Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 17:12:55 (2646)


[17:12]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Fjárlagafrv. er að venju það frv. sem lýsir best stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og áformum hennar jafnframt sem í umræðu um það átta menn sig á því að ekki hefur kannski allt gengið eins og skyldi frá því á árinu á undan, samkvæmt þeim áformum sem menn lögð í umræðunni næst á undan og bera saman reynsluna og frv. og leiða líkur að því hvernig til muni takast.
    Ég vil fyrst víkja að fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart ríkissjóði og rifja upp þau áform sem núv. stjórnarflokkar höfðu í þessum efnum og þá sérstaklega Sjálfstfl. Ég tel rétt að gera það þar sem hér er um að ræða síðasta fjárlagafrv. sem þessi ríkisstjórn mun flytja á Alþingi. Væntanlega mun hún ekki fá endurnýjað umboð til þess að halda áfram á sömu braut, eins og hún hefur nú skilað af sér gagnvart skattgreiðendum í landinu og ég mun víkja að síðar í ræðu minni.
    Við skulum rifja upp hvernig að þessum málum var komið í upphafi kjörtímabilsins og í kosningabaráttunni. Sá flokkur sem hefur forustu með höndum í þessari ríkisstjórn, Sjálfstfl., lagði mikla áherslu á að gagnrýna þáv. ríkisstjórn og sérstaklega fjmrh. og gera hlut þeirrar ríkisstjórnar sem verstan og reyna með miklu málæði og áróðri að telja landsmönnum trú um að mönnum hefði tekist illa til í þeirri ríkisstjórn og skilað af sér slæmu búi til þeirrar ríkisstjórnar sem síðan tók við.
    Ég vil rifja upp að í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. var einmitt vikið mjög að því og fyrrv. ráðherrum sendur tónninn með óvenjulegum hætti. Satt best að segja þá hef ég ekki séð svona hrokagikkslegan málflutning í stjórnmálum og var þá einkenni Sjálfstfl. og nægir að minna á það sem stendur í kosningayfirlýsingu Sjálfstfl. frá þeim tíma og hv. þm. Egill Jónsson man glöggt en þar stendur t.d., með leyfi forseta, í palladómi flokksins um fyrri ríkisstjórn: ,,Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar hefur siðgæði í stjórnmálum versnað. Sjálfbirgingsháttur og innantómar yfirlýsingar ráðherra í tíma og ótíma setja æ sterkari svip á þjóðmálaumræðuna.``
    Menn þurfa ekki að fara lengra aftur en til umræðunnar í gærkvöldi þegar verið var að afhjúpa yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar til að sjá að þessi lýsing á fyrst og fremst við þá sem settu hana fram. ( Gripið fram í: Var það ekki mannúð og mildi?) Já, mannúð og mildi var bara fyrir kosningar. Það hefur lítið farið fyrir þeim einkunnarorðum Sjálfstfl. eftir konsingar. Hvorki mannúðin né mildin hafa fengið stórt pláss í stefnu stjórnarinnar né ræðum talsmanna hennar. ( Gripið fram í: Það má breyta því.) Það er nokkuð seint að breyta því, hv. þm., á síðustu dögum kjörtímabilsins. En það er ljóst að stjórnarliðar gera sér grein fyrir því að staðan er erfið og það er nauðsyn á því að reyna að auka álit sitt gagnvart kjósendum og því grípa þeir til þess að setja fram með ólíkindum ómerkilegar yfirlýsingar eins og var verið að afhjúpa hér í gærkvöldi í umræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Því nefni ég þetta dæmi um umræðurnar í gærkvöldi og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það sannast á ríkisstjórninni að sú einkunn sem hún gaf öðrum hæfir fyrst og fremst henni sjálfri. Því miður verð ég að segja að ég held að engin dæmi séu um að menn hafi gerst svo ósvífnir eins og núv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar þar sem þeir reyna að blekkja fólkið æ ofan í æ með framsetningu mála, t.d. varðandi skattleysismörkin eða þá að menn reyna ítrekað að telja fólki trú um að þeir séu að standa fyrir átaki í þörfum málum eins og vegamálum með því að veifa alltaf sömu krónunni, draga hana svo til baka þegar frá líður og veifa henni svo aftur þegar menn eru farnir að gleyma yfirlýsingunum sem fram voru settar. ( Gripið fram í: Það er nokkuð til í þessu.) Það er nokkuð til í þessu. Já, ég veit að hv. stjórnarþingmenn viðurkenna að það er nokkuð til í þessu. Við getum rifjað t.d. upp vegamálin. Nú kemur ríkisstjórnin fram og segir eins og stendur í yfirlýsingunni, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur samþykkt að verja 3,5 milljörðum kr. til öflugs átaks í vegamálum á næstu fjórum árum. Þar af kemur rúmlega þriðjungur, eða kr. 1.250 millj., til framkvæmda þegar á næsta ári.``
