Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 01:48:44 (2637)


[01:48]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil koma nokkrum orðum einmitt að því sem hv. 3. þm. Vesturl. var að ræða áðan. Það er í sambandi við þessa ótrúlega ómerkilegu yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hún er svo uppfull af blekkingum og hálfsannleik að það er satt að segja engu líkt auk þess sem hún er illa skrifuð. Það væri fróðlegt að vita hver á höfundarétt að þessum texta.
    En ég ætla aðeins að víkja að tölulið 13 sem heitir Lækkun húshitunarkostnaðar og sem hv. síðasti ræðumaður var aðeins að tala um. Hverju stöndum við frammi fyrir í þeim efnum? Við stöndum í fyrsta lagi frammi fyrir þessum texta: ,, . . .   mun hefja viðræður við orkusölufyrirtækin með það fyrir augum að efna til samstarfs um að lækka húshitunarkostnað á dýrustu svæðunum umfram það sem þegar hefur verið gert af hálfu stjórnvalda með niðurgreiðslum og yfirtöku skulda orkufyrirtækja.``
    Hvað er hæstv. fjmrh. að segja hérna? Hann er að segja að það sé hægt að gera ráð fyrir því --- ég ætla að hinkra, hæstv. forseti, aðeins eftir ráðherranum.
    Hæstv. ráðherra er að segja með þessum texta að hægt sé að gera ráð fyrir því að orkusölufyrirtækin, eins og Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, geti af eigin rammleik án sérstakra aðgerða umfram það sem þegar hefur verið gert stuðlað að enn frekari lækkun húshitunarkostnaðar.
    Hvernig ætli staða þeirra mála sé í dag að því er varðar þessi fyrirtæki? Hún er t.d. þannig að því er varðar Rafmagnsveitur ríkisins að þar er um mjög alvarleg vandamál að ræða í rekstri fyrirtækisins sem hefur verið fjallað um í marga mánuði á vegum nefndar sem fjmrh. á fulltrúa í. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Er þessi nefnd búin að skila af sér? Hefur hún kannski fundið einhverjar matarholur, nefndin sem var að fjalla sérstaklega um rekstrarvanda Rafmagnsveitna ríkisins? Og það að fjmrh. tekur þátt í starfsemi þessarar nefndar staðfestir það að hann viðurkennir þennan vanda. Hann segir í grg. fjárlagafrv., með leyfi forseta, á bls. 364:
    ,,Iðnrh. hefur skipað fulltrúa iðn.- og viðskrn., fjmrn. og Rafmagnsveitna ríkisins í nefnd til þess að fara yfir málefni fyrirtækisins [þ.e. Rarik]. Umfangsmikil verkefni við endurnýjun rafdreifikerfis í sveitum eru fyrirliggjandi á næstu árum. Er því verkefni nefndarinnar að endurskoða umræddan samning í samræmi við stefnumótun um arðgreiðslu fyrirtækisins. Þess er vænst að niðurstöður nefndarinnar fáist fyrir afgreiðslu fjárlaga á Alþingi.``
    Við leituðum eftir því í hv. iðnn. að fá þessa niðurstöðu. Hún var ekki komin þá. Er hún komin núna? Er kannski á vísan að róa varðandi það nál. í þeim texta sem birtist í tölulið 13 í yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar eða hvað er þar verið að tala um?
    Staðreyndin er sú að það hefur verið staðið aldeilis ótrúlega að málum að því er varðar Rafmagnsveitur ríkisins. Fyrirtækinu hefur verið ætlað að greiða og standa undir sérstakri framlegðarhlutdeild upp á verulega fjármuni og auk þess er fyrirtækinu gert að borga arð í ríkissjóð upp á marga tugi milljóna króna. Í fjárlagafrv. sýnist mér að arðgreiðslan í ríkissjóð sé um 100 millj. Hún hækkar í 100 millj. en er í fjárlögum 1994 áætluð 50 millj. kr. Það er sem sagt verið að vinda þetta fyrirtæki og forráðamenn fyrirtækisins báru sig satt að segja afar illa þegar þeir komu á fund hv. iðnn.
