Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 00:47:33 (2624)


[00:47]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það eru fyrst og fremst vegna þeirra orða sem hæstv. forsrh. lét falla um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því á laugardaginn var og taldi það mikinn misskilning að við hefðum leyft okkur að gera lítið úr sumum þáttum hennar og telja að þar væri ekki margt nýtt eða mjög merkilegt að finna í sjálfu sér og jafnvel fátt nýtt. En staðreyndin er sú, hæstv. forsrh., hér er á ferðinni mjög sérkennilegt sambland af þegar gefnum gömlum loforðum en vanefndum í mörgum tilvikum og innihaldslausu blaðri um hluti sem segir ekki neitt og þar sem ríkisstjórnin ætlar sjálf ekki að leggja nokkurn skapaðan hlut af mörkum. Þetta minnir mann helst á atvinnuátakið á Suðurnesjum sem Suðurnesjamenn áttu að borga úr eigin vasa. Ríkisstjórnin ákvað að láta 500 millj. í nýsköpun atvinnulífs á Suðurnesjum sem þeir áttu svo að borga sjálfir. Það var skínandi gott. Margt af þessu er ósköp svipað, hæstv. forsrh., t.d. um nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn. Okkur var sagt í morgun að þetta ætti að koma frá Iðnþróunarsjóði. Það ætti að gera upptækar vaxtatekjur Iðnþróunarsjóðs og láta hann standa undir einhverjum greiðslum í þessu sambandi. Það getur verið gott og blessað en það er ekki ríkisstjórn Íslands sem þar með er að leggja eitthvað af mörkum.
    Í öðru lagi t.d. það sem sagt er um greiðsluvandann í húsnæðislánakerfinu. Hvað er þar á ferðinni? Ríkisstjórnin ætlar að hóa saman aðilum til viðræðna, hún ætlar ekki að leggja neitt sjálf af mörkum. Það var upplýst í efh.- og viðskn., ekki króna úr ríkissjóði í þetta.
    Sama má segja um lækkun húshitunarkostnaðar. Upplýst var í efh.- og viðskn. í morgun, ekki króna úr ríkissjóði í þetta. Ríkisstjórninni dettur í hug að hóa í rafmagnsveiturnar og Landsvirkjun og kannski einhverjar hitaveitur og segja við þær: Viljið þið ekki lækka húshitunarkostnaðinn? Það stendur upp á okkur að efna loforð um að lækka húshitunarkostnaðinn. Við ætlum að vísu ekki að leggja neitt í það en það þarf endilega að gera eitthvað í þessu.
    Þetta eru efndirnar þegar fjórir mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu. Þá eru sett marklaus eða marklítil, skulum við segja til þess að hafa vaðið fyrir neðan okkur og taka vægt í árinni, marklítil orð á blað og þetta tölusett fínt og flott upp á 14 liði. En auðvitað er þetta ekkert sem þarna er á ferðinni. Ekki nokkur skapaður hlutur.
    Ég óttast það mjög, hæstv. forsrh., og ég spái því að það eigi eftir að koma á daginn að ein ástæðan fyrir því að menn voru varkárir í yfirlýsingum og tóku þessu jafnvel vel sumir hverjir eða voru tiltölulega jákvæðir í sínum hófsömu ummælum, t.d. forustumenn í verkalýðshreyfingunni, hafi verið vegna þess að þeir létu blekkjast, því miður. Þeir létu blekkjast t.d. af því að í þessari villandi framsetningu varðandi skattleysismörkin væri verið að boða raunlækkun tekjuskatts en svo er ekki eins og kunnugt er og mun sannast. Ég spái því að þá muni breytast tónninn í mörgum úti í þjóðfélaginu þegar þessi blekking verður afhjúpuð sem væntanlega verður á næstu dögum þegar mönnum hefur gefist tóm til að skoða þetta málverk.
