Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 13:20:59 (2482)


[13:20]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka málefnalega umræðu, þakka hvernig menn lögðu sig fram um að greina vandann og þakka fyrir það að menn voru málefnalegir og voru með hugmyndir og tillögur. Ég harma það hins vegar að ég hafði gefið hæstv. félmrh. langan tíma til þess að koma hér og segja að hún væri búin að vinna að ýmsum atriðum innan ríkisstjórnarinnar sem mundu gera það að verkum að menn gætu sest yfir þennan stórkostlega vanda. Því miður henti það hæstv. félmrh. að gera lítið úr þessari umræðu í upphafi, henda að stjórnarandstöðunni þeim setningum að umræða stjórnarandstöðunnar væri á villigötum. Ég get ekki heyrt að umræða stjórnarandstöðunnar sé á villigötum, hún er heiðarleg og heilbrigð í þessu máli. Við gerum kröfu til þessarar ríkisstjórnar þó við styðjum hana ekki að hún leiti samstarfs um það í þjóðfélaginu við aðila vinnumarkaðarins, við banka, lífeyrissjóði og Húsnæðisstofnun, að það verði sest yfir þennan vanda og hann leystur. Þess vegna fannst mér skaði að hæstv. ráðherra svaraði í engu þeirri spurningu sem ég lagði fyrir hana og kom ekki fram með neinar tillögur, gerði lítið úr greiðsluaðlögun og sagði að auki að hún hefði ekki ætlað að beita sér fyrir því að í fjárlögum væri gert ráð fyrir neinu í þessum efnum. Þetta harma ég.
    Ég hef ekki lengri tíma til þess að fara yfir þetta mál. Ég vænti þess eins að þingheimur og þjóðin sameinist í því að setjast yfir þetta mál. Við þurfum bæði að keyra á háum ljósum og lágum. Við þurfum að leysa skammtímavanda og við þurfum að horfa til framtíðarinnar ekki síst með það að leiðarljósi sem hv. þm. Þuríður Pálsson minntist hér á áðan að ( Gripið fram í: Hún er Pálsdóttir.) Pálsdóttir, minntist hér á áðan. --- Fyrirgefðu, hv. þm. Karl og kona eru nú sem betur fer jafningjar og það er enginn dauður þótt rangt sé með farið. --- En ég vona og tek undir það með henni að það verði svo í framtíðinni að við sköpum hér þjóðfélag sem fer vel með alla hluti. Og það er engin gæfa yfir því að hafa of miklar skuldir eða hafa fyrirgreiðsluna of opna eins og ég tel að hún hafi verið.
    Ég tel að hv. þm. Ingi Björn Albertsson hafi ekki síst skýrt hér vel frá því sem hefur verið að gerast á síðustu tveimur árum. Það er auðvitað hrikalegt að menn skuli sitja aðgerðalausir þegar skuldir heimilanna hækka í hverjum einasta mánuði um einn milljarð. Skuldir fyrirtækjanna eru að lækka og menn halda laununum niðri og menn gera fólki ekki kleift að lifa eða standa við sínar skuldbindingar.
    Hæstv. forseti. Ég vænti þess að ríkisstjórnin, þó ráðherrabekkirnir hafi nú verið þunnskipaðir undir þessari umræðu, taki þetta mál til íhugunar og óska hæstv. félmrh. velfarnaðar í sínum störfum og veit og vona að hún leggi sig fram, ekki síst í þessu máli.