Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:07:47 (2627)


[01:07]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð var við það í þessari umræðu í dag hve hv. stjórnarandstæðingar taka því illa að það skuli hafa tekist samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í landinu. Ég vil enn fremur vísa því algjörlega á bug að það hafi verið reynt að svíkjast að sveitarfélögunum eins og þetta hefur verið orðað. Ég minni á að í fjárlagafrv. stendur að samstarf við sveitarfélögin um annars konar fyrirkomulag en að leggja peninga beint í Atvinnuleysistryggingasjóð kemur einnig til álita og þetta var skýrt tekið fram. Það stendur einnig skýrt í fjárlagafrv. að það eigi að leita samkomulags og það er grundvallaratriði. Það samkomulag hefur nú orðið og gengur út á það að í stað þess að leggja 600 millj. í sjóðinn verður samstarf Atvinnuleysistryggingasjóðs og sveitarfélaganna svipað áfram og hingað til. Þar fyrir utan lýsir sambandið því yfir eftir að hafa rætt þetta við sambandsstjórnina að sveitarfélögin eru hvött til þess að leggja fram fjármuni sem þeir hafa nú til ráðstöfunar umfram það sem var á yfirstandandi ári til atvinnuuppbyggingar og spara þannig fjármuni úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er samstarf, samkomulag, sem auk þess var gert um aðra hluti sem nefndir hafa verið fyrr á hinu háa Alþingi og snúa að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þannig að nú þegar niðurstaða er fengin þá held ég að hv. stjórnarandstæðingar ættu að hætta þessu tali sem er úrelt orðið og halda ekki áfram eins og grammófónsplata að halda því fram að það sé verið að svíkjast að sveitarfélögunum. Það er ekki hv. stjórnarandstæðingum samboðið að halda slíkum röngum málflutningi fram.