Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 23:40:07 (2606)


[23:40]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. og reyndar fleiri þingmenn spurðu um hvort náðst hefði sátt við Samband ísl. sveitarfélaga. Það hefur náðst samningur og sátt við þá og í dag var undirrituð yfirlýsing um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélag í framhaldi af viðræðum fjármrh. og félmrh. við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga. Yfirlýsingin tekur til átaksverkefnis sveitarfélaga til að draga úr atvinnuleysi annars vegar og um Innheimtustofnun sveitarfélaga hins vegar og hana undirrita fjmrh., félmrh., formaður Sambands ísl. sveitarfélaga og framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga. Þetta er dagsett í dag þannig að full sátt er milli þessara aðila.
    Aðeins vegna þess sem hv. þm. nefndi um Ferðamálaráð og að menn hefðu ekki áhuga á ferðamálum nema á tyllidögum eða fyrir kosningar af því að þeir stæðu ekki við framlög til Ferðamálaráðs. Hvort skyldi skipta meira máli að gera eins og núv. ríkisstjórn, að búa í haginn fyrir ferðaþjónustuna eins og gert hefur verið eða þeir aurar sem hv. þm. nefndi? Hvort skyldi skipta meira máli, að gengisskráningin skuli vera rétt í fyrsta skipti í langan tíma í þágu ferðaþjónustunnar, raungengi hagstætt ferðaþjónustunni í fyrsta skipti í langan tíma, að vinnufriður hefur verið í andinu og öryggi um bókanir, að vextir hafi verið lágir, að aðstöðugjaldi hefur verið létt af? Skyldu ekki þessir þættir sem í raun þýða ekki tugir heldur hundruð milljóna fyrir ferðaiðnaðinn í landinu, jafnvel milljarða, rétt gengisskráning án kollsteypu, engin verðbólga, vinnufriður og stöðugleiki skipta meira máli heldur en þeir aurar sem hv. þm. nefndi varðandi ferðaþjónustuna? Það er meira virði að ríkisstjórn standi svona að málum en hvort einstakar tölur í fjárlagafrv., óverulegar tölur, hækki um þessar krónurnar eða hinar.