Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 21:43:53 (2595)


[21:43]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefðbundna frv. sem hér er komið fram um ráðstafanir í ríkisfjármálum er endurtekning að sumu leyti á því sem við höfum áður séð. Það ber þá fyrst nefna breytingar á lögum um grunnskóla sem hefur verið árvisst og virðist einnig vera gert ráð fyrir því að ekki verði um flutning grunnskólans að ræða til sveitarfélaganna samkvæmt því sem hér stendur.
    Það er dálítið einkennilegt til þess að vita að það skuli alltaf þurfa að fresta þessum ákvæðum, jafnvel þó að þau séu þess eðlis að þau eigi ekki að hafa áhrif á fjárhag ríkisins.
    Í öðru lagi er hér breyting á lögum um málefni fatlaðra þar sem verið er að hækka það hlutfall sem verja má til reksturs úr 25% í 40%. Það hefur verið rætt hér allnokkuð á hvaða braut ríkisstjórnin er með því að hækka sífellt það framlag sem notað er í rekstur, bæði í lögum um málefni fatlaðra og eins í öðrum lögum þar sem sífellt er verið að seilast lengra í sjóði sem eiga að vera til framkvæmda og taka stærri og stærri hluta til rekstrar.
    Þá finnst mér einnig mjög athyglisvert þetta með breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem stendur í 4. gr. að ekki sé gert ráð fyrir því að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs veiti styrki til þróunarverkefna til varanlegrar atvinnusköpunar á árinu 1995. Það kom fram í ræðu hæstv. félmrh. fyrir stundu að hún reiknaði með því að Atvinnuleysistryggingasjóður mundi áfram veita styrki til átaksverkefna og er nokkuð merkilegt að það skuli samt sem áður eiga að halda áfram en ekki til þróunarverkefna sem ég hefði talið að væri sterkari leikur.
    Í öðrum greinum eru síðan hefðbundnar skerðingar og ég ætla að gera að umtalsefni breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum. Það segir í 6. gr. laga um flugmálaáætlun sem hér er verið að breyta, með leyfi forseta:

    ,,Flugmálastjórn annast innheimtu sérstaks gjalds skv. 5. gr. og skal tekjum af því einungis varið til framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun.``
    Nú á 6. gr. að vera svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Flugmálastjórn annast innheimtu sérstaks gjalds skv. 5. gr. og skal tekjum af því einungis varið til rekstrar flugvalla og framkvæmda í flugmálum samkvæmt flugmálaáætlun.``
    Það sama er að gerast með 14. gr. Þar er kveðið á um að tekjum af flugvallargjaldi skuli einungis varið til framkvæmda í flugmálum en með þessum breytingum er þeim varið til rekstrar flugvalla einnig.
    Hér er um 70 millj. kr. að ræða sem nú á að taka af framkvæmdum í flugmálum og verja til rekstrar. Það mun hafa þau áhrif að flugmálaáætlun sem var samþykkt á síðasta þingi, rétt fyrir þinglok, mun breytast í veigamiklum atriðum og verður ekki hægt að fara í þær framkvæmdir sem þar var ákveðið.
    Í 6. gr. frv. segir að ráðherra geti í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir ákveðið breytingar á framkvæmd einstakra málsliða og er vitnað til sameiningar sveitarfélaga, að ráðherra geti sett reglugerð og fært þannig heilsugæslustöðvar á milli umdæma.
    Um 6. gr. segir að í henni sé skýrt nánar hvað felist í heimild ráðherra. Þó er það raunverulega ekki skýrt að neinu ráði nánar heldur aðeins sagt að vegna sameiningar sveitarfélaga sé nauðsynlegt að leiðrétta starfssvæði einstakra heilsugæslustöðva. Ég mundi vilja spyrja hæstv. forsrh. hvaða stöðvar hér er verið að tala um. Eru ekki einhverjar hugmyndir um það hvaða stöðvar er verið að færa á milli heilsugæsluumdæma og sameina, skv. 6. gr. frv.? Eitthvað hlýtur að búa á bak við það.
    Síðan er endurteknar ákveðnar skerðingar á ýmsum lögum í II. kafla og vil ég nefna listskreytingasjóð sem samkvæmt fjárlagafrv. á ekki að fá eina einustu krónu en ætti að hafa í lögbundnu framlagi 19 millj. kr. Þetta er sjóður sem listamenn hafa getað sótt í til þess að skreyta ýmsar opinberar byggingar og þeir hafa komið á fund fjárln. og kvartað mjög yfir því að hann sé nú aflagður.
