Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 23:41:09 (2684)


[23:41]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. eru auðvitað mjög mörg atriði sem ástæða er til að fara yfir, en ég ætla að byrja á að staldra hér við eitt mál sem er óafgreitt í fjárlagafrv. og er satt að segja býsna skuggalegt mál. Það snertir mjög mikilvæg tæki í búnaði Landspítalans. Þannig háttar til að þar eru tæki, annars vegar kóbalttæki og hins vegar línuhraðall, sem eru komin svo til ára sinna að aðgerðir eða meðferð sem unnin er við þessi tæki og með þeim eru komin á það stig að það verður að teljast varhugavert að nýta þessi tæki eins og þau eru.
    Ég er hér með í höndum, hæstv. forseti, upplýsingar um þessi tæki þar sem það kemur fram, t.d. í sambandi við kóbalttækið, í bréfi til forstjóra Ríkisspítalanna, með leyfi forseta, ,,að notkun hleðslunnar í tækinu er ekki réttlætanleg nema nokkra mánuði til viðbótar þar eð meðferðartími lengist stöðugt og veldur þá auknum geislalíffræðilegum aukaverkunum hjá sjúklingum. Kóbalttækið hefur löngu skilað því sem ætla má af slíku tæki``, stendur hér. Og síðan segir hér að lokum, með leyfi forseta:
    ,,Brýnt er að heimild til kaupa fáist eins fljótt og kostur er á nýju tæki, ekki síst vegna þess aukna tíma sem nú fer í útboð og innkaup samkvæmt reglum EES-svæðisins.``
    Það er lögð á það áhersla að þegar í stað verði sem sagt tekin um það ákvörðun að kaupa 4--6 megavolta, MV, línuhraðal í stað kóbalttækisins sem nú er orðið 25 ára gamalt.
    Ég er einnig með bréf undir höndum um þessi mál frá 1. nóv. 1993 þannig að það er ekki nýtt að um þetta sé fjallað, en hitt bréfið sem ég var að lesa er frá 1. nóv. 1994 og er reyndar frá Þórarni Sveinssyni sem er yfirlæknir krabbameinslækningadeildar Landspítalans og hv. þm. þekkja margir vel til og er virtur vísindamaður í sinni grein. Í bréfi sem skrifað var 1. nóv. 1993 um þessi tæki, ástand kóbalttækis krabbameinslækningadeildar Landspítalans, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Kóbalttækið var keypt á árinu 1969 og hefur þjónað á Landspítala í meira en tvo áratugi. Síðustu árin höfum við fengið ábendingar og ráðleggingar frá framleiðandanum varðandi hættur af notkun svo gamals tækis, enda hafa orðið alvarleg slys annars staðar í heiminum með svipuð tæki vegna slits á þeim.``
    Ég hef einnig undir höndum bréf sem er hluti af skýrslu stjórnarnefndar Ríkisspítalanna sem var lagt til fjárln. Alþingis í nóvember 1994 um sama mál en þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ítrekað hefur verið bent á vanda Ríkisspítala vegna ónógra fjárveitinga til tækjakaupa undanfarin ár. Til þess að halda í horfinu þarf árleg fjárveiting að vera á bilinu 240--340 millj. kr. Af þeirri fjárhæð sem þarf til Landspítalans á næsta ári eru um 60 millj. kr. áætlaðar til kaupa á línuhraðli fyrir krabbameinslækningadeild. Um er að ræða endurnýjun á um það bil 25 ára gömlu kóbalttæki.``
    Í skýrslu Ríkisspítalanna sem dreift var á ársfundi spítalanna í dag er fjallað um þessi mál mjög ítarlega og mjög fróðlega og ég hvet hv. alþm. til þess að lesa þá skýrslu að því er þetta varðar þar sem það kemur fram í fyrsta lagi hvað þessi tæki eru mikilvæg og í öðru lagi hvað ástandið á tækjunum er orðið hættulegt. Og ég held þess vegna að það sé óhjákvæmilegt að spyrja þá hv. þm. úr fjárln. sem hér eru: Verður tekið á þessum málum varðandi línuhraðal fyrir krabbameinslækningadeild Landsspítalans í fjárlögunum fyrir árið 1995? Tækið eins og það er núna er að mati allra aðila stórhættulegt og ég er með eins og ég sagði upplýsingar um það mál frá Þórarni Sveinssyni lækni, sem er yfirlæknir á krabbameinslækningadeildinni, og Garðari Mýrdal sem er forstöðumaður geislaeðlisfræðideildar Landspítalans. Ég vil því sérstaklega spyrja þá hv. þm. úr fjárln. sem hér eru hvort á þessum málum verður ekki örugglega tekið.
