Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 22:59:18 (2603)


[22:59]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fjárlög eru spá um útkomu tíma sem ekki er kominn. Úttekt Ríkisendurskoðunar og Þjóðhagsstofnunar er dómur um reynslu. Sá dómur liggur fyrir. Við getum endalaust deilt um það hvað framtíðin kann að bera í skauti sér en við getum ekki deilt um það hvað úrskurðaraðilar hafa sagt. Að láta sér detta í hug að bera saman einfaldar tölur og áætlun um ríkisútgjöld á næsta ári eða fjárlögum eða ríkisreikningi árið 1991 án þess að taka með í reikninginn þá fjölgun sem þar hefur átt sér stað á bótaþegum trygginga, án þess að taka þar með í reikninginn þá fjölgun sem átt hefur sér stað á þjónustutilefnum í heilbrigðismálum, sem taka til sín mikið aukið fjármagn, og halda því svo fram að ekki sé um sparnað á útgjöldum ríkisins að ræða eða halda því fram að verið sé að velta útgjaldasparnaði ríkisins yfir á einstaklingana þvert gegn því sem Ríkisendurskoðun og Þjóðhagsstofnun hafa dæmt um. Og að hv. þm. skuli halda því fram að hann hafi ekki með höndum þær upplýsingar sem komið hafa fram um þessi mál frá Ríkisendurskoðun og Þjóðhagsstofnun --- síðast komu upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um þetta í apríl á þessu ári --- sýnir bara eitt, virðulegi forseti, og það er að hv. þm. fylgist ekki með. Ef hv. þm. fylgist með og vinnur sitt starf eins og hann á að gera og ég vænti þess að hann geri trúi ég því ekki að hann hafi ekki kynnt sér niðurstöður Ríkisendurskoðunar sem fjallar um þessi mál og niðurstöður Þjóðhagsstofnunar sem fjallar um þessi mál líka og komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir stóraukna heilbrigðisþjónustu á Íslandi, þrátt fyrir að biðlistar eftir aðgerðum hafi styst, tókst að ná þeim árangri að spara í heildarútgjöldum íslensku þjóðarinnar á tveimur árum sem samsvaraði á sjötta þúsund kr. á hvert mannsbarn í landinu. Sá hv. þm. sem ætlar að skipta sér af heilbrigðismálum og þykist ekki vita þetta eða hafa þetta við höndina á mikið ólært.