Flutningsjöfnunargjald á olíu

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:04:34 (2560)

[16:04]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 320 er ég með fyrirspurn til viðskrh. um flutningsjöfnunargjald á olíu. Hinn 11. maí 1994 var samþykkt á Alþingi breyting á lögum í sambandi við flutningsjöfnunarkostnað á olíu. Eftir því sem ég veit best, þá er flutningsjöfnunargjald t.d. á gasolíu tæp 1 kr. Þessi fyrirspurn mín kemur til vegna þess að við höfum orðið varir við það að oftar en ekki sigla fram hjá erlend skip sem að öllu jöfnu hefðu komið hér við t.d. til þess að taka olíu. Það eru dæmi um að þau hafa farið til Færeyja til þess að taka olíu vegna þess að verðlagning á olíu hér er of há. En þegar skip koma í höfn leiðir af sér að einhver viðskipti mundu fara fram. Þau mundu taka hér vatn og vistir og jafnvel yrði um einhverjar viðgerðir á skipum að ræða eða annað því um líkt sem mundi enn örva þau viðskipti sem því miður hafa farið hér fram hjá okkur vegna flutningsjöfnunargjalds á olíu.
    Í 1. gr. laganna sem breytt var á Alþingi á vordögum kemur einmitt fram að jöfnun á flutningskostnaði nær til flutnings á bifreiðabensíni, gasolíu eða öðrum olíum og blöndun til brennslu, flugvélabensíni og flugsteinolíu til innanlandsflugs, þó ekki á olíum ætluðum til útflutnings, svo sem millilandasiglinga, millilandaflugs, erlendra skipa og erlendra flugvéla. Af þessu tilefni hef ég lagt fram fyrirspurn til viðskrh.:
  ,,1. Hve mikið magn af gasolíu hefur verið selt um borð í skip samkvæmt undanþáguákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 103/1994, um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara, frá því að þau lög tóku gildi?
    2. Hvernig er sölu til millilandaskipa og erlendra skipa samkvæmt framangreindu undanþáguákvæði háttað í framkvæmd?
    3. Falla skip, sem gerð eru út af íslenskum aðilum en sigla undir erlendum fána, undir þetta undanþáguákvæði laganna?
    4. Falla íslensk fiskiskip, sem gerð eru út á úthafsveiðar, undir framangreint undanþáguákvæði?``