Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 20:31:50 (2591)

[20:31]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga, sem liggur fyrir um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995, er framhald eftir efninu á einstæðum ferli hæstv. ríkisstjórnar á árinu. Eins og áður hefur komið fram í umræðunni er um gamlan kunningja að ræða og slík ákvæði sem hér eru hafa vissulega sést áður en það sem er sérkennilegt við málið er sú leiksýning sem var sett upp núna á laugardaginn við svokallaða yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Fregnir berast af því í dagblöðum núna eftir helgina að við hafi legið að slitnað hafi upp úr stjórnarsamstarfinu vegna þessarar yfirlýsingar og mikil dramatík sett í kringum þetta mál allt saman. Að vanda var haft það mikið við stjórnarandstöðuna að fjölmiðlum var send yfirlýsingin fyrst áður en hún var kynnt stjórnarandstöðunni og minni hlutinn í fjárln. fékk með herkjum fund í morgun í nefndinni með fulltrúum ráðuneytisins til þess að kynna okkur málið. Satt að segja var undrunin mikil þegar plaggið barst loks í hendurnar á okkur eins og ég kem aðeins að síðar.
    Ég vil drepa á fáeinum atriðum í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það kveður m.a. á um að fresta ákvæðum grunnskólalaga varðandi skólamáltíðir og einsetningar í skólum. Á eftir verður gerð nánari grein fyrir því máli en þetta er auðvitað stefnumörkun um að sveitarfélögin, ef þau fá grunnskólann og rekstur hans, eiga þau að taka við honum eins og hann er núna. Þá er verið að afhenda þeim það

verkefni að framkvæma grunnskólalögin eins og þau eru núna og nýju grunnskólalögin. Það er auðvitað merki til sveitarfélaganna að þetta liggur fyrir og þá er engum blöðum um það að fletta hver er ætlun hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Það er athyglisvert í ljósi þess að einmitt í dag var verið að ganga frá enn einum samstarfssamningnum við sveitarfélögin en það er nú orðinn fastur liður að undirskrifa samninga á jólaföstunni um þokkaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga þar sem á næstu jólaföstu verður allt allt í háa lofti út af því að þessir samningar hafa verið brotnir. Vonandi hafa orðið umskipti á næstu jólaföstu og þessi ríkisstjórn farin frá og önnur ríkisstjórn komin í staðinn svo að við þurfum þá ekki að ganga í gegnum þessar æfingar varðandi sveitarfélögin enn einu sinni. Ég kem örlítið nánar að þessu samkomulagi á eftir sem hæstv. félmrh. kynnti áðan í ræðu sinni fyrir kvöldmatarhlé.
    Í II. kafla frv. eru nokkur skerðingarákvæði sem er fastur liður um árabil að flytja í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum og ef ég man rétt fylgdi þetta áður frv. til lánsfjárlaga hér en þetta er einfaldlega ákvæði um það að standa ekki við þá löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt um fjárframlög til ýmissa stofnana og sjóða. Þetta er fastur liður og mörg ákvæðin hafa verið mjög lengi inni og það vekur spurningu um hlutverk Alþingis og hvort verjandi sé fyrir þingmenn og þessa stofnun að setja löggjöf, vekja væntingar, ákveða tekjustofna sem eru síðan skertir á hverju ári. Hins vegar eru ákvæði í 10 gr. í II. kafla frv. um að framlag til Kvikmyndasjóðs skuli eigi vera hærra en 81 millj. kr. Það er svo með stjórnarliðið að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir því að í fjárlaganefnd í gær var verið að ákveða að þetta framlag yrði 100 millj. kr. vegna þess að framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs hafði litið þar inn. Ég var reyndar ekki þar viðstaddur en sagt var að í fjárln. væru eintómir sveitalubbar sem --- ég þori nú ekki að hafa orðbragðið eftir í ræðustól Alþingis --- væri sama um þetta borgarpakk sem væri að gera kvikmyndir. Meiri hlutinn í fjárln. hrökk illilega við og vildi ekki láta kenna sig við sveitina eða mykjulykt og hækkaði framlagið upp í 100 millj. eftir þessa heimsókn. Ég var að vísu ekki viðstaddur þá ágætu heimsókn en það hefði ekki bætt um þó að einn sveitamaðurinn enn hefði komið þarna því að ég er nú fæddur og upp alinn í sveit og hef verið töluvert í fjósum. Þessi gerð fjárln. virðist ekki hafa borist til eyrna þeirra sem gerðu frv. þannig að þarna þarf brtt. að koma til.
