Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:16:01 (2631)


[01:15]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi varðandi þá umræðu sem hér hefur farið fram um samskipti ríkisstjórnar og sveitarfélaga þá veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. heyrði ræðu hæstv. forsrh. áðan en þá sagði hæstv. forsrh. nánast orðrétt á þessa leið: Ef fjárlögin hefðu gengið fram eins og fjárlagafrv. gerði ráð fyrir þá hefði samkomulagið við sveitarfélögin verið brotið að mati sveitarfélaganna.
    Ég bið hæstv. forsrh. að mótmæla ef þetta er ekki rétt haft eftir. Ég held að þetta sé nánast orðrétt haft eftir. Þetta eru öll fyrirmyndarsamskiptin sem hæstv. fjmrh. ræddi um áðan. Við munum, í það minnsta við sem vorum í efh.- og viðskn., alla umræðuna um lögguskattinn og þegar sveitarstjórnarmenn af öllu landinu voru hringjandi nótt sem nýtan dag æfir yfir framferði ríkisstjórnarinnar. Það er ekki langt síðan formaður Sambands ísl. sveitarfélaga var á fundi með þingflokki okkar framsóknarmanna og það voru ekki par falleg orð sem þar féllu um samskipti þessarar ríkisstjórnar við sveitarfélögin. Það eru því að mínu mati nánast öfugmæli að tala um að þessi samskipti hafi öll verið til mikillar fyrirmyndar.
    Varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hér er hampað sem afar merku plaggi þá langar mig að spyrja hæstv. forsrh.: Hvenær var ákvörðun tekin um að gefa út þessa yfirlýsingu og hvert var tilefnið? --- Ef hæstv. forsrh. heyrði ekki þá var spurningin: Hvenær var ákvörðun tekin um að gefa út þessa yfirlýsingu um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun og hvert var tilefnið?
    Við sem fylgdumst með í þingsölum og erum í hringiðu stjórnmálanna gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að þessi yfirlýsing er sett saman til þess að reyna að breiða yfir mikinn ágreining sem var á milli stjórnarflokkanna um framlagningu fylgifrumvarpa með fjárlögum, breiða yfir ágreining sem var þess valdandi að fimm dögum áður en þinghlé átti að vera um jól þá voru þessi frv. ekki komin fram. Það var allt tilefnið. Og vegna þessa er búið til mikið málskrúð um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Þetta mun væntanlega vera ástæðan fyrir því að ekkert af þessu var kynnt fyrir aðilum vinnumarkaðarins, hvað þá stjórnarandstöðunni.
    Það var rætt um það í fyrrahaust þegar vinnureglum var breytt í þinginu og stjórnarandstaðan tók við forustu í nokkrum nefndum að aðgerðir í efnahagsmálum og skattamálum sem ríkisstjórnin fyrirhugaði yrðu kynntar fyrir formanni efh.- og viðskn. í það minnsta jafnsnemma og fyrir fjölmiðlum. Við þetta hefur aldrei verið staðið og ég mun reyndar koma að þessum samskiptum ríkisstjórnar og Alþingis á eftir.
    En mér þætti vænt um, virðulegi forseti, ef hæstv. forsrh. svaraði spurningum mínum um tilurð þessa plaggs hér.
