Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:50:58 (2531)


[17:50]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Ég get ekki að mér gert að koma inn í þessa umræðu varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga vegna þess að mig undrar nú alveg á því að hæstv. fjmrh. skuli lýsa því yfir að samskipti ríkis og sveitarfélaga hafi verið með miklum ágætum á kjörtímabilinu. Það finnst mér alveg makalaus yfirlýsing. Það er alveg rétt sem hæstv. fjmrh. sagði, svo vitnað sé til fortíðarinnar, að það tíðkaðist að skerða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég ætla ekki að þræta við hæstv. fjmrh. um það, mér er það mjög í minni. Það voru stanslaus átök við sveitarstjórnarmenn út af þessum málum þegar ég kom hér fyrst inn á Alþingi og kynntist þessum málum. Ég dreg enga fjöður yfir það. Hins vegar urðu þáttaskil í þessum málum árið 1989 þegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga var breytt og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þessir tveir lagabálkar voru samþykktir. Það ríkti friður í þessum málum í tvö ár en ófriðurinn hófst aftur þegar núv. ríkisstjórn komst til valda og þvingaði upp á sveitarfélögin svokölluðum nefskatti til að standa undir löggæslumálum. Það var afskaplega óvinsæll skattur og ófriðarbálið hófst aftur milli ríkis og sveitarfélaga. Síðan hefur þessi skattur lifað en heitir núna greiðsla sveitarfélaganna í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna átaksverkefna upp á 600 millj. kr.
    Það hefur verið margreynt af forustumönnum sveitarfélaganna að semja þessa greiðslu út af borðinu og þeir komust svo langt fyrir ári síðan að fá það inn í yfirlýsingu sem er undirrituð af hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. félmrh. og flokksbróður fjmrh., Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Þórði Skúlasyni að ekki væri gert ráð fyrir að framhald verði á greiðslu sveitarfélaga í sjóðinn á árinu 1995. Nú standa enn þá yfir samningar um þetta sama mál sem var samið um fyrir ári síðan. Það eru alltaf teknir upp samningar aftur og aftur um sama málið. Það hefur verið rakið hér og ég rakti rækilega í minni fyrri ræðu í dag hvernig mál standa varðandi Innheimtustofnun sveitarfélaga. Forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga geta sætt sig við það að leysa þetta mál með 160 millj. kr. og leggja 60 millj. úr jöfnunarsjóðnum í þennan pakka. Það hefur komið fram. Þannig að með þeirri fjárveitingu mundi þetta mál leysast fyrir yfirstandandi ár þannig að það gæfist tóm til þess eins og hæstv. fjmrh. tók fram að breyta lögum þannig að vinna bug á þessu vandamáli sem upp hefði komið varðandi innheimtu barnsmeðlaga. Það liggur fyrir viðamikið nál. um þau mál en ég tel að yfirstandandi ár verði að leysa og það sé alveg óviðunandi að láta þennan vanda liggja á nokkrum sveitarfélögum í landinu. Það er ekki réttlátt og það er engin leið að una því að það séu aðeins fáein sveitarfélög sem taka þennan vanda á sig því það er auðvitað ekki hlutverk þeirra að taka þennan vanda á sig fyrir öll hin.
    Ég ætla ekkert að orðlengja um þetta frekar því þetta á eftir að koma til umræðu í nefndinni og þessum málum hefur formlega verið slegið á frest til 3. umr. en eigi að síður, af því að hæstv. fjmrh. fór

að gefa hér yfirlýsingar um hina góðu sambúð ríkis og sveitarfélaga á kjörtímabilinu þá gat ég ekki annað en bætt nokkrum orðum við um þetta.
    Það má einnig geta þess að hér hefur verið mikið prógramm í gangi um sameiningu sveitarfélaga og nýja verkaskiptingu á síðasta kjörtímabili en það voru gefin mikil fyrirheit frá ríkisstjórninni varðandi þessa sameiningu, um framlög Byggðastofnunar til atvinnumála, vegagerð í sameinuðum sveitarfélögum og fleira. Ég býst við að fjárlaganefndarmenn, hvort sem þeir tilheyra meiri eða minni hluta af stjórnarliðum eða stjórnarandstæðingum í fjárln. geti vitnað um það að sveitarstjórnarmenn hafa komið froðufellandi og kallað eftir efndum á þessum yfirlýsingum. Þetta ber ekki vott um þessa ástríku sambúð sem hæstv. fjmrh. gat um.
    Ég hef þá lokið umræðu um fjáraukalög frá minni hálfu vegna þess að ég hef notað minn þriðja ræðutíma hér, en auðvitað áskil ég mér rétt til þess að fara nánar yfir þau mál sem upp kunna að koma við 3. umr. málsins, hvenær sem hún verður.