Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:53:51 (2660)


[21:53]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin en vissi hann ekki nákvæmlega af því hvað orkukostnaður hækkaði við virðisaukaskattinn? Ég get sagt honum það t.d. að á svæði, sem er með hæstu hitaveitu í landinu, hækkaði húshitunarkostnaður um 5,5% við virðisaukann. Það virðist sem hann viti bara ekkert um það málefni.
    En ég þakka honum fyrir svörin líka varðandi sjúkrahúsið á Ísafirði. Mér finnst mjög mikilvægt að fá þessi svör en það sem ég er að spyrja um nákvæmlega er þetta: Verður óbreyttur rekstur á sjúkrahúsinu á Ísafirði, annar rekstur en þessi nýi sem hér er boðaður? Ég spyr vegna þess að sjúkrahúsin um allt land eru að tilkynna okkur það að ef fjárlagafrv. verður afgreitt með þeim hætti sem það liggur fyrir verður ekki óbreytt starfsemi, ekki á Landspítalanum, ekki á Borgarspítalanum, ekki á sjúkrahúsinu á Akranesi, ekki á sjúkrahúsinu á Akureyri þannig að spurning mín er sú: Eru nokkur sjúkrahús sem geta haft óbreytta starfsemi? Ég var að spyrja um hvort þau sjúkrahús sem ég taldi upp gætu verið með óbreytta starfsemi frá því sem er í dag.