    12. gr. frv. hljóðar svo: ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 3. gr. laga nr. 71/1990, um listskreytingasjóð ríkisins, skal framlag ríkissjóðs falla niður á árinu 1995.`` Þarna er komið inn á mál sem hefur verið til umræðu einnig í fjárln. þar sem verið er að endurskoða lögin um listskreytingasjóð ríkisins og það er svo einkennilegt að þó að endurskoðunin standi yfir eða sé vart byrjuð er ákveðið að leggja fjárframlög til sjóðsins niður. Ég hef engar skýringar fengið á því þrátt fyrir eftirgrennslan í meðförum fjárln. af hverju þetta er og af hverju þessi sjóður fær aðra meðferð en t.d. Kvikmyndasjóður af því að nú er verið að hækka framlag til hans en kannski eru ekki eins aðsópsmiklar frúr sem eru í forsvari fyrir þann sjóð og kveður ekki eins mikið að þeim þegar þær koma í heimsókn. Hins vegar hafa komið mótmæli frá ýmsum aðilum við því að leggja sjóðinn niður. Þau mótmæli hafa verið frá fleirum en myndlistarmönnum en þetta er mikilvægur sjóður fyrir myndlistina í landinu og hefur staðið undir ýmsum verkefnum myndlistarmanna og verið þarfur og sjást merki hans við ýmsar opinberar byggingar.
    Eitt atriði enn ætla ég að nefna í frv., það er í 8. gr., en það málefni kom til umræðu í dag í fyrirspurnatíma og er um breytingu á lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjárveitingu til framkvæmda í flugmálum. Í 8. og 9. gr. er kveðið á um að tekjum af flugvallagjaldi skuli varið til reksturs að hluta og í athugasemdum frv. kemur fram að 70 millj. eru áætlaðar til reksturs flugvalla eða flugmálareksturs Flugmálastjórnar og það er tekið af framkvæmdaliðnum.
    Fyrir nokkrum árum urðu þáttaskil í flugmálum með svokallaðri flugmálaáætlun og á undanförnum árum hefur verið mikið framfaraskeið í flugmálum og mikil uppbygging. Mikið hefur verið gert og vantar herslumuninn í þessum efnum þannig að allir aðalflugvellir landsins þjóni nútímaflugumferð. Þess vegna finnst mér meira en lítið hæpið að stoppa nú við og draga úr þessu einmitt á þessu tímaskeiði. Ég get vel skilið að á einhverjum tíma sé réttlætanlegt eftir því sem þessum framkvæmdum miðar að taka eitthvað af þessu fé til reksturs. Hins vegar er það svo að tæknin útheimtir miklar framkvæmdir við flugvelli jafnvel þó búið sé að leggja bundið slitlag á marga þeirra en það er nokkuð eftir. Þegar er búið að ákveða og gera tillögu um það í flugráði hvernig á að skera niður í framkvæmdum þessar 70 millj. og er áætlað að það bitni á þremur stöðum, Sauðárkróki, Húsavík og Egilsstöðum en mér finnst ekki heldur nógu góð vinnubrögð að skiptingin skuli ekki koma formlega til kasta Alþingis. Satt að segja er nokkur losarabragur á því að Alþingi fylgist nógu grannt með framkvæmd flugmálaáætlunar og þyrfti þar að bæta úr vegna þess að ekki eiga allir flokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, einu sinni sæti í flugráði. Minn flokkur á það ekki þannig að aðstaða okkar framsóknarmanna til að fylgjast með þessum málum er að við höfum enga beina aðild að þessari tillögugerð, á frumstigi. En ég ætla ekki að ræða nánar um einstakar framkvæmdir í þessu efni. Ég tel mjög vafasamt svo að ekki sé meira sagt miðað við það sem liggur í framkvæmdum á flugvöllum að færa þessa upphæð yfir í rekstur á þessu stigi.