    Lítum aðeins á þetta. Ég nenni ekki að fara að gera að stórmáli textann í yfirlýsingunni en hann er mjög óvenjulegur, að segja eins og hér: ,,Ríkisstjórnin hefur samþykkt``. Ég hélt að það væri Alþingi sem samþykkti vegáætlun. En í þessum texta er það ríkisstjórnin sem ákveður hlutina og hefur tekið þá að sér. Við skulum ekki gera stórmál úr því að sinni. En þessar 1.250 millj. sem er veifað framan í fólk um átak í vegamálum á næsta ári. Er það svo mikið átak þegar grannt er skoðað? Nei, því miður, því ég vildi gjarnan að menn eyddu verulegum peningum til vegamála, meira en menn hafa treyst sér til að gera. Það kemur fram í nál. minni hlutans að ríkisstjórnin er að taka af því fé sem ætlað er til framkvæmda í vegamálum 275 millj. beint í ríkissjóð. Þar að auki eru teknar rúmlega 500 millj. af því fé sem áður fór til framkvæmda í vegamálum og það er nýtt til þess að borga hlut ríkisins í rekstri og stofnkostnaði á ferjum og flóabátum. Þar er því samtals um að ræða um 840 millj. kr. sem menn eru búnir að skerða það fjármagn sem á að renna til vegamála.
    Til viðbótar þessu þá er ríkisstjórnin að taka til baka þriðja og síðasta árið í framkvæmdaátakinu mikla í vegamálum. Það var nokkuð stór peningur sem var áformað að verja á næsta ári í það framkvæmdaátak. Mig minnir reyndar að það hafi verið um 450 millj. ( Gripið fram í: Það passar.) Það er staðfest að það sé rétt munað. Og ef ég legg þá tölu við þær 840 millj. sem ég var áður búinn að leiða fram þá erum við komnir með ríflega þá upphæð sem nú er verið að ýta að fólki og segja mönnum að sé stórkostlegt átak í vegamálum. Þegar við greinum það mál þá stendur eftir að menn eru að setja sama fjármagn í framkvæmdir í vegamálum og hefði verið gert ef menn hefðu fylgt vegáætlun fyrri ríkisstjórnar. Átakið er því ekki neitt, því miður. Menn eru búnir að skerða þessa peninga með því að taka þá í önnur verkefni eða ríkissjóð og koma síðan með viðbætur og kalla það átak en það gerir ekkert annað en rétt duga til að borga skuldirnar sem menn hafa myndað með þessum skerðingum sínum. Þetta er því einn allsherjar blekkingaleikur með vegamálin á næsta ári eins og verið er að draga fram. En því miður er það slæma í því að menn eru að breyta þeim verkefnum sem á að fara í. Ef menn hefðu ekki verið að krukka í þessa peninga eins og gert hefur verið þá hefði fénu verið varið til verkefna samkvæmt vegáætlun og samkvæmt skiptingu í henni. En menn eru núna að breyta því og setja aðrar framkvæmdir inn með annarri skiptitölu. Menn eru að taka fé sem hefði átt að fara til framkvæmda að nokkru leyti á landsbyggðinni og færa það yfir á höfuðborgarsvæðið. Það finnst mér ekki vel gert þegar samgöngur á landsbyggðinni eru að mörgu leyti svo slæmar víðast hvar eins og raun ber vitni, bæði að slitlag vantar á vegi og víða vantar vegi sem eru færir allt árið um kring. Ef menn ætla sér í framkvæmdaátak og taka fyrir einhver verkefni sem mega ekki bíða eftir að þeirra tími komi í vegáætlun þá eiga menn að gera það átak utan vegáætlunar. Menn eiga ekki að taka slík verkefni og nota þau til að riðla hefðbundinni skiptingu. Ég hlýt að mótmæla því, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin er að níðast á landsbyggðinni með þessu háttalagi sínu þó ég sé á engan hátt að mæla gegn því að ýmis verkefni á höfuðborgarsvæðinu eru þörf og menn eiga að fara í þau. Ég er enginn úrtölumaður hvað það varðar. En ég tel að menn eigi þá að efna til átaks í þeim málum og fjáröflunar til að standa undir því átaki og halda því utan við hefðbundna skiptingu vegafjár og hefðbundna vegáætlun.
