Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:30:18 (2544)

[15:30]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við vorum áðan að greiða atkvæði um það hvort ætti að lækka framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Reglur lánasjóðsins eru oft og tíðum þannig að þær eru heldur ekki í samræmi við þá námsframvindu sem framhaldsskólar og háskólar setja sér. Skólar setja sér ákveðnar reglur um námsframvindu og viðurkenna nemendur í fullu námi með þeim reglum en það eru aftur á móti ekki reglur sem lánasjóðurinn viðurkennir. Þarna stangast því á að skólarnir segja: Námsmenn eru í fullu námi og eiga rétt á því að fá lánið, en síðan kemur lánasjóðurinn og setur sér reglur sem eru þvert á það sem skólarnir hafa ákveðið um námsframvindu. Þó að hér sé verið að ræða um skólagjöld, þá er það á fleiri sviðum sem reglur lánasjóðsins eru ekki í samræmi við þá námsframvindu sem skólarnir setja sér.