    Í öðru lagi langar mig til að spyrja nánar út í örfá atriði í þessari yfirlýsingu. Það er varðandi nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn. Hæstv. forsrh. segir að aðilar vinnumarkaðarins og ýmsir úti í bæ, sem ekki eru í þessu daglega pólitíska skæklatogi hafi tekið þessu vel. Það er rétt, menn tóku ákveðnum atriðum vel en ég veit ekki hvort menn áttuðu sig á hvað stóð á bak við. Varðandi t.d. nýsköpun í atvinnulífinu og markaðssókn þá ætla ég að lesa hér, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að treysta enn frekar undirstöður íslensks atvinnulífs og skapa fleiri störf mun ríkisstjórnin leggja fram frv. um nýsköpun í atvinnulífinu. Með því verður greitt fyrir vöruþróun og markaðssókn erlendis, m.a. á EES-svæðinu. Aðgerðir þessar munu ná til allra atvinnugreina.``
    Þarna er ansi mikið sagt. Þetta er það sem aðilar vinnumarkaðarins sáu. En hvað stendur á bak við þetta? Á bak við þetta stendur það þegar eftir er gengið að höfuðstóll Iðnþróunarsjóðs, þegar við eignumst hann að fullu, verði notaður til nýsköpunar og það er góðra gjalda vert. Þetta lögðum við framsóknarmenn m.a. til á okkar flokksþingi. En við bentum á að það þyrfti miklu meira til ef það ætti að vera eitthvað alvöruátak til nýsköpunar því hvað gefur þetta í tekjur? Þetta gefur rúmar 100 millj. á ári í tekjur. Þessar 100 millj. eiga að duga fyrir nýsköpun í öllum atvinnugreinum samkvæmt yfirlýsingunni. Þetta á að duga fyrir nýsköpun og markaðssókn erlendis í öllum atvinnugreinum. Og sér nú hver maður hvað verður til skiptanna.
    Í öðru lagi segir, með leyfi forseta: ,,Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið sérstakar aðgerðir til þess að auka erlendar fjárfestingar hér á landi.``
    Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvað hefur ríkisstjórnin ákveðið hérna? Hvaða aðgerðir eru það?
    Við eigum heimtingu á því og þeir sem þetta snertir að vita hvað stendur á bak við þetta. Ég hef gengið eftir því á Alþingi í vetur við ráðherra ríkisstjórnarinnar hvort ekki stæði til að fara á þessu þingi ofan í lögin um erlenda fjárfestingu. Undir það tók hæstv. viðskrh. og sagði að það væru í gangi viðræður innan ríkisstjórnarinnar, milli hans og hæstv. sjútvrh., um breytingar þar á. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er komin einhver niðurstaða úr þeim viðræðum og er það það sem verið er að boða hér?
    Ef þessi yfirlýsing er jafngóð og hæstv. forsrh. segir þá eigum við heimtingu á að vita hvað stendur á bak við þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gera breytingar á lögum um erlenda fjárfestingu. Eins og þau eru í dag en búið að opna fjármagnsmarkaðinn að fullu milli landa þá erum við í ákveðnum vanda og í raun miklu verri stöðu en við værum ef við fyndum nýja markalínu varðandi fjárfestingu í sjávarútvegi. En ég hef ekkert séð frá hæstv. ríkisstjórn um þetta og geng þess vegna eftir því hvað stendur á bak við þetta.
    Svona getum við tekið hvern og einn punktinn og farið ofan í hann. Við eigum kröfu á því að fá skýringar á því hvað stendur á bak við þessa þætti.
    Ég ætla ekki að fara mikið ofan í fjórða liðinn um örvun fjárfestinga en ég benti á í dag að helmingurinn af því sem þar er lagt til er að taka til baka breytingu ríkisstjórnarinnar frá því fyrir tveimur árum sem við fulltrúar Framsfl. í efh.- og viðskn. vöruðum stórlega við.
    Virðulegur forseti. Síðan ætla ég að fara örfáum orðum við hæstv. forsrh. um vinnubrögð í þessu máli og samskipti við Alþingi. --- Virðulegur forseti. Nú eru hæstv. ráðherrar á einkafundi þannig að ég doka við. ( Gripið fram í: Við heyrum vel.) Þeir segjast heyra vel. Ég ætla að fara aðeins yfir vinnubrögð og samskipti framkvæmdarvaldsins við Alþingi. Ég hef gert það margsinnis á þessu kjörtímabili og get vitnað til þingtíðinda hvað það snertir. Ég minni á í þessu sambandi að hæstv. forsrh. hafði mörg orð í upphafi kjörtímabilsins um vinnubrögð á Alþingi sem hæstv. ráðherra fundust ekki til fyrirmyndar. Ég get út af fyrir sig tekið undir það að mörgu mátti breyta varðandi vinnubrögð Alþingis. --- Virðulegur forseti. Ég vil gefa hæstv. ráðherrum tækifæri til þess að ljúka fundi sínum. Hæstv. ráðherrar segja að þeir heyri þetta allt saman en ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að það er afar hvimleitt að beina orðum til manna sem sýna þeim sem við þá ræða ekki meiri virðingu en svo að standa í samtölum í hliðarsölum. ( Forsrh.: Ég hef verið innanhúss í dag, hv. þm. Ég hef varla brugðið mér frá.) Hæstv. ráðherra segist varla hafa brugðið sér frá, það kann rétt að vera.