    Nú þegar er tilbúin útboðslýsing á þessum línuhraðli sem hér er um að ræða, 6 MV línuhraðli, og það er beðið eftir heimild stjórnvalda til að senda þessa útboðslýsingu Ríkiskaupum til útboðs. Sem sagt útboðslýsingin hefur verið til þó nokkurn tíma en það hefur ekki fengist heimild til að senda hana Ríkiskaupum til útboðs og auðvitað væri það mikilvægt innlegg í málið að mínu mati ef heimildin til kaupa á tækinu yrði sett inn á 6. gr. fjárlaga vegna þess að hér er um að ræða pöntun og afgreiðslu sem tekur mjög langan tíma. Hún tekur satt að segja talsvert mikinn hluta af árinu 1995. Ef útboðslýsingin eða útboðið væri

heimilað t.d. núna þá má gera ráð fyrir því að þá þurfi tíma talsvert fram eftir næsta ári til þess að komast til botns í málinu og menn eru að tala um að tækið verði tilbúið til uppsetningar í síðasta lagi í ársbyrjun 1996 með hliðsjón af því hvernig staðan er og hvað þetta hefur dregist. Og eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, þá kæmi þetta tæki í stað kóbalttækis sem var keypt árið 1969 og hefur verið notað nú í aldarfjórðung.
    Ástæðan til þess að menn eru að tala um að kaupa þennan línuhraðal í staðinn fyrir kóbalttækið er aðallega sú að það er ekki lengur tryggt að varahlutir fáist í kóbalttækið og hefur framleiðandi varað við áframhaldandi notkun þessa tækis m.a. vegna slysahættu. Ég er hér með bréf undir höndum frá framleiðendum kóbalttækisins þar sem þeir segja sem svo: Við erum hættir að framleiða varahluti í þetta tæki og við vörum við því að tækið verði notað eða reynt verði að nota tækið áfram.
    Geislahleðsla sú sem notuð er núna í þessu kóbalttæki var keypt árið 1988 og hún er núna komin ár, ég endurtek, heilt ár fram yfir venjulegan notkunartíma. Línuhraðallinn sem var keyptur 1988 er fullnýttur og hann kostar, ef hann væri keyptur nýr, um 120 millj. kr. og mundi endast í 9 ár enn, sá sem nú er hér, ef unnt væri að hlífa honum með minni línuhraðli sem gæti nýst í 80% tilvika. En það sem verið er að tala um hér, hæstv. forseti, er fjármagn til tækjakaupa á næsta ári upp á 25--30 millj. kr., þ.e. helminginn af kostnaðinum við kaupin á línuhraðlinum.
    Ég er hér með undir höndum, hæstv. forseti, bréf sem framleiðendur kóbalttækisins sendu Landspítalanum og ég mun koma í hendur hv. fjárlaganefndarmanna. Ég er einnig með bréf þar sem fram kemur að þessir framleiðendur ráðleggja Landspítalanum að hætta að nota þetta tæki því að framleiðandinn taki enga ábyrgð á því. Og ég er síðan með frétt úr erlendu fréttatímariti um geislafræðileg málefni, Radiology and Imaging Letter, þar sem það kemur m.a. fram að ef menn nota svona tæki of lengi þá er veruleg hætta á slysum og hér er nefnt í þessu riti eitt dæmi um mjög alvarlegt slys að ekki sé meira sagt sem hlotist hefur af því að menn hafa notað svona tæki of lengi.