    Eins er það auðvitað með þetta samkomulag við sveitarfélögin. Við þurfum ekkert að þrasa um það hér en það er alveg kostulegt að reyna að selja mönnum það sem einhvern sérstakan nýjan gleðiboðskap að ríkisstjórnin sé fallin frá því að svíkja undirritað samkomulag við sveitarfélögin og síðan er því slegið upp að í dag hafi verið undirritað samkomulag á nýjan leik um sama hlutinn. Ég spyr: Er það þá tölusett samkomulag tvö? Verður það þannig næst ef þessari ríkisstjórn vinnst tími til þess að gera enn einu sinni samkomulag við sveitarfélögin um að svíkja ekki samkomulag sem hún hafði áður gert að það verður samkomulag þrjú? Hvers konar skollaleikur er þetta? Auðvitað er þetta þannig.
    Varðandi það sem í þriðja lagi hefur verið sagt um fjármagnstekjuskattinn þá segir þessi niðurstaða allt sem segja þarf. Kjörtímabilið er liðið, hæstv. forsrh., og þetta loforð í stjórnarsáttmála er þar með að engu orðið, það kemst ekki til framkvæmda á kjörtímabilinu. Menn geta svo reynt að skjóta sér á bak við hitt og þetta, yfirlýsingar um vaxtalækkanir í nóvember 1993 eða hvað það nú er. En staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur bráðum haft hartnær fjögur ár til þess að hrinda þessu og öðru í framkvæmd sem hún setti í sinn stjórnarsáttmála og auðvitað getur hún afsakað sig með ýmsum hætti. En þetta er niðurstaðan. Nú er það boðað að í fyrsta lagi um önnur áramót þegar ný og vonandi gjörbreytt ríkisstjórn hefur setið að völdum í eina átta mánuði, kannski næstum því níu ef menn yrðu snöggir til og mynduðu ríkisstjórn 9. apríl nk., þá geti hugsanlega hillt undir það að fjármagnstekjuskattur færi að skila tekjum.
    Síðan verð ég að segja það, hæstv. forseti, að málflutningur hæstv. forsrh. áðan um hinn sérstaka

stóreignaskatt og ummælin sem hann hafði um Alþb. í því sambandi eru alveg sérstök. Hér talar sá hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á ríkisstjórn sem hefur lagt þennan skatt á í þrjú ár og kemur svo og talar um það sem mikið hneykslunarefni að einhverjir menn í ræðum spyrji sig að því: Er það endilega það brýnasta sem þarf að gera í skattamálum á Íslandi að fella hann niður? Ef þessi skattur er svona óhæfa, hæstv. forsrh., ef það er svona svívirða að leyfa sér að spyrja sig að því hvort til að mynda ríkissjóður hafi ekki einhverja þörf fyrir þessar tekjur, hvort það séu e.t.v. ekki einhverjir aðrir sem eigi meira undir högg að sækja í íslensku samfélagi í dag en þeir sem eiga hreinar nettóeignir upp á tugi milljóna króna og hafa þó a.m.k. meira en 1 milljón og jafnvel 2 í tekjur á ári, þá kemur hér hæstv. forsrh. sem hefur lagt þennan eignarskatt á, þennan ekknaskatt á í þrjú ár og talar um það sem alveg sérstaka svívirðu að hugleiða það að hafa hann kannski áfram að einhverju leyti. En það var allt og sumt sem hér kom fram í máli okkar alþýðubandalagsmanna. Auðvitað er þessi tekjuöflun í ríkissjóð okkur ekki heilög og sjálfsagt mál að ræða það hvort hún megi endurskoðast í tengslum við skattabreytingar að öðru leyti. En að tala með þessum hætti þá er kominn í menn kosningahamur, hæstv. forsrh. Ég bið hæstv. forsrh. að hugleiða það að þau hörðu orð og þær miklu skammir sem hæstv. forsrh. tekur sér í munn um ekknaskattinn hitta hæstv. forsrh. sjálfan fyrir því hann hefur borið ábyrgð á ríkisstjórn sem hefur lagt hann á í þrjú ár. Hér inn á þing hafa komið sjálfstæðismenn sem fóru í fararbroddi fyrir áróðursherferðinni gegn fyrrv. hæstv. fjmrh. sem hafa síðan lyppast niður og greitt atkvæði með ekknaskattinum. Og allt heila liðið, allur Sjálfstfl., sem fann upp þetta áróðursheiti, ekknaskatturinn, í stjórnarandstöðu þáverandi og í harðri áróðursatlögu sem gerð var að þáv. ríkisstjórn og þáv. fjmrh. hefur síðan lagt hann á í þrjú ár. Óbreyttan, eins og hann var frá hendi fyrri ríkisstjórnar. Þetta er alveg kostulegur málflutningur að koma svo hér og ætla að fara að slá keilur á því að nú eigi að afnema hann.
