Stuðningur Byggðastofnunar við atvinnumál í sameinuðum sveitarfélögum

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:19:44 (2540)


[15:19]

     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og vona að ég hafi náð þeim öllum en hæstv. forsrh. er svo hraðlæs að maður á fullt í fangi með að nema allt sem hann segir. En það er ljóst af þessum svörum að þessi yfirlýsing á sínum tíma hefur ekki verið mjög mikils virði vegna þess að Byggðastofnun vantar alla peninga til þess að standa við hana. Ég veit að Byggðastofnun hefur látið fara fram ýmsar athuganir og staðið að ýmsum átaksverkefnum sem er hennar hlutverk. En ég hygg að sveitarstjórnarmenn hafi staðið í þeirri meiningu að það stæði eitthvað meira á bak við þessa yfirlýsingu á sínum tíma.
    Þetta Vestfjarðaátak á síðasta ári var ekki eingöngu í tengslum við sameiningu sveitarfélaga á svæðinu þó að það væri tengt því. Var það umdeilt mál á sínum tíma, allsherjarátak á stöðu sjávarútvegs á svæðinu. Fyrirspurnin er borin fram vegna þess að sveitarstjórnarmenn hafa kallað mjög, m.a. í viðræðum við fjárln., eftir efndum á þessum yfirlýsingum síðan í fyrrahaust. Sameiningarmálin voru rekin af mjög miklu kappi og gefnar út ýmsar yfirlýsingar í fleiri liðum en þessum þó að fyrirspurnin beinist að þessu afmarkaða atriði.
    Það eru í sjálfu sér engin tíðindi þó að það séu athuganir á hinu og þessu. Það er hlutverk Byggðastofnunar að athuga og skoða atvinnumál og gera áætlanir. En hún getur ekki hrundið þessum athugunum í framkvæmd nema fjármunir fylgi.