Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:58:33 (2557)



[15:58]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Í bréfi Landhelgisgæslunnar kemur fram að á þessu tímabili framkvæmdu varðskipin skyndiskoðanir í samtals 1.054 íslenskum skipum. Rannsóknir leiddu til athugasemda í 77% tilfella, þar af 11% eingöngu vegna aflasamsetningar en í 66% tilfella vegna skoðana á veiðarfærum og búnaði auk réttinda og skráningar. Skoðanir skiptust í 652 aflaskoðanir, þar af 254 með athugasemdum, 691 veiðarfæraskoðun, þar af 60 með athugasemdum, 900 búnaðarskoðanir, þar af 432 með athugasemdum, 924 vegna réttinda og skráningar, þar af 549 með athugasemdum.
    Vegna búnaðarskoðana voru gerðar athugasemdir sem hér segir:
    35 sinnum vegna eftirlitsbókar,
    236 sinnum vegna björgunarhringja,
    5 sinnum vegna olíudagbókar,
    40 sinnum vegna umdæmisbókstafa,
    93 sinnum vegna siglingaljósa,
    18 sinnum vegna skipaskrárnúmers,
    117 sinnum vegna hlustvörslu á neyðarbylgjum,
    12 sinnum vegna mjög slæmrar umgengni,
    59 sinnum vegna skorts á nýliðafræðslu.
    Vegna athugunar á réttindum og skráningu voru gerðar athugasemdir sem hér segir:
    113 sinnum vegna lögskráningar þar sem ýmist var að skráðir skipverjar voru ekki um borð í skipinu, jafnvel skipstjórinn sjálfur eða skipverjar voru ekki lögskráðir.
    316 sinnum vegna réttinda þar sem menn voru ýmist réttindalausir eða gátu ekki fært sönnur á réttindi sín.
    Af 60 athugasemdum vegna skoðunar á veiðarfærum voru 17 vegna möskvastærðar, en aðrar vegna ýmiss konar útbúnaðar veiðarfæra.
    Af 565 skipum sem voru áminnt, ýmist vegna veiðarfæra, búnaðar eða réttinda og skráningar voru 84 skip aðvöruð oftar en einu sinni, þar af 14 skip þrisvar, þrjú skip fjórum sinnum og eitt skip fimm sinnum. Af þessum skipum var 18 vísað til hafnar einu sinni hverju.