    Ég tel ekki við hæfi, hæstv. forseti, að ég lýsi því mikið nánar sem fram kemur í þessum pappírum. En það er augljóst mál að það verður að taka á þessu máli. Landspítalinn er sem vísindastofnun og sem lækningamiðstöð hér á Íslandi, hjartað í heilbrigðisþjónustu landsmanna að mörgu leyti, hann er í hættu ef ekki verður á þessu máli tekið og ég fer fram á það við hv. þm. úr fjárln. sem hér sitja á þessum fundi að þeir taki á þessu máli alveg sérstaklega.
    Hæstv. forseti. Ég nefni þetta hér með Ríkisspítalana vegna þess að mér skilst að stóru spítalarnir séu eftir, það sé eftir að fara yfir þá, þess vegna ákvað ég að flytja engar breytingartillögur sérstaklega um þetta mál en vildi koma því hér á dagskrá í umræðunni sjálfri.
    Í öðru lagi langar mig til að nefna hér annað mál sem ég tel að sé ekki nægilega afgreitt og ég hef miklar áhyggjur af og það er þjónustumál fatlaðra hér í Reykjavík alveg sérstaklega. Það er satt að segja nokkurt umhugsunarefni að við Reykvíkingar höfum verið svo heppin að hafa haft einn af þingmönnum okkar í félmrn. nú um langt árabil. Það hefur vafalaust oft verið tekið mjög vel til hendinni þar í þágu málefna fatlaðra í þessu byggðarlagi. Þeim mun meira undrandi verður maður á því að lesa grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. des. sl. þar sem fjallað er um neyðarbiðlista fatlaðra og ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr þessari grein örfá orð, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nú er svo komið að hér í höfuðborginni eru um 200 manns á biðlistum um búsetu hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra og þar af eru á neyðarbiðlista um 30 manns.`` Ég vona að hv. þm. þekki það vel til að þeir viti hvernig er komið fyrir því fólki sem er sett á neyðarbiðlista um þjónustu fyrir fatlaða. Þar er yfirleitt um að ræða mjög alvarleg tilvik sem ekki aðeins bitna á þeim einstaklingum sem þar um ræðir heldur gjarnan líka fjölskyldum þeirra, oft á tíðum með mjög alvarlegum hætti. Síðan segir hér áfram, með leyfi forseta: ,,Til að mæta þörfum þeirra sem á neyðarbiðlistanum eru þarf a.m.k. að byggja sex ný heimili fyrir fatlaða. Ekki er að sjá í síðustu ársskýrslu Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík fyrir árið 1993 að þetta ástand valdi starfsmönnum þar á bæ miklum áhyggjum. Svæðisáætlun fyrir árin 1994--1996 er í raun ósköp metnaðarlaus miðað við ástand mála og ekki verður séð að langt muni þokast á næstu tveimur árum. Reyndar gagnrýnir Svæðisráð Reykjavíkur áætlunina vegna þessa og telur óvíst að hægt verði að leysa vanda allra þeirra sem á neyðarbiðlista hafa verið lengi.
    Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofunnar slær taktinn fyrir sitt fólk í viðtali við Fréttablað Styrktarfélags vangefinna sem út kom í síðasta mánuði. Þar segir hann m.a.: ,,Stundum er minna fé til aflögu en að mínu mati er eins vel gert við þennan málaflokk og hægt er.``
    Ég er hrædd um að foreldrar fatlaðra sem bíða eftir framtíðarúrlausn í húsnæðismálum sínum, mörg hver á neyðarbiðlista, séu ekki sama sinnis. Þessi skoðun framkvæmdastjórans skýrir kannski að einhverju leyti af hverju Reykjavík hefur orðið útundan í fjárveitingum undanfarinna ára í búsetumálum fatlaðra, þótt valdið sé að sönnu hjá félagsmálaráðherra og Alþingi.``
    Og síðan segir enn fremur í þessari grein í Morgunblaðinu 7. des. sl., greinin er eftir Ágústu Bragadóttur og hún á 18 ára son sem er á þessum neyðarlista.