    En ég ætla að rifja það upp aftur sem ég byrjaði á að hæstv. forsrh. hafði mörg og stór orð um vinnubrögð á Alþingi þegar hann kom hér fyrst inn. Ég sagði að ég gæti á margan hátt tekið undir það. Ég tel reyndar að Alþingi hafi mjög tekið sig á á þessu kjörtímabili og hefur náðst samkomulag m.a. um nýja skipan á nefndarstörfum þingsins. Því sem hefur hrakað á þessu kjörtímabili er framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi.
    Ég er ekki mjög þingreyndur maður en þetta er þó fimmta haustþingið sem ég sit og á þeim tíma hefur það aldrei gerst áður að fylgifrv. fjárlaga komi eins seint fram. Það hefur aldrei gerst áður --- hæstv. forsrh. hristir höfuðið. Það hefur aldrei gerst á þessum tíma að það hafi verið einungis þremur dögum, því skattafrv. kemur ekki fram fyrr en á morgun, (Gripið fram í.) áður en þing átti að fara heim sem frv. kemur fram. Ég hygg, hæstv. ráðherra, að ekki séu til verri dæmi þau ár sem ég er að nefna. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru ekki sæmandi. Þetta er þvílík vanvirða við Alþingi. Því miður eru allt of fáir hér sem standa upp og mótmæla þessu. Kannski vegna þess hve framkvæmdarvaldið er dómínerandi í Alþingi. Það er ekki hægt að ætla þingmönnum sem vilja vinna samviskusamlega og ætla nefndum sem hafa sýnt það að þær vilja leggja vönduð vinnubrögð í mál að vinna með þessum hætti. Ég hefði gaman af því að þeir hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir í dag skýri okkur frá því hvers vegna þetta þarf að vera eins og þetta er núna því nú segja hæstv. ráðherrar, og það er væntanlega rétt, að þau frv. sem eiga eftir að koma fram þau séu ekkert mjög flókin. Það sé ekkert um að ræða mjög miklar breytingar. Þess vegna verður það enn óskiljanlegra hvernig stendur á því að stöðugt þarf að síga í þetta horf. Vegna þess, virðulegur forseti, að við vitum það og við höfum um það mýmörg dæmi og þurfum ekki að leita nema til þessa

kjörtímabils að þau vinnubrögð að mál koma svona seint fram, að stjórnarflokkar eru að semja um framgang mála á tveim, þrem síðustu dögum þings, gerir það að verkum að Alþingi verður stöðugt á handvömm í vinnubrögðum. Það gerðist síðast á síðasta vorþingi þar sem stjórnarflokkar voru að semja um til að mynda lyfjalögin á síðasta degi þings. Þau vinnubrögð gerðu það að verkum að ríkisstjórnin þurfti að setja bráðabirgðalög á miðju sumri til þess að bjarga klúðrinu.
    Þetta mun gerast áfram. Á þessu verður engin breyting fyrr en framkvæmdarvaldið fer að sýna Alþingi eilítið meiri virðingu og gefa Alþingi tækifæri til þess að vinna sína vinnu. Að það haldi ekki áfram að frv. sé fleygt inn og Alþingi sé ætlað að setja stimpilinn á einum eða tveimur dögum.
    Þetta held ég að hæstv. forsrh. ætti að hugleiða í samhengi við þá hörðu gagnrýni sem hæstv. ráðherra fékk á Alþingi á fyrsta þingi þessa kjörtímabils. Og eins og ég sagði var heilmikið til í þeirri gagnrýni og hæstv. forsrh. hugleiði hvor aðilinn það var sem hefur tekið sig á, Alþingi eða ríkisstjórn.