    Þetta vekur athygli á því að Rafmagnsveitur ríkisins búa við allt annan og að mörgu leyti þrengri kost að því er þetta varðar en t.d. Orkubú Vestfjarða sem er fyrirtæki sem er einnig að framleiða raforku til húshitunar. Það sama er að segja um ýmis önnur fyrirtæki. Ég nefni í því sambandi alveg sérstaklega Hitaveitu Suðureyrar og hvernig á þeim málum hefur verið tekið af hálfu fjmrn.

    Þegar þessi mál eru skoðuð í heild þá er útilokað annað en að draga þá ályktun fyrir þann sem eitthvað þekkir til að þetta sé blekking. Þetta orðalag hér er blekking og það er vísvitandi blekking. Þetta er orðalag sem er sett á blað til að hafa eitthvað um húshitun, eins og það heitir. Af því að menn eru að fara í kosningar, m.a. er hæstv. iðnrh. að fara í kosningar vestur á fjörðum og þarf að geta sýnt eitthvað í yfirlýsingum af þessu tagi. En það er engin alvara á bak við málið. Það er grafalvarlegur hlutur að gera vísvitandi tilraunir til þess að blekkja fólk eins og hæstv. ráðherrar eru að gera í þessari yfirlýsingu að því er þetta atriði varðar.
    Ég óska sem sagt eftir því og tek undir þær óskir sem fram komu hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því nákvæmlega við hverju fólk má búast að því er varðar lið 13 í yfirlýsingunni og geri líka grein fyrir því hvar nefndarvinnan stendur. Er nefndin að skila áliti, nefndin sem er með fulltrúum frá fjmrn., iðnrn. og viðskrn.?
    Síðan er það þannig með þessa yfirlýsingu að öðru leyti að hún er náttúrlega alveg ótrúleg, hæstv. forseti. Alveg ótrúleg. Niðurlæging Alþfl. í þessu skjali er svo svakaleg að það er ekki skrýtið þó að þeir hafi ekki látið sjá sig hér í allt heila kvöld. Það hefur enginn krati sést í þinghúsinu í allt kvöld og það er kannski fyrirboði þess sem koma skal eftir næstu kosningar.
    En veruleikinn er sá að það er svoleiðis snúið upp á handlegginn á Alþfl., svo að segja í hverju einasta máli, svo að segja hverri einustu línu í þessu plaggi, að það er alveg ótrúlegt. Ég hygg að sjaldan hafi einn flokkur verið niðurlægður eins ofboðslega í yfirlýsingu eins og Alþfl. einmitt í þessu plaggi enda reyndu menn sem höfðu áhyggjur af stöðu Alþfl. að leka því í DV og einhverja aðra fjölmiðla að Alþfl. hefði hótað slíta ríkisstjórninni. Og helst að rjúfa þing og efna til kosninga. Þetta lið sem ekkert getur og er á fjórum fótum með 4% atkvæða í skoðanakönnunum. Það er alveg ótrúlegt hugmyndaflug að láta sér detta í hug að það hrikti í stjórninni út af þessum flokki sem er guðs feginn hverjum ráðherrastól sem hann getur hangið á.
    Í fyrsta lagi er ríkisstjórnin með átak í vegamálum. Þetta er í þriðja sinn sem það er selt. Í þriðja sinn sem það á að selja verkalýðshreyfingunni í landinu. Hér er alveg ótrúlega að hlutunum staðið vegna þess að þetta hefur lengi legið fyrir og það eru engin tíðindi í þessu af neinu tagi. Hérna er verið að reyna að skreyta sig með margnota fjöðrum og það er mjög athyglisvert hvernig að þeim málum er staðið.
    Í öðru lagi er yfirlýsing um samstarf í sveitarfélögum um atvinnuskapandi aðgerðir þar sem hv. stjórnarandstæðingar hafa tætt af hæstv. fjmrh. svo að segja hverja spjör í þessu máli. Auðvitað lá það alveg fyrir að hann ætlaði að svíkja, krosssvíkja sveitarfélögin en hann komst ekki upp með það. Það er bara sá veruleiki sem hann stendur frammi fyrir að bæði var um að ræða ásetningssynd og hugrenningarsynd þó hann reyni að þvo hvort tveggja af sér núna með litlum árangri og er alveg hróplegt að sjá hvernig hæstv. fjmrh. hefur komið fram við flokksbróður sinn, formann Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálm Vilhjálmsson. Það er dálítið umhugsunarefni fyrir sveitarfélögin í landinu að vera með fjmrh. í samskiptum sem kemur svona fram við forustu Sambands ísl. sveitarfélaga. Spurningin er um það líka hvort það er gott fyrir Samband ísl. sveitarfélaga að vera með forustumenn úr Sjálfstfl. við þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem hæstv. fjmrh. og varaformaður Sjálfstfl. lítillækkar með þeim hætti sem hann hefur gert við Vilhjálm Vilhjálmsson aftur og aftur á undanförnum vikum og mánuðum.