    ,,Í umsögn um áðurnefnda svæðisáætlun, sem Svæðisráð málefna fatlaðra í Reykjavík sendi til félmrn. í mars á þessu ári, kemur m.a. fram að í Reykjavík, þar sem búa um 40% landsmanna, er hlutfall fatlaðra mun hærra en í öðrum sveitarfélögum. Rúmlega 51% þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun eru búsettir í Reykjavík. Hins vegar hafa fjárveitingar til málefna fatlaðra í Reykjavík á

vegum félmrn. undanfarið einungis verið um 30% af heildarframlaginu. Þetta er mikið umhugsunarefni og sú spurning vaknar hvort Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík telji það vera sitt hlutverk að draga úr kröfum og metnaði þegar harðnar í ári fremur en að standa með skjólstæðingum sínum, gera áætlanir og setja sér markmið í anda laganna um málefni fatlaðra.
    Undirrituð fór á fund ráðherra félagsmála í sumar, sem þá var annar af þeim þremur sem setið hafa á yfirstandandi kjörtímabili, með skriflegt erindi þar sem vakin var athygli á því neyðarástandi sem ríkir í búsetumálum mikið fatlaðra í Reykjavík og spurði ég m.a. hvort vænta mætti aukinna framlaga á fjárlögum 1995 til að tryggja rekstur nýrra heimila fatlaðra í Reykjavík. Ráðherra hefur enn ekki svarað erindinu formlega,`` --- þ.e. 7. desember, --- ,,en hins vegar er ljóst samkvæmt frv. til fjárlaga 1995 að ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum rekstri í öllum málaflokki fatlaðra. Þetta þýðir m.a. að ekkert nýtt heimili fyrir fatlaða verður tekið í notkun á næsta ári ef þetta frumvarp nær fram að ganga.``
    Ég lýk hér lestri úr þessari grein eftir Ágústu Bragadóttur um neyðarlista fatlaðra og ég vil leyfa mér að spyrja þá fjárlaganefndarmenn sem hér eru: Er hægt að gera ráð fyrir því að það verði tekið sérstaklega á þessum málum í fjárlagafrv. varðandi búsetumál fatlaðra, betur en gert er núna?
    Ég ætla að nefna þá, hæstv. forseti, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að starfsemi verði að Árlandi, heimili fyrir fatlaða, á næsta ári. Það er augljóst mál að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til starfseminnar á Árlandi á næsta ári eru ekki nægilegir. Þannig að ef svo fer fram sem horfir að þá verða menn að draga mjög verulega úr rekstri þar og þar með verður Árland ekki sú eining fyrir fatlaða sem hún þyrfti að vera. Ég vil sem sagt leyfa mér að spyrja um það, hæstv. forseti, hvort á þessum málum verður tekið frekar við meðferð málsins hér í þessari virðulegu stofnun. Ég ákvað að flytja ekki tillögu um þessi sérstöku mál sem lúta að málasviði fatlaðra vegna þess að ég vildi fyrst fá það fram í umræðunni hvaða hugmyndir væru uppi um málið og hlustaði grannt eftir því sem fram kom hjá hv. talsmanni fjárln., las nál. fjárln. og spurðist fyrir um það sem fram hafði komið í máli hans sem ég hafði misst af og það kom í ljós að á þessu máli, að því er varðar fatlaða, var því miður ekki tekið og þess vegna nefni ég það hér. En ég hef grun um að menn hafi hugsað sér að líta þannig á að málinu væri lokið með frumvarpinu eins og það lítur út og brtt. og það er ekki hægt, hæstv. forseti. Ef niðurstaðan er sú að menn sjái ekki lausn á þessu máli með öðrum hætti þá verður Alþingi að sameinast um að skera eitthvað annað niður til þess að tryggja peninga í þetta verkefni. Það er ómögulegt að hafa þetta svona. Það er alveg ómögulegt, hæstv. forseti.
