Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 15:52:23 (2497)


[15:52]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umræðu um fjáraukalög fyrir árið 1994 koma inn á nokkur atriði, en hv. formaður fjárln. hefur gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárln. hefur lagt fram og eru til umræðu. Áður en ég kem að því að ræða einstaka liði þeirra breytingartillagna vil ég aðeins út af ræðum hv. stjórnarandstæðinga segja að það er eðlilegt að stjórnarandstaðan geri athugasemdir við að það sé halli á ríkissjóði. Það er áhyggjuefni okkar allra og hefur verið undirstrikað mjög rækilega í þingsölum af hv. þm. stjórnarliðsins. En vandi okkar liggur í því að tekjur hafa fremur lækkað en hækkað og í mörgum tilvikum er erfitt að koma böndum á útgjöld einstakra stofnana og þróunin hefur verið sú að það hefur verið leitað eftir auknum útgjöldum á flestum sviðum ríkisrekstrar má segja.
    Þess er skemmst að minnast og vil ég, hæstv. forseti, nota tækifærið og nefna það að 1. des. var tekið í notkun glæsilegt hús fyrir Landsbókasafn -- Háskólabókasafn og Þjóðarbókhlaðan tekin í notkun með hátíðlegri athöfn. En það liðu ekki nema nokkrir dagar þangað til byrjað var að kvarta undan því af stjórnendum þeirrar stofnunar að það vantaði stórkostlega fjármuni, það yrði kotungsbragur á búskap í því glæsilega húsi. Hæstv. forseti. Ég má til með að nefna þetta vegna þess að ég undraðist mjög þennan málflutning forstöðumanns Landsbókasafnsins og tel það ekki vænlegt til þess að skapa skilning hjá almenningi þegar þannig er gengið fram strax á fyrstu dögum án þess að það liggi nokkuð fyrir hvernig Alþingi ætli að afgreiða framlög til þeirrar stofnunar sem vissulega er mikilvæg. Þetta vildi ég að kæmi fram í upphafi máls míns vegna þeirra orða hv. stjórnarandstæðinga sem töluðu um að víða þyrfti að auka útgjöldin en gagnrýndu um leið að halli væri á ríkissjóði.
    Í tillögum meiri hluta fjárln. er m.a. tillaga um hækkun á framlögum til rekstrar vegna umboðsmanns Alþingis. Það er ekki há upphæð, það er 1 millj. kr. Af þessu tilefni vil ég segja að ég tel að vísu að þessi stofnun sé prýðilega rekin og þarna fari fram mjög mikilvæg starfsemi, en það er umhugsunarefni fyrir okkur hv. þm. að það skuli þurfa jafnumfangsmikla starfsemi og fer fram hjá umboðsmanni Alþingis til þess að sinna athugasemdum sem koma fram við einstakar stofnanir ríkisvaldsins. Það er nauðsynlegt og afar mikilvægt að reyna að hemja vöxt slíkra stofnana, að það sé ekki algerlega sjálfvirkt hvernig útgjöld geti þar aukist.
    Undir menntmrn. er gerð tillaga um hækkun á framlögum til Námsgagnastofnunar upp á 10 millj. kr. Þetta er viss leiðrétting vegna virðisaukaskattsgreiðslna en ég vil undirstrika það, og það kemur reyndar fram í greinargerð með brtt. meiri hluta fjárln., að gert er ráð fyrir því að samsvarandi leiðrétting fari fram á frv. til fjárlaga fyrir árið 1995. Af því tilefni vil ég segja að ég tel að Námsgagnastofnun sé mjög mikilvæg stofnun og sinni grunnskólunum ágætlega og það þurfi að gæta þess að hún geti sem best sinnt þeirri þjónustu. Grunnskólarnir eru mjög mikilvægir í okkar menntakerfi og Námsgagnastofnun tengist því að sjálfsögðu. Ég vildi nefna þetta alveg sérstaklega.
    Undir landbrn. er gerð tillaga um hækkun á framlagi til Veiðimálastofnunar. Þetta tengist veiðieftirliti vegna laxveiða. Það hefur komið í ljós að það þarf að herða eftirlit með laxveiðum. Samfara fjölgun hafbeitarstöðva og auknu laxeldi hefur að því er virðist þörfin aukist fyrir þetta eftirlit. Það er mjög mikilvægt vegna þeirra sem eru með laxveiðiár og með ræktun lax í ám að það sé tryggt að ekki sé stunduð ólögleg laxveiði. Þess vegna vil ég undirstrika það og leggja áherslu á að þetta framlag er nauðsynlegt og raunar mikilvægt.
    Það eru hér fleiri liðir. Ég heyrði það á hv. þm. Guðna Ágústssyni áðan þegar hann ræddi um stjórn fundarins að hann hefur áhyggjur af því að meiri hluti fjárln. hefur nú gert tillögur um að leiðrétta framlög til tiltekinna sjúkrastofnana, en samkvæmt brtt. meiri hluta fjárln. er gert ráð fyrir því að hækka framlög til Sjúkrahússins á Akranesi um 28 millj. kr., Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað um 23 millj. kr. og framlög til Garðvangs um 3 millj. kr. auk þess sem Ríkisspítalar og Borgarspítali fá leiðréttingu á framlögum sem er upp á mjög háar fjárhæðir.