    Húsafriðunarsjóður er einnig skertur um 28 millj. og er það mjög slæmt mál til þess að vita því það er atvinnuskapandi að vinna að verndun og endurbyggingu gamalla húsa. Ég held að eitthvað annað hefði mátt skerða ef nauðsyn var á að skerða eitthvað en þennan sjóð.
    Hvað varðar Bjargráðasjóð þá á að skerða hann einnig niður í núll og það er nokkuð athyglisvert að í fjáraukalögum sem við vorum að ræða nýlega þá þurfti að leggja fram 12 millj. kr. til Bjargráðasjóðs til þess að aðstoða bændur en á sama tíma er verið að leggja hér til að hafa engin framlög í sjóðinn á fjárlögum. Líklega þarf að leggja til eitthvað í fjáraukalögum á næsta ári í sjóðinn að nýju.
    Ferðamálaráð fær einnig sína hefðbundnu skerðingu og í þetta skipti er skerðingin reiknuð 130 millj. kr. þannig að ráðið fær aðeins 68 millj. af sínum lögbundna tekjustofni af tekjum Fríhafnarinnar. Mun þá skerðingin á framlagi til Ferðamálaráðs vera orðin í kringum 1 milljarður kr. frá upphafi og hefði verið hægt að gera sitthvað við það framlag ef það hefði fengist. Ekki hvað síst þegar það er skoðað að ferðaþjónusta er orðin annar stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar hvað varðar tekjur og hefur verið mjög vaxandi á síðustu árum og skilar næstmestum tekjum í þjóðarbúið á eftir sjávarútvegi. Það hefði því hugsanlega verið jafnvel hægt að byggja ferðaþjónustu enn betur upp ef Ferðamálaráð hefði haft sína lögbundnu tekjustofna og þá líklega mundi þetta skila allt að helmingi meiri tekjum í ríkissjóð í dag ef ekki hefði verið eins og hér er lagt til.
    Þetta var um bandorm, hlaupið í fljótu bragði á þeim lagagreinum sem hér eru nefndar en ég tel víst að efh.- og viðskn. muni fjalla ítarlega um frv. og skoða hvaða áhrif það hefur á hag almennings og hag ríkissjóðs að sjálfsögðu líka. Ég vona að hv. efh.- og viðskn. taki sér góðan tíma í að skoða hvaða áhrif þetta hefur því stundum hefur því miður verið of mikill hraði á afgreiðslu skattamála á Alþingi. Það hefur þá komið okkur í koll nokkrum vikum seinna þegar þurft hefur að breyta aftur lögum um skattamál sem samþykkt hafa verið í of miklum flýti.
    Það er ekki hægt að ræða svo þennan bandorm að nefna ekki yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu og kjarajöfnun, eins og þar stendur. Það hefur verið rakið af þeim sem hafa talað á undan mér og kannski ekki miklu við það að bæta. Ég ætla að gera að umtalsefni afnám tvísköttunar lífeyrisgreiðslna sem er rætt um og á að kosta ríkissjóðs líklega 200--300 millj. kr. ef það verður framkvæmt á sama hátt og áætlað er hér.
    Ég vil vara við því að farin verði sú leið að setja á þetta eitthvað sérstakt þak vegna útgreiðslu á lífeyri. Það er miklu réttlátara að gera það á þann hátt sem við kvennalistakonur höfum lagt til í frv. sem hefur verið flutt þrisvar sinnum á Alþingi, að þessi frádráttarliður sé þegar fólk greiðir sitt 4% framlag í lífeyrissjóð. Þá kemur það réttlátar niður en ef farið er að meta um 15% af þeim lífeyri sem fólk á að fá til greiðslu og hafa einhver skattleysismörk á því. Þá verður það mjög misjafnt eftir því hvað mikið fólk fær úr lífeyrissjóði og mun koma þeim mest til góða sem hæstan hafa lífeyrinn en ekki þeim sem lægstar hafa tekjurnar af sínum lífeyri. Ég held að þarna sé ekki verið að fara í réttlætisátt heldur miklu fremur að hygla þeim sem hafa hærri lífeyri en hinum sem berjast í bökkum og hafa lægstan lífeyri.