    Þetta er auðvitað svo dæmalaust og koma svo fram í fjölmiðlana og hrósa sér af því að það sé mikið afrek að hafa hætt við að svíkja sveitarfélögin og halda um sjálfa sig langar hólræður úr þessum virðulega ræðustól af því tilefni er alveg kostulegt og getur náttúrlega enginn nema þeir menn sem eru komnir í verulega kastþröng eins og núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Í þriðja lagi er það svo nýsköpunin í atvinnulífinu. Hvað sagði hæstv. forsrh. áðan? Jú, hann sagði að það væri ákveðið að nota þessa peninga í þágu iðnaðarins. En ekki í hvað? Var það kannski eins og með sveitarfélögin? Stóð til að svíkja þessa peninga Iðnþróunarsjóðs af iðnaðinum? Var það meiningin eða hvað? Stóð það til að þjóðnýta peninga iðnaðarins úr Iðnþróunarsjóði? Var það ætlunin hjá hæstv. fjmrh.? Orð hæstv. forsrh. komu einmitt upp um það, þeir ætluðu að hirða þessa peninga í ríkissjóð. Þessa peninga Iðnþróunarsjóðs átti að nota í ríkissjóð eða þá að henda þeim í Landsbankann. Það átti með öðrum orðum og menn voru að velta því fyrir sér af fullri alvöru að taka þessa peninga af iðnaðinum. Enda sagði hæstv. forsrh. hróðugur áðan: Það var ákveðið að setja þetta í þessi verkefni. Með öðrum orðum var ákveðið að hirða peningana ekki af iðnaðinum. Það var ákveðið að svíkja ekki sveitarfélögin og það var ákveðið að svíkja ekki iðnaðinn heldur og ákveðið að stela ekki þessum peningum af iðnaðinum.
    Ég spyr líka: Hvaða sérstakar aðgerðir til þess að auka erlendar fjárfestingar hér á landi eru það sem ríkisstjórnin er með? Ég hef ekki orðið var við það. Er það sinkið? ( JÁ: Það fæst ekkert svar við því.) Er það sinkið kannski sem landbrh. er með sem aukabúgrein af því að hann hefur yfirtekið hluta af iðnrn.? Er það sinkið? Um hvað eru menn að tala?
    Síðan kemur þessi yfirlýsing um örvun fjárfestingar. Þannig munu fjárfestingarfyrirtæki á árunum 1994 og 1995 njóta sérstakra flýtifyrninga til skatts. Þetta mál er ekki merkilegt satt að segja fyrir hæstv. ríkisstjórn og ráðherra Sjálfstfl. vegna þess að þeir voru búnir að þrengja möguleika almennings til að fjárfesta í fyrirtækjum í landinu með því að skera niður tiltekin fríðindi sem menn hafa notið um skeið í þeim efnum. Það var alveg ljóst að Sjálfstfl. gat ekki komist í gegnum kosningarnar öðruvísi en að snúa þessu við. Hann var búinn að rispa svo ásjónu Sjálfstfl. að því er þetta varðar sem aðalflokk atvinnurekenda í

landinu, sem þeir þykjast vera, að hann neyddist til að setja þetta út og það er ekkert afrek. Hann er bara að borga með sér smáupphæð úr ríkissjóði til þess að sleppa fyrir horn fyrir næstu kosningar. Þetta er allt afrekið og engin tíðindi að hann hefði þurft að henda þessu inn í fjárlagafrv. hvort eð var.
