Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 22:01:57 (2665)


[22:01]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Okkur þingmönnum Vesturlands er mjög vel ljóst hver verkefni héraðslæknis Vesturlands eru. Okkur var gerð grein fyrir því á fundi á Akranesi fyrir stuttu þannig að hv. þm. veit það eins vel og ég hvað þarna er um að ræða. En ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um það. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu og er sannfærður um það að það sé ekkert óeðlilegt að heilsugæslulæknarnir í hverjum landshluta skipti þessum verkefnum milli sín, en hins vegar þarf auðvitað að semja um það. Því fyrirkomulagi þarf að koma í fast form.
    Varðandi spurningar hv. þm. um það hvort verkefni viðkomandi sjúkrahúsa sem gert er ráð fyrir að fái aukin framlög breytist eða aukist, þá liggur það fyrir að þetta eru mjög takmarkaðar fjárveitingar sem þarna er um að ræða. Það er gert ráð fyrir bæði í fjáraukalögum og væntanlega verður það við 3. umr. fjárlaga, að stóru sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu fá verulegar leiðréttingar sinna mála og ég tel að það verði vel viðunandi, enda er það sérstakur liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það verði tryggt að fjármunir gangi til sjúkrahúsanna þannig að þekking og sú aðstaða nýtist sem allra best í heilbrigðisþjónustunni sem fyrir hendi er. Hjá litlu sjúkrahúsunum er það þannig að varðandi Ísafjörð þá hefur hv. 3. þm. Vestf. svarað því. Varðandi Stykkishólm þá er, eins og hv. þm. veit, verið að taka í notkun hluta af húsinu sem var verið að endurbyggja og þess vegna þurfti viðbótarfjárveitingu. Í Hafnarfirði er það þannig að St. Jósefsspítalinn hefur ekki haft nægjanlegar fjárveitingar og það er gert ráð fyrir því að sú fjárveiting sem þarna bætist við komi mjög til móts við þann rekstur. Hins vegar er alveg ljóst að það þarf að hægja á, draga úr þjónustunni á þeim spítala.