Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 23:42:09 (2607)


[23:42]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég fagna því vissulega að samkomulag skuli vera um þessar atvinnuskapandi aðgerðir sem ég tel eins og ég gat um áðan mjög vænlegan kost til að koma á og mun betra en eins og verið hefur að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur fyrst og fremst borgað fólki bætur fyrir að sitja heima. Það má reyndar segja að sú stefna, sem hefur verið tekin upp núna í fyrsta sinn að því er ég veit, og kom fram í svari félmrh. við fsp. hv. þm. Elínbjargar Magnúsdóttur, um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufólks þar sem fyrirtækjum er greitt fyrir að fólk vinni þar, sé lofsverð. Ég held að sú leið sé mjög vænleg og í rauninni ánægjulegt að hún skuli vera komin á.
    En hvað snertir ferðaþjónustuna og Ferðamálaráð get ég ómögulega snúið aftur með það að mér finnst mjög fáránleg afstaða að svelta þá mjólkurkú sem eru ferðamálin og að búa ekki betur í haginn fyrir þau. Það getur vel verið að hæstv. forsrh. telji sig og ríkisstjórnina hafa búið vel í haginn fyrir ferðaþjónustuna, það er kannski með því að leggja virðisaukaskatt á ýmsa þjónustu sem ferðamálin varða, ég veit ekki hvort það er að búa í haginn. Það er kannski með því að halda ýmsum gjöldum á þessa grein svo háum að Ísland er með dýrari ferðamannalöndum, því miður. En eftir stendur að Ferðamálaráð, þessi aflvaki ferðaþjónustunnar, er sveltur með peninga. Það stendur eftir og aldrei hefur verið rætt annað en það af hálfu ferðaþjónustuaðila en að það sé rangt að veita ekki meira fjármagn til ferðamála til þess að það ávaxti sig síðar meir í ferðamannastraumi innan lands.