    Í þessum efnum er ég verulega ósammála hæstv. ríkisstjórn eins og hún hefur vísvitandi sett fram þessi mál, núna síðast með yfirlýsingu sinni um átak í vegamálum sem birtist sl. laugardag. Menn eiga ekki, virðulegur forseti, að skrökva vísvitandi að fólki og mér finnst slæmt að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa gert sér far um að reyna að blekkja fólk, þar með talið í samgöngumálum. Það eiga menn auðvitað ekki að gera. Telji stjórnarflokkar sig þurfa að skera niður fé, sem stundum getur verið réttlætanlegt ef aðstæður eru mjög erfiðar, þá eiga menn að segja það og færa fram sín rök og reyna að sannfæra aðra um það en menn eiga ekki að grípa til blekkingaleiks eins og talsmenn hæstv. ríkisstjórnar hafa gert í þessu efni. Það grátbroslega í þessu öllu er að ríkisstjórnin er ekki að gera annað í vegamálum en að setja það fé sem annars hefði verið sett samkvæmt vegáætlun fyrri ríkisstjórnar en hún er búin að bæta á nýjum skatti. Hún er búin að hækka bensíngjaldið sérstaklega til að standa undir óbreyttri framkvæmdagetu. Þetta hafa þeir ekki sagt, talsmenn ríkisstjórnarinnar. Og það ber að minna þá á það og hvetja þá til að viðurkenna að þeir hafi lagt sérstakan skatt á bílaeigendur til að standa undir óbreyttum framkvæmdum í vegamálum. Menn verða að kannast við það þegar á það er bent. Og mér finnst það satt að segja ámælisvert að menn reyni að klæða málið í þann búning eins og gert er í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo ég nefni síðasta dæmi en alls ekki það eina.
    Virðulegur forseti. Ég var í upphafi að tala um árangur ríkisstjórnarinnar í fjármálum á sínum ferli og rifja upp hvernig Sjálfstfl. hafði uppi miklar heitstrengingar í þessu efni. Ég vil sem dæmi vitna til þess að í áðurnefndri yfirlýsingu Sjálfstfl. frá 1991 segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjármál ríkisins verði tekin nýjum tökum. Fyrsta skrefið verði að hverfa frá skattahækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar og ná jafnvægi í fjármálum ríkisins. Þensla í umsvifum ríkiskerfisins verði stöðvuð og raunverulegum sparnaði náð. Í framhaldi af því verði unnið að því að lækka skatta.``
    Nú skulum við rifja upp hvernig til hefur tekist. Hvernig hefur árangur ríkisstjórnarinnar verið mældur á afkomuna í fjárlögum? Ef menn leggja saman hallatölur fjárlaga þessarar ríkisstjórnar og ríkisreiknings þar sem hann liggur fyrir þá er halli ríkisstjórnarinnar á bilinu 35--40 milljarðar kr. eftir því hvernig menn reikna árið 1991, hversu mikið af halla þess árs menn ætla núv. ríkisstjórn. En það er ekki ósanngjarnt að ætla henni töluverðan hluta af þeim halla af því hún sat jú tvo þriðju af því ári. Þetta markmið Sjálfstfl. um jafnvægi í fjármálum ríkisins hefur þannig mistekist hrapallega. Aldrei fyrr í Íslandssögunni á lýðveldistímanum hefur ríkisstjórn mistekist jafnilla í þessum efnum. Það eru ekki dæmi um nokkra aðra ríkisstjórn sem hefur náð að safna jafnmiklum halla upp á sambærilegum tímum. Það verður því ekki annað sagt en að ríkisstjórninni hafi mistekist hrapallega í þeim efnum. Sjálfstfl. hlýtur að eiga það mál að miklu leyti því hann hefur tögl og hagldirnar í fjármálum ríkisins og fer með þau embætti í ríkisstjórninni sem mestu varða í efnahagsstjórninni þannig að árangursleysi í þessum efnum hlýtur að skrifast á hann

meira og minna. Það er nöturlegt að horfa upp á það hve einum stjórnmálaflokki geta verið mislagðar hendur í stjórnarstefnu að svona skuli nú til takast.
