Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:01:04 (2578)


[19:01]

     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ánægð að heyra að það hafi komið fram hér að það væri ýmislegt gott í þessari yfirlýsingu. Varðandi það að það felist engar raunhækkanir skattleysismarka í þessari lækkun þá býst ég við að á sl. ári hefði mönnum fundist að það hefði verið komin ástæða til þess fremur að hækka skattleysismörk en að lækka þau. Ég var að vekja athygli á því hér við hv. 12. þm. Reykv. að við hefðum tekið þátt í því fyrir tveimur, þremur árum að lækka þessi mörk um 380 kr. og það var mér mjög erfitt, hvort sem í þessu felast þær raunhækkanir sem ég tel að séu einhverjar eða ekki þá er allavega verið að lagfæra það slæma sem gert var þá. En ég tel að hluti af þessari lækkun sé raunhækkun, virðulegi þm., þó ég geri mér fulla grein fyrir því að hluti af henni er samkvæmt verðlagsbreytingum.