Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 18:59:52 (2577)


[18:59]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. félmrh. sakaði okkur stjórnarandstæðinga sem hér höfum talað um að vera neikvæðir í garð þessara pakka ríkisstjórnarinnar. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að þó að þar séu vissulega brúklegir hlutir á ferð og enginn hafi haldið öðru fram þá var það sem ég gagnrýndi sérstaklega og tel ámælisverðast í framgöngu ríkisstjórnarinnar allrar þær blekkingar sem eru ástundaðar með framsetningu skjalsins eins og það er og vísvitandi voru látnar ganga til fjölmiðla og étnar þar hráar upp í gær og fyrradag. Það tel ég mjög ámælisvert, svo sem eins og blekkingarnar um hækkun skattfrelsismarka sem eru engar raunhækkanir. Hæstv. félmrh. verður því miður að fresta því um sinn að gleðjast yfir því að með ákvörðunum ríkisstjórnarinnar á laugardaginn hafi verið teknar ákvarðanir um að lækka skatta. Svo er ekki. Það felast engar raunhækkanir skattleysismarka í ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því á laugardaginn.