Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:07:28 (2674)


[23:07]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég veit að veturinn er fram undan en það var ekki vetur í mínum málflutningi. Í

mínum málflutningi bjó vonin. Ég rakti tækifærin og staðreyndirnar ef menn stæðu við þau fyrirheit sem blasa við séu menn menn. Ég veit að þessi ríkisstjórn fer frá 8. apríl og þá tekur ný ríkisstjórn við, vonandi daginn eftir, og þá blæs vonandi byr í seglum og þá verður farið í þá vinnu sem nú hefur ekki verið sinnt.
    Hvað alþjóðasamningana varðar þá er það ekkert sniðugt að koma með glannalegt bros hér eins og hv. þm. gerði þegar það blasir við að ríkisstjórnin núverandi fórnaði garðyrkjunni í EES-samningunum og ríkisstjórnin núverandi er með hendurnar í vösum gagnvart GATT-samningunum sem taka jafnvel gildi nú um áramótin. Íslenskir bændur einir allra bænda í Evrópu búa við það að þeir vita ekki hver starfsskilyrði þeirra verða næsta árið. Ég rakti það áðan að Noregur hefur varið 600 millj. kr. til þess að vinna að vistvænni leið, til þess að taka á móti fólki sem vill hreinar vörur. Þessa möguleika eigum við ef við viljum vera menn. Þó að ég blási af öllum áttum, hæstv. forseti, þá var það svo í þetta sinn sem oft áður að í þeim blæstri öllum studdist ég við rök og staðreyndir.