Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:35:34 (2700)


[00:35]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu væri full ástæða til þess að fara ítarlega í fjárlagafrv. og ýmislegt það sem vekur athygli þar. En hv. 5. þm. Vestf., Kristinn Gunnarsson, hefur gert grein fyrir sjónarmiðum okkar alþýðubandalagsmanna varðandi fjárlagafrv. almennt. Ég ætla því að láta nægja einkum og sér í lagi tímans vegna þar sem klukkan er nú langt gengin í eitt að fjalla lítillega um tvær brtt. sem ég flyt á þskj. 371.
    Önnur brtt. snýr að Kvikmyndasjóði. Ég geri þar tillögu um að framlag til Kvikmyndasjóðs sé hækkað verulega frá því sem er í frv. eða um tæpar 40 millj. Nú kann að vera að einhverjum þyki lítil þörf á tillögu af þessu tagi þar sem fyrir liggur tillaga frá hv. fjárln. um það að framlag til Kvikmyndasjóðs sé hækkað úr 80 millj. í 100 millj., þ.e. um 20 millj. og það sé nóg að gert. Ég flyt tillöguna bæði til þess að ná fram leiðréttingu og einnig til þess að vekja athygli á því að þrátt fyrr þessa hækkun fjárln. á framlögum til Kvikmyndasjóðs er áfram um stórfelldan niðurskurð að ræða á framlögum til sjóðsins.
    Ég minni á í þessu samhengi að ef fylgt væri lögum um framlög til Kvikmyndasjóðs ætti að ganga til sjóðsins 121 millj. í lögbundnum framlögum. Síðan bætast við skuldbindingar sem menntmrn. hefur lagt á sjóðinn en hann ber enga skyldu til að sinna en það eru framlög til alþjóðlegra stofnana sem Ísland er aðili að eins og framlög til Evrópska kvikmyndasjóðsins og til Norræna kvikmyndasjóðsins. Eðlilegast væri að þau framlög væru sérstakir fjárlagaliðir og kæmu ekki af fé Kvikmyndasjóðs. Þannig hygg ég að þetta sé í öllum nálægum löndum og þannig var þetta hugsað í upphafi. En fyrir nokkrum árum voru þessi framlög lögð á herðar Kvikmyndasjóðs, að inna þau af hendi, og þetta varð til að rýra ráðstöfunarfé sjóðsins. Þarna eru a.m.k. 3 millj.
    Síðan gerðist það við fjárlagaafgreiðsluna fyrir einu ári að Kvikmyndasafn Íslands hvarf út úr fjárlögunum sem sérstakur fjárlagaliður og var fellt undir Kvikmyndasjóð og Kvikmyndasjóði var ætlað að kosta alfarið rekstur safnsins. Í þessu samhengi er rétt að minna á að framlög til Kvikmyndasafnsins höfðu verið um 8--9 millj. á hverju ári á árunum 1991--1993 og ég hygg að samsvarandi upphæð sé í dag rétt tæpar 10 millj. kr. Þegar þessi kostnaður er lagður á Kvikmyndasjóð er auðvitað verið að rýra ráðstöfunarfé sjóðsins til framleiðslu íslenskra kvikmynda. Þegar allt þetta er lagt saman má segja að óskert framlag til þessara mála, þ.e. til Kvikmyndasjóðs, til erlendra kvikmyndasjóða og til kvikmyndasafnsins nemi fjárhæð sem er einhvers staðar nálægt því að vera 134 millj. kr. ef fylgt væri því sem upphaflega var gert ráð fyrir og miðað er við í lögum um Kvikmyndasjóð. En sem sagt, nú er stefnt að því að upphæðin sé samanlagt 100 millj. og niðurskurðurinn er því eins og hér hefur komið fram í kringum 34 millj.
    Afleiðingin hefur auðvitað orðið sú að einkum og sér í lagi Kvikmyndasafnið hefur verið skorið sérstaklega niður við trog í öllum rekstrinum og starfsemi þess líður mjög fyrir þann niðurskurð sem þarna hefur átt sér stað en þar að auki hafa framlög til íslenskrar kvikmyndagerðar dregist mjög saman á þessu ári og mundu gera það áframhaldandi á næsta ári ef fer sem horfir.
    Ég minni á það að íslensk kvikmyndagerð er einn merkasti vaxtarbroddurinn í íslensku menningarlífi og auðvitað er alveg sérstök nauðsyn á því þegar erlent menningar- og afmenningarefni af ýmsu tagi flæðir yfir þjóðina að efla íslenska kvikmyndagerð. En þar að auki er nokkuð ljóst að íslenskar kvikmyndir eru einhver árangursríkasta landkynning, sem völ er á, og hefur átt stóran þátt í því að auka ferðamannastraum til landsins og afla þannig þjóðinni tekna beint og óbeint.
    Í þriðja lagi má á það benda að íslensk kvikmyndagerð eykur verulega þjóðartekjur vegna þess að

með hverri milljón sem lögð er í íslenska kvikmyndagerð hafa fylgt 4--5 milljónir úr erlendum kvikmyndasjóðum og þannig hefur íslensk kvikmyndagerð orðið til þess að beina fjárstreymi að utan inn í þjóðlífið. Tekjur hafa aukist, veltan hefur aukist og þar með að sjálfsögðu skatttekjur ríkissjóðs. Því er auðvelt að sýna fram á það að framlög í Kvikmyndasjóð skila sér aftur beint og óbeint og því er ákaflega óskynsamlegt að skera þær niður.