    En svo víkur sögunni að leiksýningunni á laugardaginn var um yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Hér eru taldar upp nokkrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir. Í fyrsta lagi er þetta margumtalaða átak í vegamálum, sem hefur verið á dagskrá hér um nokkurn tíma, og fjölmiðlar, einkum sjónvarpsstöðin Stöð tvö, hafa birt fréttir af með reglulegu millibili. Núna fyrir helgina og kom stórfrétt um að ríkisstjórnin hygðist veita á næstu

fjórum árum ef ég man rétt 30 milljarða kr. til vegamála. Þótti mörgum sem á horfðu þetta nokkuð mikil upphæð. Hér er sagt frá því að ríkisstjórnin hafi samþykkt að verja 3,5 milljörðum kr. til öflugs átaks í vegamálum á næstu fjórum árum. Þeir í hæstv. ríkisstjórn hafa reyndar gleymt því að kosningar eru í millitíðinni þannig að ég get ekki séð að það sé í þeirra valdi að ákveða aðgerðir til næstu fjögurra ára, ekki nema ætlunin sé að þeir vinni saman ef þeir fá til þess kraft eftir kosningar sem ég vona að ekki verði. Ekki er allt sem sýnist með þetta átak. Í frv., sem hér er til umræðu, eru ákvæði eins og komið hefur fram um að skera niður ríkisframlagið í Vegasjóð um 275 millj. kr. Í Vegasjóði eru 500--600 millj. kr. vegna ferjureksturs sem gleymist alltaf í umræðunni um átök til vegmála, þ.e. að Vegasjóður hefur tekið á sig rúmlega hálfan milljarð kr. sem er aldrei tíundaður í þessu sambandi. Hitt er svo annað mál að það er auðvitað jákvætt að gera þetta átak. Hins vegar kom fram í umræðum í fjárln. í morgun að það hefði verið skotið á að gildið 0,3% í atvinnuleysisprósentunni, þetta átak upp á 1.250 millj. kr. Að vísu var tekið fram að ekki væru mikil vísindi á bak við þetta en ég held að atvinnuþáttur átaksins sé oft og tíðum ofmetinn. Ekki það að hliðaráhrif stórframkvæmda í vegamálum eru allmikil en stórframkvæmdirnar sjálfar taka ekki til sín mörg ársverk en þær taka vissulega til sín vélakost og stór hluti fjármagnsins fer í vélavinnu. Ég held því að það verði að fara svolítið varlega í það þegar átak í vegamálum er talið leysa atvinnuvandann og ég er hissa á því ef verkalýðshreyfingin tekur slíkt gott og gilt. Hins vegar eru áhrif átaks í vegamálum mjög jákvæð. Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það og auðvitað er ég og aðrir þingmenn jákvæðir gagnvart átaki í þessum efnum. Hins vegar má varast að ofmeta áhrif þeirra á atvinnustigið í landinu eða atvinnuleysisprósentuna. Ég get t.d. nefnt að á Austurlandi var góð framkvæmd í vegamálum í sumar, bygging brúar yfir Jökulsá í Dal og brúarbyggingar hafa oft þótt mannfrekar vegaframkvæmdir. Sú framkvæmd kostaði um 120--130 millj. kr. Hún hófst um mánaðamótin apríl/maí og lauk í lok september og við stórframkvæmdina unnu 10--15 menn þannig að framkvæmdirnar eru mjög jákvæðar en það má varast að ofmeta þessi áhrif.
    Hins vegar er svo annað mál hvernig á að skipta vegafénu og heyrst hefur að það eigi að brjóta upp það samkomulag, sem verið hefur á Alþingi um skiptingu vegafjár milli kjördæma, og væri fróðlegt að heyra um það frá hæstv. forsrh. hvar það mál stendur. Síðan er ákvæði nr. 2 um að hætta við að brjóta loforð síðan í fyrra. Ekki er nema gott eitt um það að segja. Það er ágætisefni í yfirlýsingu til að fylla fyrstu blaðsíðuna af þessum pappír. Síðan kemur þriðja atriðið: ,,Til þess að treysta enn frekar undirstöður íslensks atvinnulífs og skapa fleiri störf mun ríkisstjórnin leggja fram frv. um nýsköpun í atvinnulífinu.`` Ekki er seinna vænna þegar einn mánuður er eftir af þingtímanum. Takið eftir, nú á að leggja fram frv. um nýsköpun í atvinnulífinu þegar einn mánuður er eftir af þingtímanum á kjörtímabilinu. Það þarf náttúrlega ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég ætla að hafa orð um þetta allt í lokin. Síðan er talað um örvun fjárfestingar. Þar er talað um að falla frá lagabreytingu, sem gerð var í hæstv. ríkisstjórn, og barin í gegn fyrir tveimur árum. Síðan þurfti hæstv. heilbrrh. að fá eitthvað inn og á undanförnum árum hefur verið mikill glundroði í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík og reyndar deilur um hvort rétt sé að sameina stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Um það hafa verið skiptar skoðanir hvort rétt sé að sameina Landakotsspítala og Borgarspítalann og búa til tvo stóra spítala hlið við hlið og setja þá í samkeppni. Hins vegar er verið að ganga frá þessum málum núna og þetta er komið inn í yfirlýsinguna með fyrirsögninni ,,Styrkari fjárhagur heilbrigðisstofnana.`` Hann er nú ekki styrkari en það að búið er að fresta öllum málum sjúkrahúsanna til 3. umr. fjárlaga og á þessari stundu er ekki séð fyrir hvernig þessum málum verður skipað á næsta ári. Ég lít því á þetta sem eitthvað sem hæstv. heilbrrh. þurfti að fá inn frekar en að sérstaklega sé verið að greiða fyrir kjarasamningum eða viðhalda stöðugleika.
