Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:37:20 (2682)


[23:37]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur allt miðast við að draga úr því að aukafjárveitingar væru veittar og á því hefur orðið mikil bót á síðustu árum eins og kom fram í ræðu minni í dag. En aðeins út af DMA-kortagerðinni, við í fjárln. erum voðalega veikir fyrir svona bisness sjónarmiðum. Þau eru hins vegar ansi mörg þessi bisness sjónarmið. Það er víða hægt að benda á sparnað með því að veita fjármuni í einhver ákveðin verkefni. Við höfum þessi atriði í huga. Það var gert allvel í þessum efnum á sl. ári en það er skoðun mín að verkið sé ekki hættu af þeim sökum að það skorti fé. Hins vegar væri kannski hægt að gera meiri bisness með meiri peningum og það er nú gjarnan svo.
    Örlítið út af veiðistjóra, sem minnst var á, þá sagði í skýringu minni fyrr í dag að þetta væri í tengslum við þær áherslubreytingar sem verða á stjórn veiða úr villtum dýrastofnum. Hvernig þessi tala væri tilkomin, þá er hún einfaldlega komin þannig til að beiðni barst um þessa tölu og það er talið og okkur er tjáð að hún muni duga til að mæta þessum kostnaði. Við höfum ekki rengt það og höfum ekki lagt okkur sérstaklega í líma við að hækka þá tölu þar sem fullyrt er að hún dugi og farið er eftir þeirri beiðni sem barst.
    Út af Veðurstofunni er það nú svo að raunar barst okkur ekki á þessu ári erindi þarna um. Hins vegar minnist ég þess frá sl. hausti að við ræddum þetta mál við veðurstofustjóra. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir rakti örlítið aðdragandann að tilurð þessa máls og þarna var um það að ræða að gerður var samningur innan Veðurstofunnar af þáv. veðurstofustjóra. Sá samningur var ekki gerður af viðkomandi ráðuneytum og þess vegna hafa aðilar talið að það væri rétt að stofnunin bæri þetta en ég lofa hv. þm. að ég skal líta til þessa máls á milli umræðna.