    Þetta var fyrsta markmiðið sem hefur fokið. Í öðru lagi geta menn nefnt tölur um skuldasöfnun hins opinbera á tímum núv. ríkisstjórnar. Það hefur áður verið rifjað upp úr þessum ræðustól. Það gildir það sama um skuldasöfnunina hjá hinu opinbera og ríkissjóði á tímum núv. ríkisstjórnar og ég gat um varðandi fjárlagahallann. Það hefur aldrei tekist á sambærilegum tíma að safna jafnmiklum skuldum og nú hefur verið gert. Núv. ríkisstjórn á Íslandsmet hvað það varðar rétt eins og hún á Íslandsmet í fjárlagahalla á sínum tíma.
    Það er alveg ljóst fyrir hæstv. ríkisstjórn, sem hefur haft mjög sterka stöðu í þinginu og getað komið nánast öllu fram sem hún hefur viljað, ekki hefur samstarfsflokkurinn verið mikið til trafala því hann hefur að því er best verður séð fylgt sömu fjárlaga- og efnahagsstefnunni, þá er þetta ömurlegur dómur yfir stefnu Sjálfstfl. í ríkisfjármálum og bætist nú við þann ömurlega dóm sem sami flokkur kvað yfir sjálfum sér meðan hann fór með forustu í ríkisstjórn næst á undan þessari, þ.e. í ríkisstjórninni 1987--1988, þegar tókst á skömmum tíma að fara svo með efnahagsmálin úr böndunum að sjávarútvegurinn var settur algerlega á hnén þar sem menn hafa verið að berjast meira og minna síðan með skuldir sem söfnuðust upp í tíð þeirrar ríkisstjórnar og að verulegu leyti vegna ákvarðana sem hún tók eins og fastgengisstefnunni, svo ég nefni það nú sérstaklega.
    Þannig er nú, virðulegi forseti, að árangur af því að láta Sjálfstfl. fara með stjórn ríkisfjármála og stjórn ríkisstjórnar er afar slæmur. Það verður ekki önnur ályktun dregin en sú að þjóðin hefur ekki efni á því að hafa Sjálfstfl. við völd. Það kostar okkur, þjóðina, of mikið að láta Sjálfstfl. valsa um í Stjórnarráðinu og því fyrr sem menn átta sig á því og koma þeim flokki út úr Stjórnarráðinu þeim mun betra verður það fyrir þjóðina hvað þau atriði varðar sérstaklega sem ég hef verið að fjalla um.
