Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 16:09:09 (2499)


[16:09]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. vil ég segja að við fjöllum ekki á Alþingi um úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna. Stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur komist að niðurstöðu um úthlutunarreglur og á grundvelli þeirra úthlutunarreglna hefur komið í ljós að það þarf ekki að nýta þá fjármuni sem fjárlagaheimildir höfðu gert ráð fyrir. Við erum að fella þá staðreynd að fjárlögum.
    Hvað varðar atvinnustefnuna þá er ég alveg sammála hv. þm. um að það hefur verið og er vandi í okkar atvinnulífi sem endurspeglast síðan í tekjum ríkissjóðs. Ég held að okkur sé báðum ljóst að við leysum það ekki með því að hækka skatta og enn síður að auka ríkisútgjöldin. Staða ríkissjóðs og staða atvinnuveganna eru nátengdar en sem betur fer þá blasir við betri tíð að því er virðist. Það er vöxtur í atvinnulífinu og svo sannarlega ber að vona að hann verði varanlegur og komi í ljós og ríkissjóður verði var við þann bata þó það gerist ekki í neinum stökkum. Við verðum að fara varlega, við verðum að gæta þess að verðbólgan fari ekki á skrið og við missum tök á þeim stöðugleika sem hefur verið einkenni þeirrar stjórnarstefnu sem hér hefur verið við lýði síðustu ár.