Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 12:36:21 (2475)


[12:36]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ef stiklað er á helstu orsökum slæmrar stöðu heimila og gjaldþrota í mörgum tilvikum er nærtækast að nefna að versnandi atvinnustig á ríkan þátt í þeim vanda sem heimilin standa frammi fyrir. Margar fjölskyldur réðust í húsnæðiskaup þegar næg atvinna og eftirspurn eftir vinnuafli gerði fólki kleift að leysa vandann með ótakmarkaðri vinnu. Þrátt fyrir atvinnuleysi hefur aðgengi að lánsfé verið þannig að fólk hefur offjárfest í von um að e.t.v. muni allt bjargast seinna. Upplýsingaleynd lánastofnana kemur í veg fyrir heildaryfirsýn og einnig hefur hún valdið því að margir hafa ekki kunnað fótum sínum forráð. Það þarf ekki að taka dæmi um heimilið sérstaklega í því efni. Fyrirtækin hafa offjárfest og farið á hausinn, ríkið tekið of mikil lán, sveitarfélögin mörg sökkt sér á kaf í skuldir og lent í gjörgæslu. Og eftir höfðinu dansa limirnir. Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það. Vandi heimilanna er reyndar óhugnanlegastur þar sem hann lýsir sér í upplausn heimila, skilnaði hjóna og fjölskyldur tvístrast.
    Eina lausnin sem ég sé er sú að gripið verði snarlega í taumana með lagasetningu um greiðsluaðlögun. En mér finnst, virðulegur forseti, reyndar með ólíkindum málflutningur Framsóknar sem ók undir stjórn hershöfðingja Framsóknar með valtara yfir íbúðarkaupendur og fjölskyldur á árunum 1983--1984 þegar laun voru skert um 25% og raunvextir þrefaldaðir eða hækkaðir um 300%. Launajöfnun verður að eiga sér stað. Lægstu laun þarf að setja í 55 þús. kr. og hæstu laun í 250 þús. kr. Hækkun í prósentum verði mest á lægstu laun og engin hækkun á 250 þús. kr. sem ættu að vera hæstu laun. Grundvallaratriði er uppstokkun alls kerfisins þar sem nær óframkvæmanlegt er í öllu bótaruglinu að komast að niðurstöðu um það hvað hver einstaklingur ber úr býtum eða fjölskyldan í heild. Það þarf að meta framfærslukostnað fjölskyldu að nýju. Og ef menn komast að því að lágmarksþörf fjögurra manna fjölskyldu eigi að vera 500 þús. kr. á mann, þá á að tryggja fjölskyldunni þær tekjur. Vísitölugrunnur framfærslu er vitlaus þegar t.d. brennivín er einn af grunnþáttunum. Það þarf að afnema lánskjaravísitölu eða tengja launavísitölu.
    Lífeyrissjóðasukkið verður að lagfæra ef lífskjarajöfnun á að nást. Lífeyrissjóðakerfið verður aldrei lagfært nema með lagasetningu. Skynsemi og stefnufesta verður að ráða. Það ber nauðsyn til að allir stjórnmálaflokkar nái sátt um að stöðva vanda heimila sem því miður er staðreynd. Leikrænir tilburðir, lúðrablástur og brjóstbarningur einstakra þingmanna leiðir ekki til lausnar heldur samvinna, samstaða og framkvæmd.