    Það sama, hæstv. forseti, á við um skattfrelsismörkin. Þegar hæstv. forsrh. reynir að skjóta sér bak við löngu liðna tíð og tilhögun mála í tíð fyrrv. fjmrh., fyrir næstum heilu kjörtímabili síðan, en horfir algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að ríkisstjórn Sjálfstfl., að hæstv. fjmrh. Sjálfstfl. hefur notað þá aðferð við uppreikning skattfrelsismarka í þrjú ár samfellt að þau skyldu fylgja launaþróun á tíma sem það var bersýnilega óhagstætt launafólki vegna þess að launin héldu ekki í við verðlag. Og koma svo nú og ætlast til þess að menn knékrjúpi og þakki vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að breyta þessu ekki er alveg kostulegur málflutningur og enn kostulegra að ætla sér að skýla sér á bak við störf fyrrv. fjmrh. í þeim efnum. Dæmi frá núv. fjmrh., hæstv. forsrh., er miklu nærtækara.
    Það sem ég tel ámælisverðast af öllu í sambandi við framsetningu þessara tillagna frá hendi hæstv. ríkisstjórnar er orðalagið á bls. 4 í texta yfirlýsingarinnar um hækkun skattleysismarka vegna þess að það er verið að reyna að gefa til kynna að ríkisstjórnin hafi tekið nýja og sjálfstæða ákvörðun um að persónuafsláttur skuli taka mið af fyrirhugaðri launaþróun fremur en verðlagsþróun. Þetta er orðað þannig, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að persónuafsláttur taki áfram mið af fyrirhugaðri launaþróun fremur en verðlagsþróun . . .
``

    Það er sett fram eins og ný ákvörðun hafi verið tekin. Það er t.d. ekki verið að hafa það í huga að forsendur fjárlagafrv. eru eðlilega þessar: óbreytt tilhögun. Síðan er bætt við: ,, . . .  og hækki því meira en ella hefði orðið.`` --- Þ.e. skattleysismörkin. Með því er verið að gefa í skyn að annað hafi staðið til.
    Það er ofboðslega ósvífin blekking að setja málin fram með þessum hætti. Það er vísvitandi verið að reyna að gefa það í skyn í fyrra lagi að ríkisstjórnin hafi tekið nýja sjálfstæða ákvörðun með þessari yfirlýsingu og í öðru lagi að annað hafi staðið til en að skattfrelsismörkin yrðu færð upp í samræmi við áætlaða launaþróun og það er blekking. Það er blekking að setja hlutina fram með þessum hætti. Það er vísvitandi tilraun til blekkingar. Þetta orðalag er, hæstv. forsrh., mjög ámælisvert og það var það sem ég gerði í fyrri ræðu minni í dag sérstaklega að umtalsefni og gagnrýni langharðast. Það var þessi framsetning. Vegna þess að þegar t.d. grg. fjárlagafrv. er skoðuð, og það gerðum við á fundi efh.- og viðskn. í morgun, þá er með framsetningunni þar ekkert annað boðað en það að óbreytt tilhögun verði viðhöfð, að grunnfjárhæðir varðandi álagningu skatta og bóta fylgi sömu forsendum verðlags og launaþróunar og þær hafa gert. Það er ekkert annað gefið í skyn út af fyrir sig. Framsetning fjárlagafrv. er því eftir atvikum sæmilega skýr í þessum efnum en það er framsetningin á þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er hreinar tilraunir til blekkingar.