    Ég kemst ekki hjá því að nefna það í þessu samhengi að úthlutanir úr Menningarsjóði útvarpsstöðva hafa líka skipt miklu máli fyrir íslenska kvikmyndagerð og það eru einkum og sér í lagi heimildarmyndir sem hafa notið framlaga úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Nú stendur svo á að fyrir hálfu ári var auglýst eftir umsóknum í Menningarsjóð útvarpsstöðva en úthlutun hefur enn ekki farið fram og ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh. hvenær verði úthlutað úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Úr því að auglýst var eftir umsóknum, þá virðist manni útilokað með öllu að einhver úthlutun eigi sér ekki stað en það hefur orðið langur frestur á því. Þess vegna hljóta menn að fara að verða nokkuð langeygir eftir því að sjá fjármagn koma úr þeim sjóði. Ég veit að ráðherrann hefur átt í miklum samningaviðræðum við fjmrn. út af málinu en ég trúi því ekki að hann hafi komið algerlega tómhentur frá því samningaborði. Ég sé að vísu að í nýju útvarpslagafrv. er gert ráð fyrir því að Menningarsjóður útvarpsstöðva verði lagður niður og í stað hans verði stofnaður annar sjóður sem beri nafnið dagskrárgerðarsjóður útvarpsstöðva. En þetta frv. er ekki orðið að lögum. Menningarsjóður útvarpsstöðva er enn til og úthlutun fyrir árið 1994 hlýtur að eiga sér stað inna skamms. Þetta vil ég spyrja ráðherrann nánar út í.
    Síðan vil ég nefna hina brtt. sem ég flyt á þskj. 371. Þar legg ég á það áherslu að framlag til jöfnunar á námskostnaði sé verulega aukið. Jöfnun á námskostnaði hefur einkum og sér í lagi verið fólgin í því að nemendum í framhaldsskólum hefur verið veittur svokallaður dreifbýlisstyrkur. Sá styrkur nam á þessu ári 36 þús. kr. á nemanda og síðan hefur verið veittur húsnæðisstyrkur sem numið hefur 13 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu en 11 þús. kr. annars staðar á landinu. Auk þessa hefur verið veittur ferðastyrkur og hefur algengasta styrkupphæðin verið 2--8 þús. kr. á einstakling en örfáar undantekningar munu hafa verið um hærri styrki allt upp í 20--30 þús. kr.
    Af þessu má ráða að dreifbýlisstyrkir hafa getað numið 47--49 þús. kr. á einstakling nema í örfáum undantekningartilvikum að þeir hafa verið hærri vegna dýrari ferðalaga. Hins vegar er það svo að það er býsna dýrt fyrir fátækar fjölskyldur að kosta nemendur til náms í framhaldsskólum. Ég vil upplýsa það hér að fæði í framhaldsskólum er víða í kringum 70 þús. kr. á önn, sjö daga fæði, en til viðbótar kemur heimavistargjald sem víða nemur í kringum 7 þús. kr. á önn þannig að nemendur hafa greitt í kringum 168 þús. kr. á vetri fyrir heimavistardvöl. Upp í þennan kostnað, 168 þús., hafa ekki komið nema, eins og ég nefndi áðan, tæpar 50 þús. kr., 47--49 þús. kr. eftir því hvernig það er reiknað. Þarf þá ekki að útskýra það frekar að þarna er um mjög verulegan kostnað að ræða fyrir mörg heimili í landinu, einkum og sér í lagi ef fjölskyldan á marga nemendur í framhaldsskólum. Ef við tökum dæmi af fjölskyldu með þrjá nemendur í framhaldsskóla mundi þar vera um að ræða liðlega 500 þús kr. kostnað yfir veturinn og fjölskyldan fær síðan upp í þann kostnað 150 þús. kr. Mismunurinn er 350 þús. Ég þarf ekki að segja neinum það hér að fyrir tekjulitlar fjölskyldur er þetta nánast óbærileg byrði. Í mörgum tilvikum verða menn að hugsa sig tvisvar um hvort þeir geta sent börn sín í framhaldsskóla miðað við að ekki sé veitt meiri aðstoð en þetta. Auðvitað horfir þetta allt öðruvísi við á þeim stöðum þar sem framhaldsskólar eru. Það er miklu ódýrara að gera út börn í framhaldsskóla ef þau geta verið í heimahúsum og þegið þar fæði og gistingu. Það þarf ekki að útskýra það þannig að þar er vandinn miklu minni en þetta á auðvitað fyrst og fremst við þau heimili þar sem langt er að sækja í framhaldsskóla.
    Ég tel bráðnauðsynlegt að stórhækka þessi framlög. Ég tek eftir því að hv. fjárln. hefur gert tillögu um að þessi liður verði hækkaður um 10 millj., eða úr 86,5 millj. í 96,5 millj., sem vissulega er góðra gjalda vert og engin ástæða til að vanþakka það en aðalatriði málsins er að þarna er um allt of lágar upphæðir að ræða og mikinn vanda hjá viðkomandi fjölskyldum. Mín tillaga er því sú að þessi upphæð sé hækkuð um 50% og að til þessa verkefnis verði varið 130 millj. í staðinn fyrir 96,5 millj. sem yrðu ef tillaga meiri hluta fjárln. verður ofan á.
    Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim tveimur tillögum sem ég flyt við við 2. umr. fjárlaga að þessu sinni en ítreka spurningu mína til hæstv. menntmrh.