    Í fimmta lagi er svo styrkari fjárhagur heilbrigðisstofnana. Jesús minn, hæstv. forseti. Ja, þvílíkt. Þvílíkur liður í þessu átaki, samkomulag um sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á stöðugt bætta heilbrigðisþjónustu, með leyfi forseta: ,,með því að gera stærstu sjúkrahúsunum kleift að nýta sér sem best þær miklu framfarir sem átt hafa sér stað á sviði læknavísinda að undanförnu.`` Ja, hérna, þeir eru miklir vísindamenn í ríkisstjórninni. Það verð ég að segja, með leyfi forseta. Það er auðvitað ótrúlegt að svona lagað skuli koma frá nokkurri ríkisstjórn vegna þess að er ekkert verið að segja annað en að ríkisstjórnin ætlar að halda því áfram að leggja inn í sjúkrahúsin þá peninga sem hún neyddist til að viðurkenna að hún yrði að gera samkvæmt fjáraukalögunum sem nú er verið að fjalla um. Hún hlaut að gera það þannig að þetta er alveg á sama hátt og næsti töluliður á undan texti sem er bara settur fram vegna þess að menn eiga engra annarra kosta völ. Verið er að reyna að búa hlutina í orð með þessum ótrúlega sérkennilega hætti.
    Svo er samstaðan um skattlagningu fjármagnstekna. Það er botnlaus niðurlæging Alþfl. Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort mætti hugsa sér að sett verði aukaákvæði í lögin um dýravernd um það hvernig verst megi fara með krata. Satt að segja er ekki hægt að fara svona með nokkra menn. Þeir eru búnir að belgja sig út um það, hv. kratar, þingmenn Alþfl., að nú þurfi endilega að leggja á fjármagnstekjuskatt og allt það, halda um það fundi, skrifa leiðara og guð veit hvað um þessi mál. Hver er niðurstaðan? Hún er sú að málið er sett í nefnd fram yfir næstu kosningar og allt er þetta útbúið í svona ótrúlegt orðskrúð: ,,Ríkisstjórnin telur því nauðsynlegt að sem víðtækust samstaða geti tekist um lagasetningu skattlagningar fjármagnstekna og hefur í því skyni ákveðið að bjóða þingflokkum og aðilum vinnumarkaðarins að tilnefna fulltrúa í nefnd til að semja frumvarp um fjármagnstekjuskatt.`` Mikið er þetta göfugt lið að bjóða upp á þessi stórkostlegu tíðindi. Mega bara fara í nefnd. Það er alveg ótrúlegt, satt að segja, að ráðherrarnir skuli láta sjá sig undir umræðum af þessu tagi vegna þess að þetta er svo dæmalaust ósvífið, ómerkilegt og uppfullt af blekkingartilraunum og þær eru allar vísvitandi. Það er ekki þannig að þetta sé óvart. ( Gripið fram í: Það tók fjögur ár að finna þetta út.) Og tók fjögur ár að finna þetta út, þó efast ég um að það sé að öllu leyti rétt því að það hefur sennilega tekið um fimm tíma að skrifa þetta og því hefur ekki enn þá verið svarað: Af hverju var þetta skrifað? Hvaða nauðsyn bar til að setja þetta á blað? Fróðlegt væri að fá um það einhverjar upplýsingar. Síðan kemur þetta með ekknaskattinn. Það er alveg dæmalaust. Það er eins og skrifað upp úr kosningavélum Sjálfstfl., bara sett á blað til þess að bera salt í sár Alþfl., líka á þessu sviði. Auðvitað lagði Alþfl. þennan skatt á með okkur hér forðum, alveg prýðilegan skatt miðað við allar aðstæður. Auðvitað verða menn að skattleggja eitthvað í landinu til þess að standa undir samneyslunni og skila ekki ríkissjóði með tuga milljarða halla eins og þessi hæstv. fjmrh. hefur gert því að hann hefur aukið skuldir ríkissjóðs sennilega um 40--50 milljarða kr. í sinni tíð. Það er því von að hann sé rausnarlegur þegar kemur að því að breyta skattalögum. En auðvitað er þetta fyrst og fremst til þess að kvelja Alþfl. en um leið að búa til smáflögg fyrir Sjálfstfl. út af stöðunni, alveg sérstaklega í Reykjavík.
