Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 22:00:19 (2664)


[22:00]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var mikill misskilningur sem kom fram í svörum hv. þm. Sturlu Böðvarssonar þegar hann taldi að mér fyndist ofgert við sjúkrahúsin úti á landi. Það sem ég var að spyrja um var það hvort það væri hægt að hafa óbreyttan rekstur á þessum stofnunum og hann var hissa á því að ég skyldi ekki vita það nákvæmlega sem fulltrúi í heilbr.- og trn. Ég veit það ekki nákvæmlega, hv. þm., og það er greinilegt að hv. þm. veit það ekki heldur því að hann svaraði engu um það. Hann svaraði engu um það sem ég var að spyrja að hér áðan, hvort St. Jósefsspítalinn í Hafnarfirði gæti haldið uppi óbreyttum rekstri með þessari fjárveitingu. En ég tel það mjög mikilvægt að þessi sjúkrahús geti haldið uppi óbreyttum rekstri og er að benda á að það er fjöldi sjúkrahúsa sem geta það ekki með þeim fjárveitingum sem þeim eru veittar í þessu fjárlagafrv. Það er þetta sem ég var að spyrja um. Það kom líka fram hjá hv. þm. að hann gerir mjög lítið úr þessum héraðslæknaembættum. Honum finnst þau einskis virði og það var akkúrat það sem mér datt í hug, að það er verið að þynna þetta út og gera þetta akkúrat að engu með þessu fjárlagafrv. Það er nákvæmlega það sem er því hann sagði orðrétt: Ef það er bara þetta sem þessir aðilar gera þá skiptir þetta engu máli. Og það er ókunnugleiki hjá hv. þm. sem kemur fram í þessu svari.