    Það er líka nokkuð einkennilegt að meta þetta sem 15% af útborguðum lífeyri og að framlag atvinnurekenda sé 22%, restin sé síðan vaxtatekjur lífeyrissjóðsins.
    Ég ætla líka að nefna hækkun skattleysismarka sem er talað um að eigi að skila 2.150 kr. hækkun á skattleysismörkum einstaklings á mánuði og mun hafa í för með sér að persónuafsláttur hækkar um

867 kr. á mánuði. Það hefur verið rakið í umræðum að þetta sé ekki annað en það sem megi búast við ef farið er eftir eðlilegum verðlagsbreytingum sem persónuafslátturinn á að taka mið af. Það má kannski minna á það líka sem kom reyndar einnig fram í ræðu hæstv. félmrh., að hún hefði ásamt öðrum í ríkisstjórn og meiri hluta Alþingis staðið að því að lækka persónuafsláttinn um tæpar 400 kr. Ef hér er verið að tala um hækkun sem er bara vegna verðlagsákvæða um 1.700 kr. þá eru 400 kr. til viðbótar upp í þessar 2.100 kr. sú hækkun sem tekin var, þ.e. það sem persónuafslátturinn var lækkaður um fyrir einu ári. Það er allt sem verið er að bæta fólki að nafninu til með hækkun persónuafsláttar.
    Til enn frekari áréttingar þá er nefnt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um áhrif skattbreytinga samkvæmt lögum nr. 122/1993, með leyfi forseta:
    ,,Í byrjun árs 1988 var tekin upp staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars hér á landi. Við upptöku kerfisins var persónuafsláttur ákveðinn það ríflegur að tryggt var að ekki var greiddur skattur af tekjum sem jafngilda tæplega 71.000 kr. ef tekið er tillit til breytinga á meðaltalsframfærsluvísitölu milli áranna 1988 og 1993. Frá 1988 hafa skattleysismörk hins vegar lækkað verulega enda persónuafsláttur ekki fylgt verðlagi á þann hátt sem gert var ráð fyrir í upphafi. Frá árinu 1988 hefur skatthlutfall í staðgreiðslu [þ.e. tekjuskattur og útsvar] breyst fimm sinnum og verið hækkað úr 35,2% á árinu 1988 í 41,84% á árinu 1994. Persónuafsláttur lækkaði hins vegar úr 299 þús. kr. á árinu 1988 í 285 þús. kr. á árinu 1993.`` --- Þetta er allt miðað við hækkun meðaltalsframfærsluvísitölu. --- ,,Skattleysismörkin 1988, reiknuð með sama hætti, voru því 851 þús. kr. en 690 þús. kr. á árinu 1993.``
    Lækkunin á milli þessara ára er 19%. Það er búið að breyta því sem upphaflega var ákveðið þegar staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars var sett á á árinu 1988 og það er búið að lækka skattleysismörkin um 19%.
    Í einum lið yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er talað um lækkun húshitunarkostnaðar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda orkufyrirtækja.``
    Nú ætlar ríkisstjórnin að hefja viðræður við orkusölufyrirtækin til að reyna að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað. Ríkisstjórnin hæstv. er búin að vera með þetta á sinni stefnuskrá alveg frá því að hún hóf sitt starf árið 1991. Samkvæmt því sem hæstv. iðnrh. skrifar nýlega í Morgunblaðið þá telur hann að tekist hafi að lækka húshitunarkostnað á köldu svæðunum svokölluðu þannig að niðurgreiðslur ríkisins hafi aukist um allt að 80%. Það er bara hvorki meira né minna en 80%, segir hæstv. iðnrh. Það væri vert að vita hvort hæstv. iðnrh. er í húsinu því það er tilvalið að spyrja hann að því hvort inni í þessari 80% hækkun á framlagi til niðurgreiðslu á húshitun sé ekki 14% virðisaukaskatturinn sem lagður var á húshitun. Ef hann er talinn með í þessari upptalningu þá er hægt að segja að niðurgreiðsla hafi aukist vegna þess að fyrst eru álögurnar hækkaðar og síðan er niðurgreiðslan aukin til að greiða hækkunina niður aftur. Ef hæstv. iðnrh. er í húsinu þá væri rétt að spyrja hann um hvernig þessi niðurgreiðsla, sem hann hefur reiknað svona út, sé tilkomin. Virðulegur forseti, er . . .


    ( Forseti (SalÞ) : Það er verið að athuga það, annars situr hæstv. iðnrh. ekki á þingi eins og er.)