    En það getur líka verið betra fyrir þjóðina að öðru leyti og skal ég nú víkja að því. Menn meta líka ríkisstjórn út frá þeirri stefnu sem hún fylgir í skattamálum og við sjáum í þessu fjárlagafrv. mjög sterkar pólitískar áherslur, áherslur núverandi ríkisstjórnarflokka og sérstaklega Sjálfstfl. gagnvart launafólki. Við sjáum með hverjum hann stendur í þjóðfélaginu, hvort hann stendur með þeim sem hafa háar tekjur eða þeim sem hafa lágar tekjur og við sjáum það glögglega í þeim ákvörðunum sem kynnar eru í fjárlagafrv. hvort Sjálfstfl. stendur með þeim sem hafa mörg börn eða þeim sem hafa engin börn, með þeim sem eru að byggja eða kaupa húsnæði eða með þeim sem þurfa þess ekki heldur geta safnað peningum inn á bankabók. Við sjáum þetta nefnilega á mörgum sviðum og m.a. í áherslum gagnvart þeim sem eru atvinnulausir. Við skulum rifja upp nokkur atriði til þess að fólk geti glöggvað sig á þeirri pólitík sem Sjálfstfl. rekur og hefur rekið á þessu kjörtímabili með öflugum stuðningi Jafnaðarmannaflokks Íslands og nágrennis. Og við skulum rifja upp . . .  ( Gripið fram í: Er það Kolbeinsey og eitthvað svoleiðis eða hvað?) Ja, það er nú synd og skömm, virðulegi forseti, að hér skuli ekki sjást nokkur alþýðuflokksmaður í salnum en það hefði vissulega verið ánægjulegt að hafa á sem flesta í salnum ( Gripið fram í: Nei, það er það ekki.) en ég skil það vel að þeir flýi sem skjótast úr salnum þegar á að fara að rifja upp hvernig þeir hafa staðið sig í ríkisfjármálum og skattastefnu gagnvart fólkinu í landinu. ( StB: Jóhanna Sigurðardóttir.) Hér er bent á einn jafnaðarmann að eigin sögn, ( GHall: Í hjáleigunni.) en hann er nú búinn að segja sig úr þeim flokki, a.m.k. um sinn. Að vísu var það ekki vegna málefnaágreinings að sögn heldur vegna annarra ástæðna sem ég tel ekki þörf á að gera að umtalsefni í ræðu um ríkisfjármál.
    Ef við lítum á beinu skattana, og þykir mér vænt um það að oddviti Sjálfstfl. skuli halda sig í salnum til þess a.m.k. að hlýða á mál mitt og ber það vott um nokkurn kjark af hans hálfu að leyfa sér það. Lítum á beinu skattana. Hvernig hafa þeir sýnt stefnu Sjálfstfl. gagnvart almenningi í landinu, gagnvart þeim sem eiga peninga og þeim sem ekki eiga peninga? Jú, við sjáum það gleggst í nýjasta útspili ríkisstjórnarinnar um hátekjuskattinn og skattleysismörkin. Ef við skoðun hvað ríkisstjórnin ætlar að gera til að lækka skattbyrði almennra launamanna og hvað hún ætlar að gera til að lækka skattbyrði þeirra sem hafa háar tekjur, þá sjáum við að ríkisstjórnin ætlar ekki að lækka skattbyrði þeirra almennu launþega sem um er að ræða. Áform um breytingu í skattleysismörkum er ekki meira en sem nemur áformaðri launaþróun þannig að menn eiga að borga sama háa skattinn og var. Það er tilkynning Sjálfstfl. til launþega á Íslandi. En þegar kemur að þeim sem hafa háar tekjur þá tilkynnir Sjálfstfl. að hann hafi hækkað skattleysismörkin um 25 þús. kr., hann ætli að hækka skattleysismörkin um 25 þús. kr. eða um 12,5%. Og ef um hjón er að ræða, þá hækkar hann skattleysismörkin um 50 þús. kr. Það er tilkynning Sjálfstfl. til landsmanna að hann ætli að hækka skattleysismörk þeirra sem hafa háar tekjur en hann geri ekki meira en að halda í við launaþróun þegar um er að ræða almenna skattlagningu tekna. Þarna er auðvitað um að ræða pólitíska áherslu sem ber að draga fram og staðfestir og er í eðlilegu samræmi við stefnu Sjálfstfl. hingað til í þessum efnum því að hann hefur ævinlega hugsað fyrst og fremst og litið á sig sem málsvara þeirra sem hærri hafa tekjurnar þannig að það kemur svo sem ekkert mikið á óvart. En alveg sérstaklega er hækkunin á skattleysismörkum hátekjuskatts athyglisvert og annað sem er athyglisvert í þeim efnum er að hátekjuskatturinn framlengdur bara í eitt ár svo að Sjálfstfl. ætlar að sjá til þess að sá skattur verði ekki á nokkurn hátt varanlegur af hans völdum. Sjálfstfl. leggur mikla áherslu á að þjóðin átti sig á því að hátekjuskatt vill hann ekki hafa og alls ekki nema í algerri neyð og þá til afmarkaðs tíma. Hins vegar er ekki það sama að segja um hækkun skatta á almennar launatekjur.