    Það er, hæstv. forseti, mjög ámælisvert og ég óttast því miður að þær blekkingar hafi að hluta til gengið í gegn í fyrstu umfjöllun um þetta mál enda þannig að því staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að engum aðilum sem málið varðar var gefinn kostur á því að kynna sér þessa yfirlýsingu áður en fjölmiðlar fluttu af henni fréttir. Engum. Það er framkoma sem er fyrir neðan allar hellur. Auðvitað getur ríkisstjórnin hegðað sér svo sem hún vill í sínum áróðursleikjum en það er þá lágmark að það sem frá henni komi sé trúverðugt og þannig frá því gengið að það leiði menn ekki næstum að segja sjálfkrafa á villigötur í sinni umfjöllun. Auðvitað hefðu það verið mannasiðir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að senda til að mynda aðilum vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni, plaggið áður en það fór í fjölmiðla þó ekki væri nema vegna þess að þessum aðilum er ætluð aðild að málinu. Þeim á að bjóða að

tilnefna í nefnd sem vinnur að tilteknum verkefnum samkvæmt þessari yfirlýsingu. Ég kannast ekki við að það teljist góðir mannasiðir að láta þá, sem ætlunin er að fá til samstarfs af þessu tagi, frétta það í gegnum fjölmiðla að ætlunin sé að þeir eigi hlut að máli.
    Þó ekki hefði annað komið til en það að ríkisstjórnin hefur ákveðið þessa nefndarskipan, sem út af fyrir sig --- ég vil taka fram að ég tel jákvætt skref það litla sem það er og sjálfsagt að taka með jákvæðum hætti til skoðunar en þá að sama skapi hefði ríkisstjórnin ef hún hefði viljað ástunda vönduð vinnubrögð eðlilega átt að hafa samband við þessa aðila. Ég segi ekki kannski að ganga úr skugga um það fyrir fram hvort þeir vildu taka þátt í starfinu en a.m.k. aðvara þá um að þeirra yrði getið í þessu útspili ríkisstjórnarinnar. Það eitt hefðu verið einhverjir mannasiðir, hæstv. forseti. En þessi áróðursmennska og kosningahamur sem þarna er kominn í hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn segir mikla sögu um það hvernig þetta útspil er unnið og til hvers það er ætlað. Þannig er það að hæstv. ríkisstjórn hefur margnýtt flest tækifæri sem hún hefur fengið upp á síðkastið til þess að koma sér í fjölmiðla undir jákvæðu kastljósi og nýta sér slíkt í áróðursskyni.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, hef ég ekki um þetta fleiri orð. Okkur mun gefast tækifæri til að ræða einstaka þætti þessara mála efnislega að svo miklu leyti sem þeir þurfa að koma fyrir þingið en ég dreg ekki til baka ummæli mín frá því í dag um ámælisverða framsetningu þessarar ríkisstjórnar, um það að þarna er að mörgu leyti villandi hrært saman gömlum og nýjum loforðum og margt af þessu er tiltölulega innihaldslítið orðagjálfur sem í sjálfu sér segir ekki nokkurn skapaðan hlut um, því miður, alvarleg málefni úti í okkar samfélagi eins og greiðsluerfiðleika í húsnæðislánum, lækkun húshitunarkostnaðar og annað því um líkt og hreinn áróðursbragur á þeirri framsetningu og það er ámælisvert.