging var tekin upp því að hún hefur ævinlega verið látin gilda í þá átt að hækka skuldir. Ef við gerðum stórfellda breytingu á skattheimtustefnu ríkisstjórnarinnar þannig að við færðum skattheimtuna úr óbeinum sköttum yfir í beina skatta, þá mundi það leiða af sér lækkun á verðlagi sem aftur leiddi af sér lækkun á skuldum. Þetta geta menn gert og ég held að menn eigi að gera þetta.
    Í öðru lagi tel ég að að því loknu eigi menn að breyta verðtryggingu skulda. Það er ótæk sú altæka verðtrygging sem skuldirnar njóta. Þær eru m.a. verðtryggðar fyrir bensínhækkunum fjmrh. og þær eru m.a. líka verðtryggðar fyrir uppskerubresti á kaffi í Brasilíu. Það er ekki hægt að hafa verðtryggingakerfi þar sem skuldaeigendur búa í sérheimi óháðir afkomu og sveiflum í þjóðarbúi innlendis sem erlendis.
    Í þriðja lagi verður að lögbinda með klárlegum hætti leiðir fyrir fólk til þess að geta aðlagað greiðslugetu sína að greiðslubyrði þegar breyting verður á og veruleg röskun.
    Í fjórða lagi verða menn að taka upp breytilegan lánstíma. Það er afleiðing þess ef menn setja sér það í lög að reyna að hafa samræmi á milli greiðslugetu og greiðslubyrði.
    Í fimmta lagi tel ég að menn ættu að íhuga að greiða niður vexti með öðrum hætti en nú er gert í dag með vaxtabótum sem eru greiddar beint út til lántakenda fjórum sinnum á ári. Ég varpa fram þeirri hugmynd að tekinn yrði upp vaxtastyrkur fyrstu fjögur árin og hann notaður til þess að greiða niður vexti af viðkomandi láni en yrði ekki greiddur út til viðkomandi lántakenda þannig að við mundum leggja af núverandi útgreiðslukerfi vaxtabóta og miða þennan vaxtastyrk einvörðungu við lán úr Húsnæðisstofnuninni eða húsnæðislánum.
    Þá tel ég að almennt vaxtastig í húsnæðislánum ætti ekki að vera hærra en sem nemur vöxtum á langtíma ríkisskuldabréfum þannig að menn ættu að draga sig út úr hinu fjrálsa markaðskerfi með húsnæðislánin og a.m.k. að þessu stigi sem ég nefni hér.
    Þá vil ég leggja til líka þá hugmynd sem Alþýðusamband Íslands gerði að sinni kröfur fyrir tveimur árum að endurgreiða afföll af fyrstu íbúð. Þá tel ég að endurfjármagna ætti lán, og það ætti að vera liður í því að lækka greiðslubyrði og laga hana að greiðslugetu sem hefur breyst, t.d. ættu menn að endurfjármagna þau fasteignaveðlán sem í dag eru með 6% vöxtum þannig að fólk gæti víxlað þeim út fyrir önnur sem nú eru með 5,1% vöxtum.
    Í áttunda lagi legg ég til að menn geri breytingar á félagslega kerfinu, m.a. lækki afskriftaprósentu í því húsnæði og lækki vexti. Það er fagnaðarefni að sjá það að í nýlegri skýrslu um það efni er einmitt lagt til að menn lækki afskriftaprósentuna og þar með viðurkennt að það voru mistök á sínum tíma að gera þá breytingu sem hefur haft mjög mikil áhrif.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að fara ítarlega yfir einstök atriði í þeim tillögum sem ég hreyfi hér, en ég vil að lokum vísa til málflutnings okkar alþýðubandalagsmanna fyrr um þessi mál. Við fluttum fyrir tveimur þingum sérstakt lagafrv. einmitt til að taka á þessum vanda sem var þá að byrja að koma í ljós í verulegum mæli og fluttum frv. til laga um greiðslufrest fasteignaveðlána vegna fjárhagserfiðleika. Því miður náði það frv. ekki fram að ganga, m.a. vegna andstöðu þáv. félmrh. sem beitti sér mjög gegn því og stóð fyrir því að efnisatriði þess frv. voru felld í atkvæðagreiðsu í þinginu.
    Ég vil líka minna á að við höfum flutt till. til þál. sem liggur fyrir á þessu þingi um greiðsluaðlögun húsnæðislána og er framhald af fyrri málflutningi en breyttur í ljósi þess að þessar tillögur okkar nutu ekki stuðnings. Við teljum því nauðsynlegt að leggja málið fram með öðrum hætti en reynum að ná sambærilegum áhrifum.
    Loks vil ég minna á samþykktir miðstjórnar Alþb. frá því í síðasta mánuði einmitt um húsnæðismál sem hafa vakið mikla athygli og aðrir stjórnarmálaflokkar tekið upp í meginatriðum og á ég þar við Framsfl. og Kvennalistann.