Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 12:17:06 (2473)


[12:17]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um skuldastöðu heimilanna og mér finnst sú umræða sem hefur farið fram í morgun þó nokkuð málefnaleg vegna þess að það er mjög mikilvægt að menn skilgreini þann vanda sem við er að glíma út frá réttum forsendum til þess að hægt sé að taka á honum. Mér hefur fundist, t.d. í vetur, að þegar skuldastaða heimilanna hefur verið rædd þá beina menn spjótum sínum að húsnæðiskerfinu eingöngu og telja það orsök alls vandans en mér finnst sú umræða sem hér hefur farið fram hjá allflestum ræðumönnum vera miklu málefnalegri, bæði við að greina skuldastöðuna, út af hverju hún sé svona, og eins að menn koma fram með tillögur um úrlausnir.
    Auðvitað er það svo að húsnæðisskuldir eru stór hluti af skuldum heimilanna. Það er líka eðlilegt af því að það er stærsti útgjaldabaggi heimilanna að koma sér upp húsnæði. En engu að síður er það svo að þróunina á síauknum skuldum heimilanna má rekja allt til ársins 1980, það vitum við, þá þurfti að fara út í það t.d að endurfjármagna allt húsnæðiskerfið þegar tekin var upp verðtryggingin --- stór hluti af fólki hafði búið við neikvæða vexti, verðbólgan sá um að greiða upp lánin --- og þegar verðtryggingin var tekin upp, þá þurfti að fara út í það að endurfjármagna húsnæðið í landinu.
    Við höfum líka meðvitað eins og hæstv. félmrh. kom reyndar inn á tekið ákvarðanir sem hafa aukið skuldastöðu heimilanna eins og það að fjölga hér félagslegum íbúðum. Fleira má nefna, t.d. Lánasjóð ísl. námsmanna eins og hér hefur komið fram. Við höfum farið út í það að lengja lánstímann hjá fólki verulega. Hann var miklu styttri hér fyrir nokkrum árum síðan og þegar við lengjum lánstímann þá greiðast skuldir heimilanna hægar niður. Í Finnlandi er t.d. skuldastaða heimilanna ekki eins slæm og hér. Þar er lánstíminn miklu styttri en þar af leiðandi greiðslubyrði heimilanna miklu þyngri. Þetta eru því meðvitaðar ráðstafanir sem við höfum farið í og t.d. tekið ákvarðanir um á Alþingi. Það sem hefur gert vandamálið erfiðara viðureignar hér en víða annars staðar er hvað valkostir hafa verið fáir í húsnæðismálum. Séreignastefnan hefur verið hér ríkjandi þannig að fólk hefur þurft að fara út í það að koma sér upp húsnæði þó það hafi kannski átt erfitt með það. En sem betur fer hefur þetta nokkuð breyst og valkostir fólks hafa aukist.
    Það er alveg ljóst að hluti af skýringunni er líka að aldurssamsetning þjóðarinnar hefur verulega breyst og ungt fólk hefur komið inn á húsnæðismarkaðinn sem Þjóðhagsstofnun metur að skýri um 20% af skuldaaukningu heimilanna.
    Það er alveg ástæða til þess að skoða húsnæðismálin eins og aðra þætti sem auki skuldir heimilanna, en menn verða þá að greina þær út frá réttum forsendum. Sumir hafa verið að reyna að benda á að húsbréfakerfið sem slíkt sé ónýtt og það þurfi bara að taka hér upp nýtt húsnæðiskerfi en ég held að þá sé ekki verið að tala um málið út frá réttum forsendum. Við getum, eins og hefur verið bent á, eins spurt okkur, af því að vanskil eru að aukast við ýmsar opinberar stofnanir eins og Hitaveituna eða Gjaldheimtuna, hvort þau kerfi séu þá ónýt. Það er umhverfi fólksins eins og hér hefur komið fram sem er mjög mikil orsök á þeim vanda sem við er að glíma. Tekjur fólks hafa lækkað verulega. Við höfum búið við atvinnuleysi og það er rétt sem hér hefur verið nefnt, t.d. af síðasta ræðumanni, að lág laun eru líka veigamikil skýring á þeim vanda sem við er að glíma.
