Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 23:01:44 (2604)


[23:01]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að sá hæstv. heilbr.- og trmrh. sem veit ekki hvað er í í fjárlagafrv. eigin ríkisstjórnar eigi mikið ólært. Það er einfaldlega svo að ég tók tölur úr fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar og bar saman það sem var að gerast í dag og það sem stendur í fjárlagafrv. Ég hef ekki lagt neitt mat á það, hæstv. ráðherra, í ræðu minni og gerði ekki neitt óskaplega mikið úr þessum þætti málsins, ég hef ekki lagt mat á það hvort aðgerðum hafi fjölgað, hvernig fjármunirnir hafa nýst og fram eftir götunum. Heil umræða þyrfti að fara fram um það og spurning hvort öllum þeim fjármunum, sem þarna hefur verið varið, hefur verið skynsamlega varið. Ég vísa þá til þeirrar umræðu og hvort eigi að fara að verja þeim skynsamlega, eða þeirra orða minna áðan um það að mér fannst og finnst að það geti verið hættuleg braut sem ríkisstjórnin er að fara inn á með því að sameina sjúkrahúsin nema komið verði á skýrri afmarkaðri verkaskiptingu milli þessara sjúkrahúsa. Ég ítreka það. En tölurnar sem hér eru, hæstv. heilbr.- og trmrh., eru bara úr fjárlagafrv. eigin ríkisstjórnar. Ef Ríkisendurskoðun er með einhverjar allt aðrar tölur þá er eitthvað bogið við þetta.