Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:02:14 (2579)


[19:02]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Staðreyndir þessa máls eru þær að þegar núv. ríkisstjórn tók við þá voru skattleysismörkin rúmar 65.000 kr. Þau hafa síðan á þessum tíma, á kjörtímabilinu, lækkað niður í þær 57.228 kr. sem þau eru núna og það að hækka þau nú í rúmar 59.000 kr. gerir ekki betur en að vega upp verðlagsbreytingar mældar á mælikvarða launa milli ára. Með öðrum orðum, raunskerðing skattfrelsismarkanna á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar helst óbreytt við álagningu tekjuskatts á næsta ári miðað við þá ákvörðun sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið á laugardaginn, sem er þar með engin ákvörðun, nema það kallist ákvörðun að halda skattbyrðinni óbreyttri. Það er það sem hér er á ferðinni. Skerðingin upp á þessar tæpar 8.000 kr. sem orðin er á skattfrelsismörkunum helst óbreytt. Það er niðurstaðan. Yfir því er ekki hægt að gleðjast, hæstv. félmrh., jafnvel þó að viljinn sé mikill.