    En ég verð að segja hins vegar að auðvitað er það hugsanlegt að eitthvað af því sem hér hefur verið sagt af mér eða þeim greinarhöfundi sem ég vitnaði til sé á misskilningi byggt og þá verður það væntanlega leiðrétt og vissulega verð ég að játa það að ég sakna vinar í stað þar sem er hv. 12. þm. Reykv. sem er því miður fjarri þessa umræðu og hefði vafalaust getað frætt mig um eitt og annað á þessu sviði. En athyglisvert er að hún kom nálægt þessu ráðuneyti um nokkra hríð, sat þar satt að segja líklega lengur en nokkur annar einstaklingur í sögu félmrn. ef ég man rétt. Ég hygg að það sé svo, hæstv. forseti, svo ég rifji upp eina sögulega staðreynd á síðkvöldi þegar menn eru greinilega mjög brattir í þessum sal eða hitt þó heldur.
    Varðandi málið að öðru leyti, hæstv. forseti, þá ætlaði ég að víkja aðeins að brtt. sem við þingmenn minni hlutans í menntmn. flytjum, og það er þá fyrst Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn, þ.e. Þjóðarbókhlaðan, og þar erum við einfaldlega með tillögu um að Þjóðarbókhlaðan fái þá peninga sem var gert ráð fyrir að hún fengi þegar við vorum að fjalla um þjóðarbókhlöðulögin í fyrra. Og ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh., úr því að hann heiðrar okkur með nærveru sinni --- og ég tel ástæðu til að þakka honum fyrir það að sitja hér undir þessari umræðu og er það til fyrirmyndar, mættu aðrir ráðherrar gjarnan taka hann sér til fyrirmyndar á þessu sviði, ég ætla að spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann sjái fram á það að Þjóðarbókhlaðan fái eitthvað meira í rekstur á næsta ári. Ég sé ekki betur en það verði að loka henni í september ef þetta verður svona. Mér þætti það klént að henni yrði lokað í september og ég veit að hæstv. ráðherra er sammála mér um það og ég vil þess vegna spyrja hann um málið og jafnframt leggja fram þessa brtt. fyrir hönd okkar stjórnarandstæðinga í hv. menntmn.
    Í öðru lagi flyt ég tillögur sem lúta að grunnskólunum þar sem ég geri ráð fyrir því að frv. sem nú liggur fyrir í sambandi við grunnskólana verði framkvæmt á næsta ári með því að breyta og hækka liðinn Grunnskólar, óskipt en þar er gert ráð fyrir því að fjölga vikustundum í grunnskólunum um 6 á viku frá hausti 1995 og það er talið að það kosti 26,2 millj. kr. Ég geri sem sagt ráð fyrir því að það verði stigið aðeins lengra í þessum efnum með hliðsjón af því frv. sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur lagt fyrir þessa virðulegu stofnun til afgreiðslu og samþykktar.
    Í öðru lagi flyt ég tillögu um listskreytingasjóð og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort meiningin sé að taka eitthvað á málum listskreytingasjóðs hér á lokastigi málsins. Þetta er nú þannig að þeir menn sem hafa setið undir frýjuorðum í fjárln. og verið kenndir við vissa landshluta umfram aðra hafa nú hrokkið til og ákveðið að leggja stóraukið fé í Kvikmyndasjóð. Þó að ýmsum þyki það ekki nóg þá tek ég eftir því að menn hafa brugðið hart við þeim ákúrum sem birst hafa frá miðstöð Kvikmyndasjóðs og þykir mér það náttúrlega athyglisvert. Hins vegar hafa forráðamenn listskreytingasjóðs sent frá sér ýmsar yfirlýsingar sem hafa verið prúðar og forráðamenn listskreytingasjóðs hafa ekki í sínum yfirlýsingum kosið að kenna fjárlaganefndarmenn meiri hlutans við ákveðna landshluta frekar en aðra, þ.e. sveitir landsins, hvers sem sveitirnar eiga nú að gjalda að vera endilega að troða þessum ágætu þingmönnum upp á sveitirnar, og auk þess hafa þeir listskreytingasjóðsmenn rætt við mjög marga, birt málefnalegar greinar en í rauninni bara sagt sem svo: Er ekki rétt að halda þessu áfram þangað til búið er að endurskoða lögin en ekki höggva fyrst og svo endurskoða þau? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann er svo vinsamlegur að vera hér, hvort ekki sé hugsanlegt að endurmeta þetta mál varðandi listskreytingasjóðinn og rausnast til að smella þarna inn einhverri upphæð hér að lokum, þó það væri ekki fyrr en við 3. umr., en eins og kunugt er þá eru það jafngóðir peningar sem koma við 3. umr. og við 2. þegar upp er staðið. Það þekkja þeir sem hafa verið hérna lengi.
