Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 02:08:45 (2638)


[02:08]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki er hægt að koma við mörgum atriðum en þó er ástæða að segja frá því að nefnd, sem hefur starfað á vegum iðnrn. um málefni Rarik, hefur þegar starfað með þeim hætti að niðurstaða mun væntanleg um þetta leyti eins og kom fram í máli hv. þm. Ég get ekki skýrt frá því hvernig hún er en ég tel að hægt sé fyrir hv. nefnd að ganga eftir þeirri niðurstöðu um það leyti sem líður að 3. umr. fjárlaga.
    Eins var spurt beinlínis um greiðsluvanda og greiðsluaðlögun almennings eða fjölskyldna í landinu. Í yfirlýsingunni er einungis tekið fram eins og hv. þm. gat um að ákvörðun verður tekin þegar niðurstaða liggur fyrir úr þeirri úttekt sem þar er minnst á en þar er auðvitað verið fyrst og fremst að hugsa um húsbyggjendur. Starf hefur farið fram á vegum beggja ráðuneytanna, fjármála og félagsmála, um greiðsluaðlögun og því starfi er að sjálfsögðu haldið áfram en ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða í því máli þótt talsverð vinna hafi farið fram um það á vegum félmrn. á sínum tíma.
    Ég taldi, virðulegi forseti, fulla ástæðu til þess að þetta kæmi fram í andsvari við ræðu hv. þm.