Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 15:13:58 (2495)


[15:13]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Suðurl. tók af mér ómakið með ræðu sinni hér áðan. Það er auðvitað óviðunandi að við séum að ræða hér fjáraukalög án þess að nokkur hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Það eru þeir sem við þurfum að eiga orðastað við og ég vil ítreka að ég vil helst ekki hefja mál mitt fyrr en hæstv.

fjmrh. er kominn í þingsal. --- Má ég spyrja hæstv. forseta, tekur það langan tíma að ná í hæstv. ráðherra?
    ( Forseti (SalÞ) : Nú getur forseti ekki svarað hve langan tíma það tekur, en eins og forseti hefur áður nefnt, þá mun hæstv. fjmrh. vera í húsinu og forseti hefur gert ráðstafanir til þess að gera honum viðvart og væntir þess að hann komi hér í salinn.)
    Ég veit að þetta er erfitt fyrir hæstv. forseta og skal því hefja mál mitt en það er auðvitað ekki nokkur mynd á þessari umræðu að hér skuli ekki vera formenn helstu nefnda og ríkisstjórnin öll, það af henni sem er hér á landi. Auðvitað virðum við ef menn eru að skyldustörfum erlendis en það er alveg lágmark að menn taki þátt í umræðu um fjárhagsstöðu eigin málaflokka.
    Hv. 2. þm. Austurl. hefur annast framsögu fyrir nefndaráliti minni hlutans og ég ætla ekki að þreyta hv. þingmenn með því að endurtaka það sem hann sagði. Við í minni hlutanum erum sammála um það sem þar kom fram en ég ætla að víkja að ýmsu því sem honum vannst ekki tími til að gera skil.
    Fyrst ætla ég að segja að það er átakanlegt að við skulum enn standa frammi fyrir 10 milljarða halla þó að tekjur ríkissjóðs hafi aukist um nær 3 milljarða á yfirstandandi ári og ósýnt er hver hallinn verður á endanum þegar gengið verður frá lokun fjárlaga ársins 1995. Hér í morgun fór fram merkileg umræða um ástandið í fjármálum heimilanna og við skyldum ætla að þau hljóti að vera nátengd því sem við erum að gera hér. Þar blasir við slíkur vandi að ég hygg að þegar við afgreiðslu fjárlaga næsta árs hljótum við að taka það ástand alvarlega til athugunar áður en hálf þjóðin verður beinlínis gjaldþrota. En gallinn er sá að þessi hæstv. ríkisstjórn er málefnalega gjaldþrota og rétt í þessu var verið að leggja á borð okkar frv. til laga um aðgerðir í ríkisfjármálum og það er ekki fögur sjón sem þar blasir við því að enn á að herða sultarólina, þ.e. fólkið í landinu á að herða sultarólina. Ég fæ ekki séð hvernig þetta ástand endar og það var ekki að ófyrirsynju að hv. 5. þm. Suðurl. tók það mál upp utan dagskrár á þessum morgni.
    Það hefur áður komið fram að þetta frv. til fjáraukalaga er gervifrv. að því leyti að frestað er til 3. umr. viðamiklum málaflokkum sem samkomulag er ekki um innan ríkisstjórnarinnar og verður því að bíða þeirrar umræðu til að sjá hver niðurstaðan verður úr því. En einn er sá málaflokkur sem menn hafa ekki þrek til að takast á við og það eru menntamálin í landinu. Þar er haldið áfram að skera niður og það blasir við að frá 1991 hafa framlög til menntamála lækkað um 2,1 milljarð. Enn stendur til að fresta, samkvæmt frv. sem liggur á borðum okkar um aðgerðir í ríkisfjármálum, öllu því sem til bóta átti að verða í grunnskólamálum og verður það auðvitað rætt seinna. En alvarlegast er e.t.v. ástandið í Háskóla Íslands. Þar vantar beinlínis 300 millj. til þess að halda uppi þeirri kennslu sem háskólinn hefur tekið að sér og í nývígða Þjóðarbókhlöðu vantar umtalsvert fé til þess að hægt sé að koma henni af stað svo að sómi sé að. Ég fæ því ekki séð hvernig við getum haldið svona áfram. Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vantar á yfirstandandi ári allt að 300 millj. kr. og þannig mætti lengi halda áfram. Ég held að hæstv. ríkisstjórn þyrfti að setjast niður og reyna að gera sér grein fyrir hvert hún er í raun og veru að fara.
    Nú er ég viss um að hún á ekki ein sök á öllum óförum í ríkisfjármálum og --- hvað er nú orðið af hæstv. ráðherra? (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra er að tala í síma, en hefur e.t.v. hæfileika til að hlusta með hinu eyranu á það sem fram fer hér. En ég held að hæstv. ríkisstjórn þurfi að setjast niður og reyna að gera sér grein fyrir hvert er verið að fara með þetta þjóðfélag. Við erum að afgreiða frv. eins og þetta þó að við vitum að það vanti í það gífurlegar fjárhæðir og við erum farin að afgreiða frv. sem þetta bara til þess að afgreiða það. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Hvorki hæstv. ríkisstjórn né hæstv. fyrri ríkisstjórnir hafa t.d. tekið í alvöru á samstarfi sveitarstjórnarmanna og Alþingis. Stundum er ekki laust við að okkur finnist að þar spili menn einleik sem ekki er alltaf í þágu þjóðarinnar með góðri aðstoð þeirra sem aðstöðu hafa innan hv. fjárln. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Suðurl. Það er engin tilviljun hvaða sjúkrahús fá fjárskortinn bættan. Þannig á auðvitað ekki að vinna. En því miður hefur það ekki tekist sem lagt var upp með í upphafi kjörtímabilsins eftir fræga Noregsferð nefndarmanna úr hv. fjárln. til þess að kynna sér hvernig aðrar þjóðir vinna að gerð fjárlaga, því miður virðast menn ekki hafa neitt af því lært þó að annað kæmi fram í skýrslu sem skrifuð var. Þar hefur meiri hlutinn alvald og hlustar lítt á minni hluta og þess vegna er frv. sem þetta ekki á ábyrgð minni hlutans. Við fáum þar hvergi nærri að koma og má segja að seta okkar þar sé kurteisisskyldurækni við þingið sem til þess hefur kosið okkur en ákvarðanir okkar vega þar ekkert og þess vegna er þetta algerlega á ábyrgð meiri hlutans.
    Ég sé ekki betur en það hljóti að verða að vinna að öðru frv. til fjáraukalaga sem allra fyrst vegna þess að hér er vandinn á engan hátt leystur og hallinn á eftir að hækka umtalsvert þannig að ég sé ekki ástæðu til að vera að fara ofan í það í smáatriðum. Það er auðvitað ekki haus eða sporður á stjórn ríkisfjármála og það er ekki annað sýnt en það haldi hér áfram. Við alþýðubandalagsmenn munum að sjálfsögðu sitja hjá við afgreiðslu þessa frv. og vonum að sem fyrst verði reynt að vinna frv. til fjáraukalaga sem eitthvert mark er takandi á.