Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:04:37 (2513)


[17:04]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst mjög miður hvernig hv. 5. þm. Suðurl. brigslaði meirihlutamönnum í fjárln. um það að hygla sínum kjördæmum. Það vill nú þannig til, hv. þm., að öll kjördæmi landsins eiga fulltrúa í fjárln. nema Norðurl. v. þannig að það er afar auðvelt að fara yfir allar afgreiðslur fjárln. og benda á að þarna sé einhver fjárlaganefndarmaður sem hafi komist með puttana í málið með óviðurkvæmilegum hætti. Það er hárrétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði áðan að það hefur einmitt verið unnið að þessu með þeim hætti að samningar hafa verið gerðir til þess að leysa vanda þessara sjúkrastofnana. Þannig á að vinna, það eru hin faglegu vinnubrögð. Það eru hins vegar ekki hin faglegu vinnubrögð að koma upp í ræðustól og óska eftir einhverri slíkri fjárveitingu sem ekki hefur borist beiðni um frá stjórn Sjúkrahúss Suðurlands --- ég tek það fram, sem ekki hefur borist til fjárln. frá stjórn Sjúkrahúss Suðurlands. Það barst eitt erindi til fjárln. varðandi Sjúkrahús Suðurlands og það var frá Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi um það að bregðast við örlítilli lækkun sem gerð er á milli ára í fjárlögum og frv.
    Fjárln. heimsótti Suðurland sl. sumar og átti m.a. fund með bæjaryfirvöldum og stjórn sjúkrahússins. Þar kom ekkert fram um neinar óskir um að bæta halla sem á rekstri sjúkrahússins væri. Þar komu fram óskir um að stækka sjúkrahúsið. Ég vil enn fremur geta þess að í því fjáraukalagafrv. og þeim brtt. sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að launaliðir verði leiðréttir og munu þannig, eftir því sem ég kemst næst, vera u.þ.b. 5,3 millj. til Sjúkrahúss Suðurlands.