Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:09:01 (2584)


[19:09]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef ég hef skilið hæstv. félmrh. rétt hér áðan þá kom það fram að það stæði ekki til að láta húsaleigubætur skerða bætur almannatrygginga. Nú er það svo að bætur almannatrygginga eru: grunnlífeyrir, ellilífeyrir, tekjutrygging, heimilisuppbót, sérstök heimilisuppbót fyrir þá sem hennar njóta og svo enn önnur uppbótin sem kemur til móts við þá sem við erfiðustu aðstæðurnar búa. Það er fólkið sem hefur mest útgjöld af lyfjakostnaði og það fólk sem hefur mest útgjöld af háum húsaleigukostnaði, hvort sem það er í eigin húsnæði eða í leiguhúsnæði. Það er alveg ljóst í fjárlagafrv. að það stendur til að skerða bætur almannatrygginga um 200 millj. kr. vegna húsaleigubótanna. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekkert að marka það sem stendur í þessu fjárlagafrv.?