Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 12:39:35 (2476)


[12:39]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. frummælanda fyrir það að hafa tekið þetta mál upp og það er vissulega þarft að ræða skuldastöðu heimilanna.
    Það eru vissulega margar orsakir fyrir því og hér hafa húsbréf gjarnan verið nefnd og auðvitað get ég tekið undir að þau eru stór orsakavaldur í þessu máli. Menn hafa minnst hér á afföllin sem hafa farið upp fyrir 20%, menn hafa minnst á lækkandi vaxtabætur og menn hafa minnst á rangt greiðslumat. Um þetta ætla ég ekki að fjalla. Ég vil hins vegar fjalla um þessa stöðu út frá öðru, þeirri þjóðfélagsmynd sem við búum við í dag.
    Það er auðvitað fráleitt í landi eins og Íslandi þar sem allir eiga að hafa nóg og enginn á að þurfa að líða skort að það skuli vera komin hér upp fátækt í fyrsta sinn síðan á stríðsárunum. Hún hefur því miður tekið sér bólfestu og erum við þó í slíku landi að hér ætti ekki nokkur maður að þurfa að líða skort.
    Við horfum upp á það að barnafjölskyldur, ekkjur og ekklar, sjúkir og aldraðir líða skort. Þá er ekki nema von að menn spyrji sjálfa sig: Við hvers konar þjóðfélagsaðstæður búum við í dag? Hvernig er það þjóðfélag sem við erum að skapa? Við erum að skapa þjóðfélag þar sem fólk líður skort eins og ég var að segja. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem launabilið er eins og raun ber vitni. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem skilningsleysi á þörfum þegnanna er algert. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem foreldrar verða að vinna myrkranna á milli rétt til þess að skrimta. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem fólk missir nánast daglega eignir sínar og fjölskyldur flosna upp. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem listar og biðraðir hjá félagsmálastofnunum lengjast dag frá degi. Við erum að skapa þjóðfélag þar sem skatta- og gjaldaáþján er slík að hún ýtir fólki út í skattsvik. Og við erum að skapa þjóðfélag þar sem skjólstæðingum mæðrastyrksnefndar fjölgar dag frá degi.
    Þetta er sú mynd sem ég dreg upp af íslensku þjóðfélagi í dag. ( Gripið fram í: Vinir Davíðs.) Og hver sem vill mótmæla því, ég skora á hann að koma hér upp og gera það. Síðan heyrir maður í lokaorðum hæstv. ráðherra þar sem hann sagði: Við deilum öll áhyggjum af lífi og heill fjölskyldnanna í landinu. Ber þessi mynd sem ég var að draga upp vott um það? Ég tel að svo sé ekki. Og ég spyr hæstv. ráðherra og bið hann að koma hér og segja þjóðinni frá því hvernig á að lifa á lágmarkslaunum í landinu? Hvernig á að lifa af 70 þús kr. launum, svo að maður tali nú ekki um lægri laun sem víða þekkjast? Ég bið um kennslustund í þessu, hvernig fólk á í raun og veru að framfleyta sér, hin venjulega vísitölufjölskylda. Það þýðir ekkert að koma hér upp og segja: Við deilum öll áhyggjum af velferð þegnanna, og koma ekki með neinar lausnir og ætla þeim að lifa á þessum sultarlaunum sem ég veit að hér eru.
    Það er mín skoðun að vandamálið sé fyrst og fremst launa- og skattastefna. Hér er launum haldið niðri en sköttum haldið uppi. Telja t.d. ríkisstarfsmenn réttlætanlegt að launabilið sé frá eitthvað 50 til 70 þús. kr. upp í yfir millj. kr. á mánuði? Finnst mönnum þetta réttlætanlegt? Eru menn tilbúnir að taka launakerfi íslenska ríkisins og skera það upp? Ég held að það verði að gera, embættismenn, ríkisstarfsmenn og aðrir, launabilið inni í því kerfi er allt, allt of mikið. Og meðan menn taka ekki á þessum hlutum, þá meina menn nákvæmlega ekkert með því sem þeir segja.
    Síðan er skattaáþjánin, ef menn vilja fara aðeins yfir það. Við erum með um 42% tekjuskatt. Við borgum auðvitað í lífeyrissjóði. Við borgum af því sem eftir er þegar við erum búnir að borga eignarskatta og alla þá litlu skatta sem fylgja þarna ofan á og gera þetta enn stærri hlut, þá borgum við einn fjórða af því sem eftir er í neysluskatta, í virðisaukaskatt. Og ég spyr þá enn: Hvernig í ósköpunum á fólk að lifa af þessum launum? Og þegar slík stefna er við lýði þá hlýtur skuldabyrði heimilanna að vaxa enda kom hæstv. ráðherra inn á það hér áðan að neyslulán í bönkum fara dagvaxandi.
    Síðan upplifum við það að hér er komin á heilmikil keppni milli ríkis og sveitarfélaga um það hvor getur nú lagt meiri álögur á fólkið, hvor geti gert það, R-listinn eða fulltrúar þeirra flokka. Einn situr hér í ríkisstjórn, aðrir í stjórnarandstöðu. Hvað gerir hann í þessari miklu samkeppni? Jú, hann kemur með holræsagjald upp á 15--30 þús. kr. á hvert einasta heimili í Reykjavík. Og svo vogar þetta fólk sér að tala um skuldastöðu heimilanna. Og hvað gerir þá ríkisstjórnin í þessari miklu keppni? Jú, hún flýtir sér auðvitað að setja bensíngjald á sem átti að koma í tveim skömmtum og byrja um áramótin. Þetta er slík keppni að það hræðir mann.
    Það sem verður auðvitað að gera er það að jafna skattana, það þarf bæði að hækka og lækka skatta. Það þarf að lækka þá á þeim sem ekki þola þær byrðar sem þeir bera núna í dag og það þarf að hækka þá á þeim sem geta borið þær byrðar. Það verður að gera. Það verður að skera upp skattkerfið líka. En það verður að gera meira. Það þarf að kveikja hér elda í atvinnulífi. Það þarf að skapa hér atvinnutækifæri og leiðin til þess fyrst og fremst er að skapa það rekstrarumhverfi að það sé hægt að bjóða erlendum fjárfestum að koma til Íslands og setja hér á stofn fyrirtæki. Það sem við gerum í dag er að við fælum erlenda fjárfesta frá vegna þess að Ísland er ekki aðlaðandi kostur fyrir þá að fjárfesta í eða setja upp fyrirtæki. Þetta er ekki eingöngu spurning um lengingu lána eða skuldbreytingu. Málið snýst um það að skilja eftir meira hjá fólkinu, auka atvinnu og lækka álögur og fá frekar auknar tekjur í gegnum neysluna. Þetta er sú stefna sem verður að taka upp. En allt blaður um það að menn skilji hin og þessi vandamál en eru svo ekki tilbúnir að taka á þeim, það er náttúrlega orðin tóm.
    Ég vil aðeins í lokin, hæstv. forseti, af því að hér eiga fleiri eftir að tala fyrir hönd Sjálfstfl. taka undir að það verður að reka hér ábyrga lánastefnu. Það verður að gera fólki grein fyrir því hvort það rís undir þeim lánum sem það óskar eftir að taka, hvort greiðslubyrðin sé því um megn eða ekki.