    Því hefur áður verið haldið fram að verði reynt að fá Landsvirkjun og orkusölufyrirtækin, dreifingarfyrirtækin, til að koma til móts við ríkisstjórnina um að lækka húshitunarkostnaðinn. Það hefur eitthvað smávegis áunnist í sambandi við Landsvirkjun en hún hefur venjulega tekið það aftur með taxtahækkunum annaðhvort á undan eða eftir. Á þessum tíma hefur Landsvirkjun hækkað taxta sína a.m.k. þrisvar sinnum og venjulega um 5% í hvert skipti.
    Virðulegur forseti. Það virðist ganga seint að ná í hæstv. iðnrh. Er hann ekki í húsinu?
    ( Forseti (SalÞ) : Að því best er vitað er hæstv. iðnrh. í húsinu og það er verið að gera honum viðvart.)
    Á meðan hæstv. iðnrh. lætur á sér standa ætla ég aðeins að nefna eitt í frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem mér láðist að nefna áðan. Það er að í 29. gr. Þar segir:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum, skal framlag ríkissjóðs til refa- og minkaveiða eigi nema hærri fjárhæð en 27 millj. kr. á árinu 1995.``
    Síðan eru nokkrar nánari skýringar þar sem stendur að ríkissjóður endurgreiði ekki á árinu 1995 kostnað við refa- og minkaveiðar í sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri en 2.000 miðað við íbúafjölda 1. des. 1994.
    Nú vil ég gera það nokkuð að umtalsefni að á síðasta ári hefur talsvert verið unnið að og komið til framkvæmda sameining sveitarfélaga. Ég get nefnt nokkur dæmi úr mínu kjördæmi þar sem t.d. Snæfjallahreppur var sameinaður Ísafjarðarkaupstað. Nú vill svo til að Snæfjallahreppur nær yfir nokkuð stórt svæði en þó honum sé bætt við Ísafjarðarkaustað þá hefur ekki fjölgað um mjög marga íbúa en þeir eru þó yfir 2.000. Hins vegar hefur svæðið stækkað allmikið og á þessu svæði er þó nokkuð mikið um refi og minka. Það virðist því vera samkvæmt þessu ákvæði að í þeim sveitarfélögum þar sem íbúar eru fleiri

en 2.000, eins og núna í stækkuðum Ísafjarðarkaupstað, þá verði ekki framvegis endurgreiddur kostnaður við refa- og minkaveiðar í því sveitarfélagi. Þetta tel ég jafnvel vera gert af vangá því það eru fleiri dæmi um svona atriði þar sem sveitarfélög hafa verið stækkuð og ná þá kannski rúmlega 2.000 íbúum en innan þeirra eru þá fyrrverandi dreifbýlissveitarfélög þar sem áður hefur þurft að sinna þessu starfi allverulega og verið treyst á framlag ríkissjóðs til þess.
    Ég sé að hæstv. iðnrh. er kominn í salinn og vil þakka fyrir það. Ég ætla að spyrja hann um 13. liðinn í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um lækkun húshitunarkostnaðar. Ég kom inn á það að nýlega skrifaði hann grein í Morgunblaðið þar sem hann telur upp að ríkissjóður hafi aukið framlög sín um allt að 80% á tímabilinu og nefnir tölur í því sambandi. Nú vil ég spyrja hann hvort inni í þeim tölum og prósentureikningum sé ekki einnig niðurgreiðslan á 14% virðisaukaskattinum sem lagður var á húshitun um síðustu áramót og hvort það sé ekki reiknað með í þessari 80% aukningu á niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. ( Iðnrh.: Það er ekki.) Það er ekki, segir hæstv. ráðherra. Ég hefði óskað að hann svaraði mér í ræðustól á eftir þar sem það er nokkuð mikið sem hann fullyrðir í greininni að þessi niðurgreiðsla hafi aukist um og þá sé ekki langt í það takmark sem ríkisstjórnin hafi sett sér árið 1991 um að ná því að kostnaður við húshitun á vísitöluhúsnæðinu væri aldrei meira en sem svaraði 60 þús. kr. á ári. En það væri ágætt ef hæstv. ráðherra vildi svara því nánar. Þar sem ég hef nú lokið við að fara yfir þetta frv. og það sem ég vil sérstaklega spyrja um í sambandi við þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þá hefur hann tækifæri til þess.