Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:57:54 (2663)


[21:57]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna ræðu hv. 2. þm. Vesturl. vil ég segja að þær spurningar sem hv. þm. bar upp um sjúkrahúsin vöktu nokkuð undrun mína, ekki síst vegna þess að heilbr.- og trn. hlýtur að hafa kynnt sér stöðu þessara mála betur en virtist koma fram í ræðu hv. þm. Ég vona að það sé misskilningur af minni hálfu að henni finnist ofgert í þeim tillögum um fjárveitingar sem meiri hluti fjárln. gerir og lúta að hinum minni sjúkrahúsum, sérstaklega úti á landi. Það liggur fyrir að gerð hefur verið ítarleg skoðun á rekstri

þessara sjúkrahúsa. Forsvarsmennirnir hafa gert grein fyrir stöðu mála og þetta er niðurstaðan.
    Ég vil einnig vekja athygli hv. þm. á því að tekið hefur verið á málum sjúkrahúsanna á Akranesi og Neskaupstað með sérstökum samningi og fjárlagatillögu í fjáraukalögum fyrir árið í ár og ég veit ekki betur en forsvarsmenn þeirra sjúkrahúsa hafi sætt sig bærilega við þá niðurstöðu.
    Varðandi héraðslæknana er það rétt sem kom fram í máli hv. þm. að þarna er ekki um að ræða veigamikil verkefni og ég held að ekki muni mikil vandræði hljótast af því þó að þessi embætti verði aflögð. Ég tel satt að segja ekkert óeðlilegt að heilsugæslulæknarnir á hverju svæði skipti með sér þessum verkefnum og ekki þurfi að hafa uppi sérstakt embætti til að sinna þeim verkefnum ef þau eru einungis þau sem hv. þm. las upp áðan.