Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:56:22 (2662)


[21:56]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spurði hver væri skoðun mín á þeirri hugmynd sem kom fram í ræðu hv. formanns fjárln. í dag að hætt yrði að kenna tannlækningar við Háskóla íslands. Ég verð fyrst að segja að það vakti nokkra undrun mína að þetta skyldi vera fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu í kvöld og mér er ekki grunlaust um að hv. formaður fjárln. hafi líka orðið dálítið undrandi á því að það væri mat Ríkisútvarpsins að þetta væri það merkasta sem komið hefði fram í ræðu hans í dag.
    Ég vil segja að ég tel vel koma til greina að hætt verði að kenna tannlækningar við Háskóla Íslands og ég deili þar skoðun með Háskóla Íslands vegna þess að hjá stjórnendum Háskóla Íslands hefur þessi hugmynd skotið upp kollinum. Hún hefur verið rædd en engin ákvörðun verið tekin. Ég mun ekki á nokkurn hátt beita mér í þessu máli. Ég tel þetta vera alfarið málefni Háskóla Íslands og það sé háskólans að ákveða hvort áfram verði kenndar tannlækningar við stofnunina. Það verður ekki að frumkvæði mínu að þeirri kennslu verði hætt.