Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:20:21 (2566)


[16:20]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna ársins 1995. Frv. þetta tengist nokkrum útgjaldaþáttum fjárlagafrv. Ég leyfi mér að fara nokkrum orðum um einstök efnisatriði þessa frv.
    Í 1. og 2. gr. er lagt til að enn verði frestað að hrinda í framkvæmd nokkrum útgjaldaskapandi ákvæðum í grunnskólalögum. Frestað er framkvæmd ákvæðis um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma. Þetta snýr að vísu að sveitarfélögunum en ekki að ríkissjóði. Engu að síður þótti rétt að létta þessari skyldu af sveitarfélögum tímabundið. Þá er frestað að lengja kennslutíma í grunnskólum eins og gildandi lög segja fyrir um. Hins vegar hefur á næsta skólaári verið bætt við aftur þeim 12 vikulegu kennslustundum sem fækkað var um haustið 1992. Fækkun nemenda í bekkjum er einnig skotið á frest.
    Ég tek fram að stefnt hefur verið að því að afgreiða grunnskólafrv. á þessu þingi. Nái það fram að ganga verður ekki þörf á ákvæðum 1. og 2. gr. þessa frv. og verða þær felldar á brott með nýjum grunnskólalögum.
    Í 3. gr. frv. er fjallað um heimild til að verja hluta af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra á árinu 1995 til tiltekinna rekstrarverkefna. Á undanförnum árum hefur átt sér stað hröð uppbygging á stofnunum fyrir fatlaða. Tilkoma Framkvæmdasjóðs fatlaðra markaði tímamót í þessu efni og hefur hann verið mikil lyftistöng í þeim framkvæmdum. Þessi uppbygging kallar hins vegar á umfangsmikinn rekstur. Því verður að teljast rétt að leggja meiri áherslu á að sinna rekstrarumfanginu sem þessari uppbyggingu fylgir og gæta þannig jafnvægis milli nýframkvæmda og rekstrar. Því er lagt til í 3. gr. að allt að 40% af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra verði varið til tiltekinna verkefna, þ.e. liðveislu, félagslegrar hæfingar og endurhæfingar, til greiðslu kostnaðar við starfsemi stjórnarnefndar um málefni fatlaðra, til greiðslu rekstrarkostnaðar á sambýlum og þjónustu stuðningsfjölskyldna mikið fatlaðra barna. Alls er ætlað að 124 millj. kr. verði varið til umræddra verkefna.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir að ekki verði heimilt að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs veiti styrki til þróunarverkefna á árinu 1995. Þó æskilegt kunni að hafa sýnst að sjóðurinn veiti styrki til atvinnuskapandi þróunarverkefna er það engu að síður svo að með slíkum styrkveitingum mismunar sjóðurinn samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja þannig að sum fá styrk til að hafa fólk í vinnu og önnur ekki. Þá á sú gagnrýni einnig nokkurn rétt á sér að fyrirtæki gætu misnotað sér þetta fyrirkomulag til að segja upp fólki í því skyni að afla sér styrkja. Með þessu ákvæði er ætlað að spara um 30 millj. kr.

    Síðari mgr. 4. gr. kveður svo á að heimilt verði að greiða þeim er þegið hafa atvinnuleysisbætur í fjóra mánuði eða lengur á 12 mánaða tímabili sambærilega uppbót og kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins gera ráð fyrir. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði ríkisstjórnarinnar frá því í sumar. Greiðslur slíkra bóta yrðu þá sambærilegar við það sem gerist í kjarasamningum og er hér verið að leita lögfestinga við þessum þætti bóta á þessu ári og er áætlað að það muni kosta 160--180 millj. kr.
    Í 5. gr. er gert ráð fyrir að leggja niður sérstök embætti héraðslækna og skipa einn heilsugæslulækni í hverju héraði til að gegna störfum héraðslæknis. Í dag eru starfrækt sjálfstæð embætti héraðslækna í tveim héruðum, Reykjavík og Norðurlandi eystra. Einnig er heimild fyrir skipun sérstaks héraðslæknis í Reykjaneshéraði en hún hefur aldrei verið notuð enda ekki fengist fjárveiting til þess.