    Það er alveg rétt þegar menn hafa verið að skoða greiðslumatið að forsendur hjá fólki hafa líka breyst, en við skulum athuga það að kannski er Húsnæðisstofnun og það kerfi sem var tekið upp með húsbréfakerfinu með greiðslumati eina lánastofnunin sem sérstaklega skoðar greiðslugetu fólks. Hvað hafa bankar gert á umliðnum árum? Þeir hafa fyrst og fremst skoðað það hvort veðhæfni eignar sé í lagi, hvort ábyrgðarmenn séu traustir, en það er ekkert verið að skoða neitt greiðslugetu hjá fólki. Það er því líka rétt sem kom fram hjá einum ræðumanni að lánastofnanir hafa enga heildaryfirsýn haft yfir greiðslugetu fólks og það er fyrst með greiðslumatinu, þó að það sé alls ekki fullkomið, sem hefur verið viðleitni í þessa átt.
    Það er ýmislegt í umhverfinu líka sem hefur breytt forsendum hjá fólki, t.d. skattahækkanir. Það

er alveg rétt, lækkun á vaxtabótum og barnabótum, það ber að viðurkenna. Hvaða ákvarðanir er verið að taka núna? Það er verið að taka ákvörðun á Akureyri um að hækka útsvar. Auðvitað hefur þetta áhrif á greiðslugetu fólks og minnkar möguleika þess til að standa í skilum varðandi húsnæðismál. Bensíngjald sem verið er að taka upp núna breytir auðvitað umhverfi og fjárhagslegri getu fólks til þess að standa í skilum. Og ég verð að segja að það veldur mér miklum vonbrigðum að stór sveitarfélög eins og Akureyri, Keflavík, Akranes og fleiri sveitarfélög, eins og Akureyri sem er t.d. að hækka skatta á fólki, skuli ekki taka upp húsaleigubætur sem er viðurkennt að muni auka ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra um 17% og hjóna um 10%. Það er því ýmislegt í umhverfinu sem þarf að skoða betur.
    Það er líka alveg ástæða til að nefna það því mér finnst framsóknarmenn stundum hafa svolítið hátt um skuldastöðu heimilanna og þeir kannski einkum og sér í lagi beina spjótum sínum að húsnæðiskerfinu, að á árunum 1985--1987, þegar við þó bjuggum við góðæri og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 40%, þurfti að fara út í mjög víðtæka greiðsluaðstoð við heimilin í landinu. Og líka í kjölfar þess að tekið var upp 86-kerfið. Nú höfum við þó á sl. sjö árum búið við miklar efnahagsþrengingar og tekjufall hjá heimilum í landinu þannig að þegar það er haft til samanburðar þá verða menn að taka það með í myndina líka.
    Menn hafa rætt hér um félagslega kerfið, íbúðir standi auðar. Hver er skýringin á því? Þær eru margþættar. Er það kerfinu að kenna? Það má vissulega lagfæra það og ég fagna því sem fram kemur í skýrslu frá félmrh. um breytingar. Það þarf að breyta fyrningunni. Það þarf að lækka hana og það þarf líka að hafa þá möguleika opna eins og síðasti ræðumaður nefndi og ég veit að kemur fram í skýrslu ráðherra um að hægt sé að lækka vexti líka alveg eins og hækka þá. Ég minni á í því sambandi að þessi tvö atriði sem menn eru hér að gagnrýna að það var í nefnd þar sem áttu sæti bæði fulltrúar Framsfl., Alþb. og Kvennalistans þar sem ákvörðun var tekin um að hækka fyrninguna, um að hækka vextina, það mætti hækka þá ef tekjur færu yfir ákveðið mark og hækka vextina í félagslega kerfinu. Þessu verða menn líka að standa frammi fyrir. Ég veit það t.d. með fyrninguna að það er eðlilegt og rétt að breyta henni. Það má út af fyrir sig skoða það að það hefði ekki átt að fara út í það að hækka fyrninguna. Menn geta verið vitrir eftir á í því, en það voru margir aðilar sem komu að því máli, m.a. ASÍ og BSRB. Þetta var samdóma álit. Ég fór eftir niðurstöðu nefndar þar sem sæti áttu fulltrúar þeirra flokka sem sæti áttu þá í ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins. En ég held að allir séu sammála um að breyta því og það er mikilvægast að ná samstöðu um það.