    Ég vil spyrja hv. varaformann fjárln. um þetta mál með listskreytingasjóð því að ég veit að honum er örugglega umhugað um það ekki síður en öðrum hv. þm. að á þessu máli verði tekið. Þessi listskreytingasjóður hefur oft gert mikið gagn og það hafa verið sett upp listaverk á ýmsum stöðum að tilhlutan sjóðsins. Ég get þó alveg sagt það að ég hef ekki að öllu leyti verið ánægður með þá hluti persónulega, en í raun og veru er það ekki mitt mál að hafa skoðun á því sem þingmanns heldur er það annarra og betra að aðrir en þingmenn véli um smekksatriði eins og það hvernig myndverk líta út.
    En ég vil sem sagt spyrja að því hvort menn ætla að láta hér staðar numið varðandi listskreytingasjóð. Ég tel að þessum sjóði nokkurn menningarauka satt að segja og ég tel eftirsjón að honum og ég held að ef sjóðnum verður slátrað núna, þá komi hann ekki aftur í bráð þannig að ég vil biðja um það að menn líti til hans með velvild og spyr: Er ekki ætlunin að gera það þrátt fyrir allt?
    Þá vil ég loks geta þess að ég flyt ásamt öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar í hv. menntmn. tillögu varðandi Háskóla Íslands og ég vil einnig spyrja um málefni háskólans. Er ekki eftir að afgreiða þau að einhverju leyti? Mér hefur skilist að svo væri svo að í sjálfu sér ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það. Það liggur fyrir beiðni frá háskólanum upp á um 200 millj. kr. Það er rökstutt með þremur þáttum. Það er í fyrsta lagi að framlög í vinnumatssjóð og rannsóknarsjóð séu 45 millj. kr. Í öðru lagi aukning vegna fjölgunar nemenda umfram áætlun í fjárlagatillögum um 60 millj. kr. og síðan fyrsta skref í á átt að kennsla verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndum, 95 millj. kr. þannig að ég mundi leggja á það mikla áherslu að það verði tekið á þessum málum af velvild og þætti vænt um ef hæstv. ráðherrar eða hv. þm. í fjárln. gætu gefið í skyn a.m.k. á þessu stigi málsins hvernig ætlunin er að taka á málinu.
    Ég vil aðeins segja varðandi háskólann að mér heyrðist satt að segja menn hafa komist að þeirri niðurstöðu, einhverjir í fjárln. Það þarf nú ekki að vera að það hafi verið gerð um það ályktun beint í nefndinni að það væri rétt að breyta háskólanum núna í óvin Alþingis og fjárln. og hjóla í háskólann. Og það væri alveg sérstaklega til tannlæknadeild sem væri mikið vandamál. Það var haft svo mikið við að menntmrh. var spurður: Á að loka tannlæknadeild? Og ráðherrann svaraði því ágætlega fyrir sitt leyti. Hann sagði eins og er: Það má svo sem alveg athuga það. Þessi yfirlýsing um það að það eigi að loka tannlæknadeild er hvorki ný eða frumleg vil ég taka fram, hæstv. forseti. Ég hygg að þetta sé í fimmta sinn á mínum þingmannsferli að ég heyri þessa hugmynd. Hún er ævinlega sett fram þegar menn hafa ekkert annað að segja í sparnaðarskyni. Þetta er eins og með Alþfl. sem hafði lengi uppi þá hugmynd þegar hann var spurður: Hvað vill Alþfl. spara nákvæmlega í ríkisfjármálum? Þá sagði Alþfl.: Holdanautastöðina í Hrísey. Nákvæmlega eins er þetta með tannlæknadeildina. Staðreyndin er sú að þetta er til marks um það að menn hafa í raun og veru ekkert að segja, dettur allt í einu í hug að grípa þetta hálmstrá, tannlæknadeildina, frekar en ekki neitt.