    Þeim verkefnum sem nú er komið fyrir hjá þessum embættum verður áfram gegnt af héraðslæknum eða komið fyrir á annan hátt, m.a. með því að fela þau heilsugæslustöðvum eða embætti landlæknis. Með þessu móti er ætlað að hægt verði að spara 8 millj. kr. á næsta ári.
    Í 6. gr. er gert ráð fyrir að hægt verði að færa einstakar heilsugæslustöðvar milli umdæma en ráðherra gerir svo að höfðu fullu samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Er þetta gert með tilliti til sameiningar sveitarfélaganna. Ekki er gert ráð fyrir að beinn sparnaður hljótist af þessu í upphafi en breytingunni er ætlað að leiða til meiri skilvirkni í útgjöldum til heilsugæslustöðva er fram í sækir.
    Eins og kunnugt er hafa lengi verið uppi áform stjórnvalda þess efnis að sameina tvö af þremur sjúkrahúsum í Reykjavík. Meira en áratugur er liðinn frá því að heilbrigðisþjónustan hófu að leita máls á þessu. Hugmynd þessi mætti mikilli andstöðu í fyrstu en eftir því sem á leið varð æ ljósara að betri skilvirkni fengist í starfsemi sjúkrahúsanna á Reykjavíkursvæðinu ef þau sérhæfðu sig frekar. Síauknar kröfur um dýra hátækni gerir það illkleift og óráðlegt að halda úti þremur sjúkrahúsum á Reykjavíkursvæðinu sem hvert um sig vill vera búið besta tækjakosti og geta veitt fullkomna þjónustu á sem flestum sviðum.
    Fyrir þremur árum hófust umræður milli forráðamanna Borgarspítalans og Landakots um samvinnu og endanlega sameiningu þessara tveggja stofnana. Þótt deildar meiningar hafi verið uppi í fyrstu um slíka skipan skal segja það forráðamönnum beggja stofnananna til lofs að þeir settu ávallt markmiðið um góða heilbrigðisþjónustu ofar allri hagsmunagæslu fyrir eigin stofnanir og þannig hefur að lokum náðst raunhæft samkomulag um sameiningu Borgarspítala og St. Jósefsspítala, Landakots. Því er í 7. gr. þessa frv. lagt til að skipuð verði sérstök bráðabirgðastjórn fyrir Sjúkrahús Reykjavíkur, hið sameinaða sjúkrahús Borgarspítala og Landakots. Stjórnin vinnur að sameiningu spítalanna, þar með talið tilfærslu verkefna og gerir tillögur að framtíðarstjórnkerfi Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ekki verður gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv. að sérstök gjaldalækkun hljótist af þessu lagaákvæði. Þó skal bent á að ef þessar tvær stofnanir hefðu haldið áfram að starfa óbreyttar hvor í sínu lagi hefði kostnaður við þær á næsta ári orðið talsvert meiri en gert var ráð fyrir nú. Með tímanum leiðir sameiningin tvímælalaust til þess að fjármagn til heilbrigðisþjónustu nýtist betur og skili betri þjónustugæðum.
    Í 8. og 9. gr. er gert ráð fyrir að breyta lögum nr. 31 1987, um flugmálaáætlun, á þann veg að tekjur af flugvallargjaldi og eldsneytisgjaldi verði framvegis notaðar til að fjármagna rekstur flugvalla jafnt sem framkvæmdir. Svo sem fram kemur í greinargerð frv. er ætlunin að verja 70 millj. kr. á næsta ári af þessum tekjum til reksturs flugvalla en í heild er áætlað að gjaldið gefi tæpar 400 millj. kr. í tekjur. Hér gildir það sama sjónarmið og víða annars staðar í fjárlögum að ekki verði ráðist í dýrar fjárfestingar án þess að gert verði ráð fyrir fjármagni til reksturs þeirra.
    Í 10.--29. gr. er lögð til skerðing á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila og verkefna sem bundin eru í sérlögum. Samtals nemur gjaldalækkun af þessum sökum 1.135 millj. kr. og er það í samræmi við markmið fjárlagafrv. að sú lækkun nái fram að ganga.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu þáttum frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 og legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.