    Síðan er verið að tala um hvað eigi að gera á næsta kjörtímabili með skattlagningu fjármagnstekna. Ég get sparað mér orð um það því að auðvitað væri æskilegt að ríkisstjórnin fengi ekki meiri hluta í kosningum og yrði farin frá og aðrir teknir við þegar þessi ákvæði eiga að ná fram að ganga. Síðan koma ákvæði nr. 7, 8 og 9 og eru þau til bóta og er verið að taka á ákveðnum skattamálum. Ég skal viðurkenna það sem rétt er. Þetta er skref í rétta átt. Þau eru að vísu ekki stór en eigi að síður eru þessi þrjú atriði jákvæð og raunverulegar aðgerðir í skattamálum og satt að segja er lítið meira sem yfirlýsingin inniheldur.
    Ákvæði nr. 10 eru aðgerðir gegn skattsvikum. Hafa menn einhvern tíma heyrt áður talað um það? Ég hef heyrt talað um það áður en ég hef líka heyrt þær staðhæfingar að enn þá sé svarta atvinnustarfsemin og neðanjarðarhagkerfið um 11 milljarðar kr. þannig að mér finnst þetta lítið annað en orð og næsti kafli um hækkun skattleysismarka, sem er búið að fjalla hér um og ég ætla ekki að endurtaka, er blekking. Þá koma greinar nr. 12 og 13 sem eru um samstarf um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Þessu er ætlað að koma til mós við þann mikla vanda og vanskil sem heimilin í landinu standa frammi fyrir og hefur verið til umræðu á Alþingi. Það á að gera með þeim hætti að ríkisstjórnin mun beita sér fyrir viðræðum við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóða um leiðir til að taka á greiðsluvanda þeirra íbúðaeigenda sem hafa orðið fyrir sérstökum skakkaföllum vegna samdráttar í tekjum. Þá hafa menn það. Núna nokkrum dögum fyrir jól, nokkrum mánuðum fyrir kosningar, á að taka upp viðræður um þann vanda sem hefur verið viðloðandi meiri hlutann af þessu kjörtímabili. Síðan á að hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum. Þetta er náttúrlega ekkert annað en kosningaplagg. Það er best að hafa það eina orð um það. Hinar einu raunverulegu aðgerðir í þessu eru þær að verið er að framlengja hátekjuskattinn, en það fékkst fram með herkjum, og auðvitað var mikil hagsmunagæsla í því. Ég trúi því að hitnað hafi í stjórnarsamstarfinu og Sjálfstfl. hafi staðið svona vel í ístaðinu en látið undan fyrir Alþfl. að lokum en reynt síðan að breiða yfir það með því að fá fram það sem þeir kalla leiðréttingu á því sem þeir kalla ekknaskatt. Þarna hafa farið fram viss kaup og er auðvelt að sjá hvernig þau hafa farið fram. En þetta eru raunverulegar ráðstafanir sem ég ætla ekki að leggjast á móti. Mér finnst þetta lagfæringar til bóta en þetta er líka það eina sem er í ráðstöfunum sem er í raun bitastætt fyrir utan átakið í vegamálum sem er jákvætt en alveg er eftir að greina frá því á Alþingi og leggja það fyrir hvernig það átak verður útfært. Ég er sannfærður um að þetta plagg dugir ekki til að ná farsælum kjarasamningum eða kjarajöfnum. Þetta plagg segir ekkert um það. Auðvitað á eftir að fjalla mikið um þetta enn þá áður en þessi ákvæði koma til framkvæmda þannig að ég læt hér staðar numið að sinni.