    Svo kemur afnám tvísköttunar lífeyrisgreiðslna. Hvar er það frv.? Hvernig á að gera þetta? Á að taka þetta með staðgreiðslu? Hvernig verður þetta unnið? Ég óska eftir upplýsingum um það. Ég hygg að tæknilegar upplýsingar um það hvernig þessu verði fyrir komið hafi ekki komið fram og ég verð að segja að ég fagna þessu að mörgu leyti. Sérstaklega fagna ég því að menn eru hættir að vera eins heilagir í sambandi við þetta staðgreiðslukerfi og þeir hafa verið. Það er fagnaðarefni að fjmrn. og fjmrh. og embættismennirnir þar skuli loksins hafa verið sveigðir eilítið af leið í sambandi við þetta staðgreiðslubindindi sem þeir hafa verið í á undanförnum árum og hefur staðið í framförum á Íslandi m.a. í atvinnulífinu fyrir þrifum af því að menn hafa ekki þorað að veita neina skattaafslætti út af nokkru hlut. Hér er tillaga um að skjóta eitt stærsta gat sem skotið hefur verið á staðgreiðslukerfið og það er fínt. Ég er feginn því að menn eru tilbúnir til þess að endurmeta þessa hluti.
    Svo er smápartur fyrir Alþfl., 9. liður, sérstakur hátekjuskattur framlengdur. Hann er þó lækkaður um 25% og það eru vesalingarnir sem þarf alveg sérstaklega að passa í þjóðfélaginu. Það er fólkið, sem er með 450 þús. kr. í tekjur. Það þarf að passa alveg sérstaklega upp á það og ríkisstjórnin auðvitað stendur þá vakt og Alþfl., Jafnaðarmannaflokkur Íslands, hangir aftan í af því að hann verður auðvitað að hugsa um stólana sína af því að hann flýtur ekki á neinu lengur öðru. Hann á enga fleytu aðra en fjóra ráðherrastóla. Svo ætlar ríkisstjórnin að berjast á móti skattsvikum. Það er nefnilega það. Það er ástæða til þess, hæstv. forseti, af því að aðeins er liðið á nóttu að óska ríkisstjórninni alveg sérstaklega til hamingju með það að hún hefur ákveðið að berjast gegn skattsvikum. Eins og ég sagði fyrr í dag þegar ég heyrði þessa yfirlýsingu fyrst hélt ég að ég væri að hlusta á ályktun frá einhverjum stjórnmálaflokki sem væri með almenna yfirlýsingu um að það þyrfti að vera á móti skattsvikum. En nei, það reyndist vera ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að berjast á móti skattsvikum og er tími til kominn að hún gefi yfirlýsingu um það.
    Þetta með skattleysismörkin hafa menn auðvitað tætt í sig vegna þess að í ljós hefur komið að þar er ekki um neina eiginlega breytingu að ræða, enga. Það kerfi á að vera óbreytt frá því sem verið hefur þó svo að reynt sé að gefa í skyn að verið sé að breyta því hér. Það er náttúrlega eins og hv. þm. Alþb.

hafa fyrr rakið einhver ósvífnasta blekkingin í skjalinu.
    Síðan ætlar ríkisstjórnin í tólfta lagi að efna til samstarfs um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Þar eru mjög alvarlegir hlutir vegna þess að þar er greinilega ákveðið að fresta a.m.k. fram yfir kosningar eða næsta fjárlagaár hugmyndum um að setja lög um greiðsluerfiðleika og greiðsluaðlögun lántakenda. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Þýðir yfirlýsingin það að því máli sé algerlega slegið á frest? Hér stendur: ,,Gerð verður sérstök úttekt á greiðsluvanda heimilanna hjá lánastofnunum vegna húsnæðisöflunar og verður hún grundvöllur frekari ákvarðana.`` Ég skil þetta svo að menn ætli að fara í einhvern úttektarleiðangur og búið sé að slá á frest tillögum sem liggja fyrir í félmrn. um lög um greiðsluvanda heimilanna og greiðsluaðlögun.
    Að lokum, hæstv. forseti, tilkynnir ríkisstjórnin í þessari yfirlýsingu að hún ætli að hafa aðhald í ríkisfjármálum. Það er ekki seinna vænna, eftir 50 milljarða sem hæstv. núv. fjmrh. hefur hækkað skuldir þjóðarinnar um, þ.e. ríkisins eða A-hluta ríkissjóðs. Til hamingju, hæstv. ráðherra.