    Þegar íbúðir standa auðar þá skulum við líka horfa á framkvæmdina í félagslega kerfinu. Hefur það verið framkvæmt eins og lög segja til um? Nei. Og framkvæmdaaðilar eiga þar sinn hlut að máli eins og sveitarfélög. Af hverju eru sveitarfélögin víða um land að byggja íbúðir fyrir 10 og 12 millj. þegar íbúðir eru á lausu í viðkomandi sveitarfélagi þar sem hægt er að kaupa þær fyrir helmingi minna fjármagn, 4 eða 5 millj.? (Gripið fram í.) Já, halda uppi atvinnu, segirðu. En það á ekki að nota félagslega kerfið við slíkt. Bæði eykur það greiðslubyrði hjá fólki og setur hengingaról um háls á sveitarfélögunum sjálfum. Nú þurfa þeir að innleysa íbúðirnar fyrir helmingi hærra verð en ef þeir hefðu keypt íbúðir sem voru á lausu í sveitarfélaginu.
    Þetta er ein skýringin og auðvitað er líka skýring umhverfið sem við höfum verið að tala um. Einhæfni atvinnulífsins úti á landi er ekki félagslega kerfinu að kenna og það er ekki félagslega kerfinu að kenna að fólk hefur ekki treyst sér í það úti á landi að byggja sjálft íbúðir eftir almenna kerfinu. Það er af því að fólk hefur ekki treyst sér í það miðað við stöðuna úti á landsbyggðinni. Síðan hafa framkvæmdaaðilar ekki farið að lögum sem segja að það eigi að lána fólki 100% í kaupleigukerfinu eins og þessi 10% sem sveitarfélög eiga að lána til allt að 15 ára. Þau hafa fæst gert það. Og þegar við skoðum samanburð á greiðslubyrði þá væri hún ef farið væri eftir þessu atriði og miðað við 8 millj kr. íbúð um 22 þús. á fyrsta ári. Síðan færi greiðslubyrðin í 30 þúsund á mánuði, en ef sveitarfélögin krefja fólkið um þessi 10%, sem þau eiga ekki að gera, þá er greiðslubyrðin um 46 þúsund á mánuði ef viðkomandi þarf að taka þessi 10% í bankakerfinu.
    Við skulum því skoða líka hvernig framkvæmdin hefur verið á félagslega kerfinu þegar við erum að gagnrýna þó að ég skuli viðurkenna það, eins og fram hefur komið í skýrslu félmrh., að við þurfum líka að taka okkur þar á og bæta þar ýmislegt til þess að lækka skuldabyrði hjá fólki. Það er alveg ljóst að ef félagslega kerfið væri rétt framkvæmt, rétt staðið að því varðandi byggingu á þessum íbúðum eða kaup, ef framkvæmdin skilaði sér að fullu, þá væri greiðslubyrði fólks lægri.
    Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að það er hlutfall annarra skulda sem hefur fyrst og fremst aukist á umliðnum árum eins og neysluskuldir og þau tilboð sem hæstv. ráðherra nefndi sem eru í gangi hér. Það hefur verið aukinn aðgangur fólks að lánastofnunum, að alls konar boðum í verslun og viðskiptum. Það því vandinn í víðu samhengi sem þarf að skoða í þessu efni.
    Varðandi aðgerðir þá hafa verið nefndir hér margir hlutir, bæði af hæstv. ráðherra og fleirum, sem ég tel að eigi að koma til skoðunar í þessu efni. Ég held að allir séu sammála um að það eigi að taka á þessum vanda. Greiðsluaðlögun tel ég að allir séu sammála um og það þarf bara að koma því máli inn í þingið þannig að við getum rætt það og reynt að ná samstöðu um það fyrir þinglok. Hæstv. ráðherra hefur nefnt lengingu lánstíma. Það er vafamál hvort rétt sé að taka það upp. Ég nefni hækkun á lánshlutfalli í húsbréfakerfinu. Ég vil nefna að það þarf að víkka út þær skuldbreytingar sem eru til staðar þannig að

vanskilum hjá þeim sem verst eru staddir yrði skuldbreytt og þau t.d. greidd að loknum lánstíma eins og heimilt er nú hjá þeim sem eru í vanskilum og eru atvinnulausir.
    Tími minn er búinn þannig að ég get ekki rætt fleiri atriði, en nefni það að ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði um vaxtabæturnar. Ef það væri annaðhvort hægt að hafa þær sem samtímagreiðslur eða beinlínis að þær gengju upp í skuldir, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði, teldi ég til bóta. En það hefur ýmislegt verið gert í þessu. M.a. eru bankar nú farnir út í það að skuldbreyta til allt að 15 ára hjá fólki. Það var gert í samstöðu við Húsnæðisstofnun, sem ekki hefur verið gert áður.