    Vandinn við þetta mál er ósköp einfaldlega sá að í fyrsta lagi þurfum við að hafa tannlækna. Við þurfum að gera ráðstafanir til þess að við getum haft þá og það gerum við kannski með því að semja við aðra háskóla og fyrir það getum við þurft að borga peninga. Í öðru lagi er það þannig að við erum með þó nokkuð af græjum og húsakynnum á vegum háskólans fyrir tannlæknanám sem ekki er víst að nýttist öðruvísi en gæti þó nýst öðruvísi. Og þarna komum við að þeim vanda og því verkefni sem kannski er flóknast í þessu samhengi og í sambandi við allan sparnað í ríkisfjármálum. Það er að það þarf að taka ákvörðun um hann með mjög löngum fyrirvara ef hann á að skila árangri. Menn þyrftu í raun og veru að vera að fjalla hér um þriggja til fimm ára fjárlagaramma ef vel ætti að vera án þess að menn væru að binda sig á það í einstökum atriðum. Sparnaður eins og t.d. væri fólginn í því að spara eitthvað í rekstri háskólans, t.d. með því að leggja niður tannlæknadeild eða taka á einhverjum öðrum hlutum, slíkur sparnaður skilar sér ekki nema á mjög löngum tíma og þess vegna gef ég satt að segja ekki mjög mikið fyrir tón af því tagi sem mér fannst gæta í máli formanns fjárln. í garð Háskóla Íslands. Ég held satt að segja að háskólinn eigi það ekkert skilið af okkur að menn breyti honum í óvin Alþingis á þessum skammdegisnóttum. Ég held að okkur veiti ekkert af því að eiga góðan háskóla. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að Háskóli Íslands er einn þátturinn í því að við getum talist halda hér uppi myndarlega sjálfstæðu þjóðlífi og við eigum að vera stolt af háskólanum og reyna að halda þannig á málum að hann sé samkeppnisfær við aðrar hliðstæðar stofnanir í kringum okkur.
    Virðulegi forseti. Ég vildi síðan að allra síðustu nefna atriði varðandi menntmrn. sem ég flutti enga tillögu um en ég spyr um. Það er fiskvinnsluskólinn. Er það sem sagt alveg járnslegin niðurstaða að það eigi að loka honum bara alveg og það eigi ekki að setja neitt meiri pening í hann? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þessi mál eru í uppnámi. Það hefur ekki verið tekið á þessum málum í samhengi. Ég man ekki betur en það hafi verið þannig fyrir allmörgum árum að menntmrn. ákvað

að efna til samstarfs um fiskvinnslunám við Menntaskólann á Ísafirði í samvinnu við bæjarstjórnina í Bolungarvík. Ég man ekki betur en þessir hlutir væru komnir á þó nokkurn rekspöl þegar tilkynning barst um það sunnan úr menntmrn. að það ætti að slá þetta af. Og nú er verið að halda þannig á málum að því er varðar Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði, fiskvinnsluskóla sem var þó nokkuð miklu kostað til í upphafi, að hann er í raun og veru að lognast út af. Það liggur ekkert fyrir um það hvað á að koma í staðinn. Það eina sem maður heyrir um hvað á að koma í staðinn er að það eigi að hafa meiri sjávarútvegsfræði í Háskóla Íslands heldur en áður þannig að það má segja að það sé nokkuð snjöll nálgun hjá leiðtoga fjárln. að slá af sjávarútvegsnám á framhaldsskólastigi til þess að geta tekið það upp á háskólastigi. Það má segja að það sé mjög athyglisverð skólamálapólitík sem fram kemur hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. sem er því miður fjarverandi eins og er, ( SJS: Ha, nei, ekki 4. þm. Norðurl. e.) þ.e. 7. ( SJS: Já, í guðs bænum.) Já, í guðs bænum, ég segi það nú líka. Ég held því að það sé alveg nauðsynlegt að spyrja hæstv. menntmrh. í hvaða samhengi hann sér þessa hluti að því er varðar sjávarútvegsnám og fiskvinnslunám og má kannski nefna það af því að ég var að tala um hv. 4. þm. Norðurl. e. að fyrir ekki alllöngu var fjallað um það í þessari virðulegu stofnun að Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðið yrði eins konar miðstöð fyrir sjávarútvegsnám í landinu og á háskólastigi í raun og veru líka. En nú virðist þetta allt vera í uppnámi og ég skil ekki alveg af hverju menn geta ekki tekið afgerandi ákvarðanir um einhverja þróunarstefnu í sjávarútvegsfræðum í landinu og mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. sæi sér fært að fara um það nokkrum orðum hvernig hann sér þau mál fyrir sér.
