Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 15:11:13 (2493)

[15:11]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að gera athugasemd við það hér að þegar þetta mál er rætt, þá er enginn ráðherra viðstaddur, ekki eins einasta málaflokks. Ég verð að segja það þegar ég sé þær brtt. sem lagðar eru fram með þessu fjáraukalagafrv., svo ég víki beint að sjúkrahúsunum, þá er þar verið að leiðrétta vanda hjá aðeins þremur stofnunum úti á landi. Það tengist allt því að þingmenn úr Sjálfstfl. og Alþfl. eru í fjárln. úr þessum kjördæmum en það á að svelta litlu sjúkrahúsin önnur um allt land og þetta er ábyrgðarhlutur og ég geri kröfu um að hæstv. heilbrrh. komi hér og helst fjmrh. einnig til þess að gera grein fyrir þessum atriðum. Það er svo sem gott að hafa hv. þm. Sturlu Böðvarsson, hv. þm. Gunnlaug Stefánsson og hv. þm. Árna Mathiesen í fjárln. sem ganga svo heim, berja á brjóst sér og segja: Við leiðréttum allt hjá okkur en okkur varðar ekkert um hina. Þá varðar ekkert um Ísafjörð, Selfoss, Akureyri eða Blönduós þannig að mín krafa er sú, hæstv. forseti, að heilbrrh. komi hér og segi hvernig hann ætlar að bjarga vanda hinna sjúkrahúsanna. Hér í þessari brtt. er verið að leiðrétta við örfá sjúkrahús upp á 500 millj. Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni að það eru ekki öll kurl komin til grafar. Það eru einhver hundruð millj. í viðbót sem liggja í vanda hjá öðrum sjúkrahúsum sem á ekki að sinna í gegnum þetta fjáraukalagafrv.
    ( Forseti (SalÞ) : Tala um fundarstjórn.)
    Hæstv. forseti. Það er ljóst hvað ég er að biðja um: að hæstv. heilbrrh. verði við umræðuna.