    ( Forseti (KE): Forseti vill inna hv. ræðumann eftir því hvort hann sé að ljúka ræðu sinni eða hvort hann sé kominn þar í ræðu sinni að hann geti gert örstutt hlé því að forseti hefur hug á að leita afbrigða vegna breytingartillagna sem fram hafa komið þannig að ég vildi athuga hvort ræðumaður getur gert hlé á ræðu sinni nú eða fljótlega.)
    Já, virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að reyna að klára þetta á nokkrum mínútum.
    ( Forseti (KE): Það er ágætt, þá lýkur ræðumaður ræðu sinni.)
    Virðulegi forseti. Annað sem ég vildi nefna og dregur það sama fram og ég nefndi varðandi afstöðu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Sjálfstfl. til hátekjufólks, er fjármagnstekjuskatturinn. Það er ekki svo að Sjálfstfl. hafi í yfirlýsingu sinni sem kynnt var sl. laugardag, sem mikil tímamótayfirlýsing, ákveðið það að upp verði tekinn slíkur skattur. Nei, ef menn lesa yfirlýsinguna þá er það ekki gert. Og þrátt fyrir loforð um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ber hið skrýtna nafn ,,Velferð á varanlegum grunni`` og gæti sá titill verið tilefni til nokkurra ræðuhalda, á hins vegar að setja það mál í nefnd og svo á nefndin að dúlla með það alveg örugglega fram yfir kosningar og hún á alls ekki að skila neinu frv. fyrir kosningar þannig að menn þurfi ekki að eiga það á hættu að samþykktur verði einhver fjármagnstekjuskattur fyrir næstu alþingiskosningar. Þarna sjáum við stefnu ekki bara Sjálfstfl. heldur líka Alþfl. sem þó hefur verið að reyna að segja fólki að hann vildi taka upp fjármagnstekjuskatt sem er ekki rétt því að hann hefur heldur staðið á móti því ef eitthvað er, enda var formaður Alþfl. afar ánægður sl. laugardag og lýsti því yfir að þetta hefði verið ánægjulegasti dagurinn hans í langan tíma, enda ekki á hverjum degi sem hann nær samkomulagi við Sjálfstfl. um að fresta fjármagnstekjuskatti fram yfir líftíma núv. ríkisstjórnar.
    Það má líka, virðulegi forseti, rifja upp hvernig núv. ríkisstjórn hefur komið fram gagnvart launafólki, velt byrðunum æ þyngri á herðar þess, sérstaklega þess hluta launafólks sem er að kaupa sér húsnæði eða byggja húsnæði eða eiga börn. Ef maður skoðar þróunina á síðustu þremur árum, þá er það þessi hópur sem hefur mátt þola mestu auknar klyfjar af sköttum. Og það er varla hægt að finna annan þjóðfélagshóp sem hefur orðið fyrir jafnþungum klyfjum af hálfu ríkisstjórnarinnar en þennan hóp, barnafólk sem er skuldsett vegna íbúðakaupa.
