Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 16:57:27 (2509)


[16:57]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér var rétt í þessu að ljúka ákaflega sérkennilegri ræðu. Ræðu hv. 5. þm. Suðurl. sem virðist lesa fjáraukalagafrv. þannig að hann ímyndar sér að það sé þannig búið til að nokkrir þingmenn stjórnarliðsins í fjárln. komi saman, bruggi saman gríðarlegt samsæri, sem gengur út á það að rétta hlut stofnana í kjördæmi hvers annars. Síðan segir hv. þm.: Það á ekki að vinna samkvæmt einhverjum lögmálum fyrirgreiðslupólitíkur heldur á að vinna eftir almennum reglum. Þetta var mjög ánægjuleg og athyglisverð yfirlýsing vegna þess að ef hv. þm. hefði nú lagt það á sig að lesa þessa greinargerð, nál. meiri hluta fjárln., þá hefði hann séð að hér er einmitt verið að vinna eftir almennum reglum. Hér er ekki verið að taka út úr einstaka sjúkrahús nema þau sem rúmast innan þessarar almennu reglu. Hver er hún? Hún er sú að áður en málefni þessara sjúkrahúsa voru afgreidd þá var kafað ofan í mál þeirra, vandi þeirra skoðaður, gert um það sérstakt samkomulag á milli ráðuneytisins og viðkomandi sjúkrastofnunar og að því búnu var gengið til þess verks að ljúka vanda þeirra með því að veita þeim aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Það er einfaldlega þannig ef hv. þm. mundi nú vilja gera það að lesa í gegn þetta nál. þá blasir það alls staðar við, alls staðar, að undangengnu skriflegu samkomulagi, það er það sem einkennir þessi sjúkrahús. Og það sem er um að ræða varðandi sjúkrahúsið á Suðurlandi er það að slíkt skriflegt samkomulag hefur einfaldlega ekki legið fyrir. Þess vegna er auðvitað ekki hægt að fara út í einhverja svona almenna pólitíska fyrirgreiðslu af því tagi sem hv. þm. þóttist í öðru orðinu vera að mótmæla og taka hér inn sjúkrastofnanir þar sem ekki er búið að ganga frá þessu samkomulagi. Ég nefni sem dæmi að hér eru auðvitað stærstu málin Ríkisspítalar og Borgarspítali. Hvernig gengur það upp í huga hv. þm. í þessari miklu samsæriskenningu að það er enginn stjórnarliði úr Reykjavík í fjárln.?