Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:46:59 (2529)


[17:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Sú var tíðin meira að segja í tíð ríkisstjórnar sem flokkur hv. þm. studdi og var í að það tíðkaðist að skerða fjármagn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og til sveitarfélaganna. Sá tími er liðinn. Allt samstarf við sveitarfélögin hefur verið með mjög góðum hætti. Það hefur verið gert á grundvelli samninga. Það var hvergi bannað að ríkisvaldið leitaði hófanna um að sveitarfélögin legðu fram fjármagn enn á ný á næsta ári til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það var hvergi bannað að gera það. Ekkert frekar en að það var bannað að leita eftir því vegna yfirstandandi árs þótt í desember 1993 hefði verið sagt

að ekki væri ráðgert að gera það á því ári. Það fer allt eftir samningum á hverjum tíma. Þetta vil ég benda á. Við þennan samning sem hv. þm. vitnaði til hefur verið staðið. Það eina sem hefur gerst er að við höfum farið fram á að ná nýjum samningum og viðræður standa yfir. Ég vildi vekja athygli á þessu því þetta eru breytt vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð sem ekki tíðkuðust áður þegar ríkisvaldið með einhliða hætti réðist að sveitarfélögunum og tók af þeim fjármagn án þess að spyrja kóng eða prest úr þeirra röðum. Þannig að ég held að áður en hv. þm. ræðst á ríkisstjórnina aftur fyrir það að ráðast að sveitarfélögunum ætti hann að kynna sér sögu málsins og rifja upp hvernig hans eigin flokkur, þegar hann var í ríkisstjórn, stóð að málum eins og þessum.