    Við getum nefnt að skattar á tekjur þess fólks hafa hækkað, ekki bara í krónum, prósentuálagning hefur hækkað. Persónuafslátturinn hefur lækkað sem líka hefur þyngt skattbyrðina. Í þriðja lagi hafa vaxtabætur verið ítrekað skertar sem reyndar hækka skattbyrðina ef við leggjum það saman. Í fjórða lagi hafa barnabætur verið skertar, ítrekað líka og í fimmta lagi getum við nefnt að ýmis þjónustugjöld sem fjölskyldufólk kemst ekki hjá að borga hafa verið stórhækkuð eða jafnvel ný tekin upp. Þarna hef ég nefnt nokkra þætti sem samanlegt hafa íþyngt fjölskyldufólki gríðarlega frá því sem var fyrir 3--4 árum. Þetta er nú myndarlegt framlag af hálfu ríkisstjórnarinnar á ári fjölskyldunnar að leita uppi þennan þjóðfélagshóp með tekjur um og innan við 200 þús. kr. og skattleggja hann nánast hvar sem hægt er og gæti ég nefnt fleiri dæmi um aukna skattbyrði sem þessi þjóðfélagshópur hefur orðið að þola á undanförnum árum. Menn verða, virðulegi forseti, að mínu mati að reka skattastefnu sem jafnar byrðunum meira en þessi stefna hefur leitt af sér og hún er að mínu mati fullkomlega óásættanleg.
    Sem dæmi um eina breytinguna sem er breytingin á barnabótum þá reiknaði ég út hversu mikið barnabætur hefðu verið skertar hjá fjölskyldu með fjögur börn miðað við árið 1991 og svo aftur núna 1994 og miðað þá við að tvö af börnunum fjórum væru undir sjö ára aldri. Það kom í ljós að árið 1991 hefði þessi fjölskylda fengið 216.885 kr. í barnabætur á verðlagi þess árs. Aftur á þessu ári eru þær komnar niður í 152.120 kr. Það er skerðing um tæplega 65 þús. kr. eða um 35%. Það er veruleg skerðing. Það er ekki bara tilviljun heldur afleiðing af pólitískri stefnu. Og það er einmitt nauðsynlegt að draga þessi atriði fram þannig að stjórnarflokkarnir fái að standa frammi fyrir þessari stefnu sinni þegar kemur að því að fólkinu gefst kostur á að velja sér nýja ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Ég get nefnt margt fleira um afrek núv. ríkisstjórnar í skattamálum og ríkisfjármálum en ég hef þegar nefnt, t.d. þá áherslu að leggja niður sérstakt eignarskattsþrep eins og gerð er tillaga um og í stað þess að reyna þá að milda eignarskattsáhrifin á lægri eignarskattsstofninn. Ég hefði líka getað nefnt áformaðar breytingar sem ríkisstjórnin hefur núna í þessum fjárlögum um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, áformaðar breytingar á atvinnuleysisbótum til lækkunar og áformaðar breytingar á tryggingabótum líka til lækkunar, hvort tveggja upp á mjög stórar upphæðir. Það er auðvitað pólitísk stefna, virðulegi forseti, að grípa til þeirra áforma sem kynnt eru í fjárlagafrv. um að afnema eingreiðslur á atvinnuleysisbætur og ýmsar lífeyrisbætur.
    En um þetta hefur verið fjallað áður. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar komum inn á þetta í 1. umr. málsins og það mun gefast kostur á að rekja þetta enn frekar við 3. umr. málsins ef ríkisstjórnin stendur þá enn við þessi áform sín. Ég mun því láta þetta nægja, virðulegi forseti, til þess að draga fram áherslur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og skattamálum og til þess að útskýra hvers konar stefnu ríkisstjórnarflokkarnir hafa verið að reka í þeim efnum gagnvart fólki.
    Ég mun kannski taka til máls á nýjan leik síðar í þessari umræðu og víkja þá að öðrum atriðum sem ég læt þá liggja að sinni. En eitt get ég ekki látið hjá líða að nefna og það eru þau áform ríkisstjórnarinnar að hætta við að senda varðskip í Smuguna. Það verður ekki séð að í fjárlagafrv. sé gert ráð fyrir fjármagni til þess að unnt verði að senda varðskip þangað á næsta ári og verður ekki skilið öðruvísi en svo að ríkisstjórnin hafi ákveðið að það verði ekki gert. Það væri þá alla vega fróðlegt að fá fram leiðréttingu á því ef það er ekki rétt skilið af minni hálfu og þá væntanlega munu fulltrúar stjórnarliðsins beita sér fyrir því að fjárveiting fáist til þessa verkefnis svo og til þess að unnt verði að reka björgunarþyrlu á næsta ári en það er enn fremur engin fjárveiting til reksturs hennar á næsta ári.