    Vegna orða hv. 5. þm. Suðurl., Guðna Ágústssonar, þá vil ég segja það og minna hann á að verulegur hluti þessa uppsafnaða vanda er frá tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hann studdi sl. kjörtímabil. Við umræðu um fjárlög þessa árs kom það fram að meiri hluti fjárln. hafði óskað eftir því að heilbrrn. gerði úttekt á rekstri þessara stofnana og að gerð yrði tillaga um með hvaða hætti þessum uppsafnaða halla yrði mætt og niðurstaða hafi fengist. Það hafi verið gerðir samningar við þessi tvö sjúkrahús sérstaklega og einnig við Ríkisspítala og Borgarspítala og niðurstaðan liggur fyrir í formi tillagna. Ég tel að hv. þm. hefði fremur átt að fagna þessu en að nota þetta tækifæri til þess að skapa sér tilefni til umræðu um stjórn fundarins sem var mjög undarleg satt að segja. En þessar tillögur eru mjög mikilvægar og sýna að þarna var uppsafnaður vandi sem heilbrrn. hafði því miður ekki fallist á eða viðurkennt, vonandi áttað sig á en ekki komið neinni niðurstöðu frá sér. Hún er fengin núna og því ber að fagna.
    Hins vegar vil ég taka það fram að það eru eftir sem áður óleyst viðfangsefni eins og jafnan er gagnvart ýmsum sjúkrastofnunum en vonandi tekst að ná endum saman og gera tillögur sem leysa þann vanda. En samt sem áður vil ég taka það fram, hæstv. forseti, að við þurfum að beita aga og aðhaldi gagnvart ríkisstofnunum, ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur sem víðast og í raun alls staðar og ég held að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum og stjórnarmeirihlutinn hefur beitt sér mjög fyrir því að efla aga í ríkiskerfinu og það hefur borið árangur. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því að kröfurnar um þjónustu hafa aukist og við þingmenn verðum að velja og hafna, forgangsraða og sýna sanngirni. Ég tel mjög mikilvægt að við lítum yfir landið allt og reynum að tryggja að ekki síst þær stofnanir sem sinna heilbrigðisþjónustunni fái sanngjarna meðferð í afgreiðslu fjárlaga.
    Undir fjmrn. er hér brtt. sem lýtur að minni vaxtaútgjöldum. Því ber að fagna en ég sá ekki að þeir hv. þm. sem töluðu hér af hálfu stjórnarandstöðunnar legðu mjög mikið upp úr því að draga þá staðreynd fram að vextir hafa lækkað.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Þó vil ég aðeins nefna, ekki síst vegna orða hv. 6. þm. Vestf. sem vakti athygli á brtt. meiri hluta fjárln. um framlög undir liðnum Ýmis orkumál, 15 millj. kr., vegna undirbúnings og markaðsleitar vegna stóriðju, að þessu ber að fagna alveg sérstaklega. Ef það eru tækifæri í augsýn sem þarf að skoða betur, þá tel ég afar mikilvægt að nýta og leggja nokkra fjármuni til undirbúningsvinnu vegna þess. Það skiptir okkur afskaplega miklu máli að allra leiða sé leitað til þess að koma hér upp stóriðjurekstri sem nýtir þá orku sem við höfum þegar virkjað og er ekki nýtt í dag. Því fagna ég þessu. Það var ánægjulegt að heyra hv. þm. vekja sérstaka athygli á því að landbrh. hefði beitt sér í þessu máli og því ber svo sannarlega að fagna.

    Varðandi þá þætti sem nefndir hafa verið hér, bæði af hv. formanni fjárln. og eins þeim sem hér hafa talað, um að óleyst séu mál sem snúa m.a. að Innheimtustofnun sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna slakrar innheimtu barnsmeðlaga þá vil ég segja að að þessu máli þarf að vinna. Þetta er ekkert einfalt mál, en ég tel að það þurfi að leita ásættanlegrar niðurstöðu hvað þetta mál varðar. Þarna er vissulega um vanda að ræða vegna þess að þetta snýr að útgreiðslum úr jöfnunarsjóði en samkvæmt lögum ber Jöfnunarsjóður sveitarfélaga ábyrgð á því að Innheimtustofnunin hafi fjármuni til að standa skil á sínum greiðslum. Þetta verður hins vegar að skoða og ég vona að fyrir 3. umr. hafi fengist einhver niðurstaða sem aðilar geti orðið ásáttir um.
    Varðandi önnur atriði svo sem það sem nefnt var um byggðastjórnun og jarðræktarframlög ætla ég ekki að hafa mörg orð um. Það kemur í ljós hvaða niðurstaða verður þar.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessar brtt. sem meiri hluti fjárln. flytur. En ég vænti þess að það takist að ljúka afgreiðslu fjáraukalagafrv. Það er mikilvægt að því megi ljúka sem allra fyrst þannig að það verði hægt að fara að vinna grundvelli þess.