    Hæstv. forseti. Ég hef þá lokið við að fjalla um þau atriði sem ég er með sérstakar breytingartillögur um eða vil nefna sérstaklega en vil svo að lokum nefna eitt atriði sem ég vil beina til hæstv. fjmrh. og spyrja hann um. En þannig er að á þessu ári eru veittar ég held 60 millj. kr. í jöfnunaraðstoð til skipasmíðaiðnaðarins. Það hefur verið ákveðið að gera það í tvennu lagi, tveimur lotum. Skipasmíðafyrirtæki hafa fengið svokallaða jöfnunaraðstoð til að vega upp erfiða samkeppnisstöðu gagnvart erlendum niðurboðum á skipasmíðum. Það hefur verið skoðun mjög margra aðila og m.a. hæstv. iðnrh. og ég held fjmrh. jafnvel líka að þetta í rauninni borgaði sig fyrir ríkissjóð að leggja þessa peninga inn því að þó að það væri borgað eitthvað með þessum verkefnum þá þýddi það aftur meiri tekjur fyrir ríkissjóð og minni atvinnuleysisbætur. Og allt hygg ég að það hafi verið rétt í rauninni hvernig á þeim málum hefur verið haldið og hvernig með þau mál hefur verið farið og ég tel ástæðu til þess að bera hrós á það fólk sem hefur staðið að þeim málum, m.a. af hálfu iðnrn.
    Ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort meiningin er að taka þetta mál fyrir í fjárlögum ársins 1995 en það hlýtur að vera komið inn í fjáraukalögin. Ég reikna með því að menn séu búnir að taka þau inn í fjáraukalög ársins 1994 og mér þykir þess vegna mikilvægt að spyrja: Er ætlunin að taka jöfnunaraðstoð til skipasmíðaiðnaðarins inn í fjárlög ársins 1995? Til þess að minna á það mál hef ég flutt brtt. varðandi það verkefni því að ég tel að þetta sé ódýr og einföld leið til þess að bjarga atvinnutækifærum fyrir þúsund manns í landinu. Það liggur alveg í augum uppi að skipasmíðaiðnaður getur þrifist og braggast og dafnað vel í landinu. Það þarf aðeins að hjálpa honum yfir hjallann núna á næstunni. Núna hefur verið tekin um það ákvörðun að framlengja styrkjatímabil Evrópusambandsins vegna skipasmíða, því miður, og þar stöndum við frammi fyrir áframhaldi þessa vanda sem við höfum kynnst á undanförnum árum. Við vorum að gera okkur vonir um það að Evrópusambandið legði þessa styrkjapólitík niður en hún hefur nú verið framlengd um sinn af einhverjum ástæðum og þess vegna er nauðsynlegt að framlengja jöfnunaraðstoðina líka. Og þó að menn vilji halda utan um hlutina í sambandi við ríkisfjármál sem sýnist reyndar vera allur gangur á í seinni tíð þá held ég að við eigum að átta okkur á því að hérna er um mikið mál að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf. Hér er um að ræða mörg hundruð atvinnutækifæri. Hér er um að ræða þróunarverkefni, t.d. fyrir verkmenntun í landinu, þar sem skipasmíðarnar eru svo að ég fer fram á að menn líti til þessarar brtt. okkar að því er varðar jöfnunaraðstoðina með velvild.